föstudagur, desember 27, 2002
::: Friðsæl jól Miðað við allt og allt áttum við afar gleðileg og friðsæl jól. Við vorum mikið í símanum að spjalla við fjölskylduna en þess á milli nutum við þess að gera lítið sem ekki neitt.
Aðfangadagur var nístingskaldur hér í Danmörku en þó alveg rauður. Við komumst þó ófrosin í messu í Rødovre Kirke. Við komum snemma að okkar mati en kirkjan var þó sneisafull af fólki. Það endaði með því að við settumst allra fremst á gólfið ásamt fleirum og hlustuðum - í þetta sinn - á jólasálmana. Sálmabækurnar voru nefnilega líka gengnar út. Messan var fín og að henni lokinni drifum við okkur heim. Sigurveig fékk þá að opna einn pakka fyrir mat og leist foreldrunum best á pakkann frá Guðbjörgu Arneyju og Einari Guðjóni. Hann reyndist vel en í honum var flott dúkka sem Sigurveig tók strax ástfóstri við. Síðan var reiddur fram hamborgarhryggur með öllu tilheyrandi og smakkaðist hann afar vel. Er ljóst að Sóleyju kippir í kokkakynið. Eftir mat var ráðist - skipulega - í pakkana. Sigurveig stjórnaði upptöku pakka eins og henni einni er lagið. Hún fékk auðvitað sjálf flesta pakka - og flesta þá stærstu. Hún var afskaplega glöð og þakklát með alla pakkana, brosti mikið og skellihló allt kvöldið.
Jóladagur var afskaplega ljúfur. Sigurveig fékk loks að leika með nýja spilið sitt, Áfram fyrsti bekkur, sem hún fékk frá pabba og mömmu. Svo var bara leikið með Barbie og Babyborn fram eftir degi og horft á Lottu eða Litlu lirfuna ljótu inn á milli. Um kvöldið spiluðum við Sóley Trivial og kasínu og fóru leikar vel að mínu mati. :-)
Á annan í jólum var komið að íslensku jólaballi í Jónshúsi. Loksins fékk Sigurveig tækifæri til að leika við íslensk börn og dansa í kringum jólatréð. Sigurveig kunni nú öll jólalögin enda ekki lítið búin að hlusta á jóladiskinn sinn fyrir jól. Var meira að segja aðeins byrjuð að spila hann í nóvember! Eftir dansinn í kringum jólatréð komu tveir jólasveinar með Nóa nammipoka. Börnin voru ánægð þótt foreldrunum þættu þeir nú ekkert framúrskarandi góðir.
Blákaldur raunveruleikinn blasti við í morgun. Sóley þurfti að mæta í vinnuna kl. 6 til að sinna þremur börnum af fimmtíu á deildinni! Við erum annars að fá fólk í mat í kvöld, þrjá vinnufélaga Sóleyjar af leikskólanum af yngri kynslóðinni. Við ætlum að kynna þeim hangikjöt, laufabrauð og malt og appelsín, sem við borðuðum fyrst á jóladag með bestu lyst.
Að lokum þökkum við þökkum fyrir góðar gjafir og símhringingar um jólin.
posted by Thormundur |
17:39
þriðjudagur, desember 24, 2002
::: Juleaften Jólastemmningin er í algleymingi. Bing Crosby og Placido Domingo skiptast á að syngja jólalögin. Nóa konfekt á borðum. Sigurveig komin í jólakjólinn og fjölskyldan á leiðinni í kirkju. Stressið víðs fjarri. Sigurveig hefur verið afskaplega dugleg að bíða eftir jólunum. Kertasníkir kom í nótt og gaf henni föt á Barbiestrákinn, eins og hún kallar Ken.
Þetta verða sérstök jól. Í fyrsta sinn að heiman á jólum. Við söknum foreldra okkar, fjölskyldu og vina afskaplega mikið. En ef við lítum á björtu hliðarnar þá fáum við nú að prófa að halda okkar eigin jól. Það er kannski viðeigandi í ár - fyrir nýgiftu hjónin. En eftir heimkomuna munum við samt örugglega halda jólin með fjölskyldum okkar.
Við óskum öllum nær og fjær gleðilegra jóla og vonum að jólahátíðin færi okkur frið og hamingju. Við þökkum fyrir öll jólakortin og góðar jólakveðjur. Þið fáið síðan örugglega að sjá einhverjar myndir frá jólahátíðinni okkar hér í Danmörku.
posted by Thormundur |
14:39
mánudagur, desember 23, 2002
::: Nýjar myndir Erum búin að setja töluvert af nýjum myndum á myndavefinn. Myndir frá jólaundirbúningi, skautaferð og brúðkaupinu. Skrifum meira seinna í dag!
posted by Thormundur |
14:49
|