fimmtudagur, mars 06, 2003
::: Myndir af Mjallhvíti Þá eru komnar myndir af Mjallhvíti. Kíkið á þær! Nú er hægt að skoða stærri útgáfur af myndunum með því að smella á hverja mynd fyrir sig. Þetta á reyndar bara við um myndirnar af Mjallhvíti.
Annars bíðum við bara eftir Valgeiri, sem kemur á morgun, og verður hjá okkur yfir helgina. Annars vill svo skemmtilega til að við fáum nokkrar heimsóknir á næstunni. Á næstunni er til dæmis von á Elísabeti og Birni Friðgeiri. Allir gista náttúrulega á Hótel Voldumvej ****. Einnig koma mamma og pabbi hér við á leiðinni til Ítalíu. Í byrjun apríl verður síðan komið að okkur að ferðast því við ætlum að heimsækja foreldra mína í Bologna. Það verður sem sagt mikið fjör hjá okkur á næstunni! Í maí er svo von á Eggerti Þór, Viggó og Guðbrandi!
posted by Thormundur |
16:19
þriðjudagur, mars 04, 2003
::: Sögur úr borginni Það nýjasta af Sigurveigu er að hún er með lausa tönn! Þetta eru tímamót í hennar lífi. Hún var voða spennt í fyrstu en fór svo skyndilega að finna til í tönninni. Nema hvað. Þetta er enn eitt merki þess hvað hún er að verða "gömul" (og þar með foreldrar hennar líka). Hún ætlar að setja tönnina undir koddann sinn þegar þar að kemur.
Við fengum góða heimsókn um helgina. Hrafnhildur Skúla, Viktor og Viktoría voru í kaupstaðnum og komu til okkar á laugardeginum og gistu eina nótt. Viktoría og Sigurveig náðu vel saman eins og fyrri daginn og voru algjörar samlokur. Þar sem Viktoría er nú heldur yngri, nýorðin tveggja, var það hún sem hermdi allt eftir Sigurveigu. Þetta hefur maður nú upplifað hjá Sigurveigu. Þegar telpurnar voru sofnaðar var eldhúsborðið rýmt og tekið til við að spila. Við Sóley spiluðum í fyrsta sinn Partýspilið, sem er eins konar sambland af Actionary, Pictionary, Trivial Pursuit og fleiri elementum. Alveg einstaklega skemmtilegt spil. Spilaðar voru tvær umferðir svo að tapliðið úr fyrri umferðinni fengi tækifæri á hefnd. Það tókst!
Í gær breyttist Sigurveig í Mjallhvíti í tilefni af Fastelavn, öskudegi þeirra Dana. Hún tók sig vel út í kjól, með síða, svarta hárkollu og rauða slaufu. Reyndar vildi hún varla fara úr kjólnum allan daginn og var meira að segja í honum í fimleikum. Við setjum án efa myndir af Mjallhvíti á myndavefinn mjög fljótt. (Maður skrifar þetta til að setja pressu á sjálfan sig!)
Það kom svo í ljós í gær að Sigurveig er efnileg í markaðsfræðum, sérstaklega í því sem kallað hefur verið bein markaðssókn! Þannig var mál með vexti að á leiðinni í fimleika í gær þurftum við hvað eftir annað að passa okkur á að stíga ekki í hundaskít. Sigurveig var nú nokkuð hneyksluð en ég útskýrði að líklega hefðu eigendur hundanna bara gleymt að þrífa upp skítinn. Ég notaði tækifærið og sagði henni að það ætti að setja hann í poka og henda í ruslið. Henni þótti það bara eðlilegt. Þá spurði hún hvort við þyrftum ekki "að finna alla sem eiga hunda og segja þeim að setja hundaskítinn í poka." Ég útskýrði þá að það gæti orðið erfitt að finna alla hundaeigendur en lagði til að við gætum kannski skrifað í blöðin og bent hundaeigendum á mistök sín (þarna kom upp "gamli" PR-hundurinn í mér). En Sigurveig sá við pabba sínum og spurði einfaldlega: "Getum við ekki bara skrifað öllum bréf og sagt þeim að setja hundaskítinn í poka?" Ég samþykkti það. Bein markaðssókn var auðvitað besta lausnin í stóra hundaskítsmálinu. Ég tek það fram að notaði aldrei hugtökin PR eða beina markaðssókn í spjalli mínu við Sigurveigu :-) Sennilega of fljótt!
posted by Thormundur |
17:41
|