::: Voldumvej 80

laugardagur, desember 07, 2002  

::: Afmæli og heimsóknir
Við höfum fengið töluvert af fólki í heimsókn síðasta mánuðinn. Eftir að mamma var hér um mánaðamótin ágúst-september fengum við fyrst heimsókn í byrjun nóvember þegar Bjössi og Þóra gistu hjá okkur í tvígang á leiðinni til og frá Mílanó. Sigurveig var sérstaklega glöð að sjá þau þar sem við ákváðum að segja henni ekkert heldur leyfa Bjössa og Þóru að koma henni á óvart með því að sækja hana í leikskólann. Hún var vitanlega mjög hissa á þessu öllu saman. Síðar í nóvember dvaldi Ragnheiður Stephensen hjá okkur - og í H&M - í nokkra daga.

Sigurveig varð fimm ára 26. nóvember og af því tilefni fengum ýmsa góða gesti í heimsókn. Afi Jónatan og amma Sólveig komu gagngert í afmælið og dvöldu hér ytra í heila tíu daga. Sá tími var nýttur mjög vel. Við héldum upp á afmælið hennar Sigurveigar í tvígang, fórum í Tívolí, skoðuðum Louisiana-safnið í Humlebæk, löbbuðum um fagurlegan jólaskreyttan miðbæinn en síðast en ekki síst "hyggede vi os" ýmist hér heima á Voldumvej eða í "íbúðinni" þeirra afa og ömmu á Livjægergade á Østerbro.

Við héldum fyrst upp á afmælið hennar Sigurveigar á afmælisdaginn með afa og ömmu. Sigurveig hélt síðan barnaafmæli á sunnudaginn var (1. desember) með nokkrum vinkonum sínum af leikskólanum, þeim Lisu, Önnu-Lisu og Amalie. Fjórða stelpan í vinkvennahópnum, Neval, komst þó ekki. Þeim kemur afar vel saman en Sigurveig saknar samt enn vina sinna á Reynihlíð. Síðar þennan sama dag fengum við svo tvær góðar heimsóknir. Fyrst kom Hrafnhildur Skúla ásamt Viktori sínum og Viktoríu, en eins og lesendum ætti að vera kunnugt spilar Hrafnhildur handbolta með úrvalsdeildarliðinu Team Tvis Holsterbro. Henni gengur mjög vel, liðinu síður. Síðast en ekki síst komu Jóna og Grétar í heimsókn og stoppuðu góða stund. Okkur hafði reyndar tekist að hitta þau tveimur dögum fyrr á Strikinu en þau voru hér í helgarferð með hópi vina.

Við bíðum spennt eftir næstu heimsókn því á miðvikudaginn er komið að því að fá ömmu Siggu í heimsókn. Hún ætlar að vera hér fram á sunnudag

Eitt að lokum: Laugardagur til lukku stóð undir nafni fyrir okkur United-menn í dag. Öruggur sigur vannst á Arsenal 2:0 og á sama tíma tapaði Liverpool. Þótt United státi af einstökum árangri á síðustu árum gerist það samt ekki á hverju ári að sigur vinnst bæði á Liverpool og Arsenal í sömu vikunni! Ég hef enn ekki þorað að senda Snorra SMS-skeyti í tilefni af leiknum í dag :-)

posted by Thormundur | 23:19

föstudagur, desember 06, 2002  

::: Velkomin á vefinn
Á þessum vef ætlum við að segja fréttir af litlu fjölskyldunni á Voldumvej 80 sem lifir góðu lífi í Rødovre, Danmörku. Við ætlum að vera dugleg að setja inn fréttir af okkur nú í jólamánuðinum, ekki síst í ljósi þess að við verðum hér ytra um jólin! Stefnan er einnig sett á að menn geti bloggað sig inn á myndavef fjölskyldunnar.

Njótið vel,
Sóley, Þórmundur og Sigurveig

posted by Thormundur | 20:06
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn