laugardagur, mars 29, 2003
::: Fæst orð hafa minnsta ábyrgð Um landsleikinn er fátt að gott að segja. Fæst orð hafa minnsta ábyrgð. Þó segi ég að frammistaða Íslands var slök, svo slök reyndar að maður efast um að þeir hafi viljað vinna leikinn. Hið eina sem gladdi augað var stungusending Jóhannesar Karls sem gaf markið, Eiður gat ekki annað en skorað. En nú ætla ég ekki að freistast til að skrifa meira.
posted by Thormundur |
18:11
::: Áfram Ísland Það kom okkur skemmtilega á óvart að landsleikur Skota og Íslendinga verður sýndur í beinni útsendingu hér í dönsku sjónvarpi. Og það þótt leikurinn sé að hluta leikinn á sama tíma og leikur Rúmena og Dana. Við kvörtum þó ekki og bíðum spennt eftir útsendingunni. Að sjálfsögðu verður popp og kók með leiknum og fleira góðgæti.
Sigurveig er ennþá með blússandi hlaupabólu en líður þó þokkalega. Hún varð reyndar alveg óhuggandi í gærkvöldi þegar við sögðum henni að vegna veikindanna gæti hún ekki tekið þátt í fimleikasýningu í dag en hún hefur verið í fimleikum/leikfimi einu sinni í viku í vetur. Hún hafði beðið spennt eftir sýningunni ekki síst vegna þess að hún var haldin í íþróttahúsinu hennar mömmu. Sigurveig þekkir það hús út og inn enda nokkrum sinnum fengið að fara með mömmu sinni á æfingar, en nú var það hún sem átti að vera inni á vellinum og pabbi og mamma að horfa á!
PS: Tekið skal fram að fyrirsögnin er ekki stuðningsyfirlýsing við Sjálfstæðisflokkinn! Það er náttúrulega skömm að einn stjórnmálaflokkur steli þessu slagorði og noti í eigin þágu. Og hana nú!
posted by Thormundur |
15:51
föstudagur, mars 28, 2003
::: Smásögur Sigurveig fékk nýja strigaskó á miðvikudaginn. Ekki í frásögur færandi nema vegna þess að hún er komin í skóstærð númer 32! Þið munið að mamma hennar er í nr. 38. Hún á þó langt í pabba sinn og nær honum vonandi aldrei, hennar vegna! Það var reyndar athyglisvert við kaupin að Sigurveig valdi þægindi í stað útlits. Hún hefði getað valið bleika skó með öllu tilheyrandi en sagði hins vegar þegar hún steig í nýju skóna. "Þessir eru svo góðir."
Þennan sama dag ákvað ég að slá tvær flugur í einu höggi og kaupa annan hlut fyrir sumarvertíðina. Skór voru nauðsynlegir en þetta var eins konar sumargjöf. Það þýðir ekkert að bíða fram í seinni part apríl. Við Sigurveig fórum í risaverslun ToysR'Us og keyptum handa henni hlaupahjól! Hún vissi ekkert um fyrirætlanir mínar og var því yfir sig ánægð þegar í ljós kom hvað við foreldrarnir höfðum í huga að gefa henni. Við fjárfestum líka í hlífum fyrir hné, olnboga og úlnliði. Það kom líka á daginn að það borgaði sig því að í fyrstu tilraun með hjólið á miðvikudaginn hrasaði hún lítillega og lagði hendurnar fyrir sig. Þá komu hlífarnir að góðum notum.
Það er gott þegar manns er saknað. Nýlega bárust mér hins vegar saknaðarkveðjur úr óvæntri átt. Í vikunni fékk ég bréf með yfirskriftinni: "Er ekki orðið fulllangt síðan ...?" Hér á eftir fer brot úr bréfinu:
"Finnst þér ekki líka orðið aðeins of langt síðan þú fékkst þér gómsæta Domino's pizzu með uppáhalds áleggstegundunum þínum? Við hjá Domino's söknum þess að hafa ekki heyrt í þér lengi. Þess vegna bjóðum við þér 500 kr. afslátt af næstu pöntun ..."
Við vorum vitanlega afar hrærð yfir þessu bréfi en því miður gátum við ekki pantað pizzu hingað á Voldumvej. Maður ætti samt kannski að athuga hvort afslátturinn gildi hjá Domino's hér í Danmörku. Ég bíð spenntur eftir saknaðarkveðjum frá Vífilfelli og Bæjarins bestu svo aðeins tvö augljós dæmi séu tekin.
posted by Thormundur |
13:13
fimmtudagur, mars 27, 2003
::: Hlaupabóla Sjaldan er ein báran stök. Alla síðustu viku var Sigurveig heima lasin með faraldsroða (fimmta barnasjúkdóminn), sem er afar vægur veirusjúkdómur og veldur útbrotum eða roða í andliti og víðar. Sýkingin var reyndar svo væg að Sigurveig fékk aldrei hita og var alltaf hress. Vegna smithættu varð hún hins vegar að vera inni eða ein úti að leika með okkur. Sjúkdómurinn getur nefnilega verið hættulegur fóstrum í upphafi meðgöngu og því var allur varinn góður.
Sigurveig var bara búin að vera í leikskólanum í tvo daga í þessari viku þegar við uppgötvuðum í morgun að hún væri komin með hlaupabólu! Sem betur fer eru einkenni væg - enn sem komið er. Maður vonar það besta. Annars skilst manni að það sé lán í óláni að fá hlaupabólu sem barn. Því fyrr því betra - ef maður verður fær hlaupabóluna á annað borð. Við foreldrarnir höfum víst bæði fengið hlaupabóluna, þannig að við sleppum. Mæður okkar staðfestu þetta í símaviðtali fyrr í morgun!
posted by Thormundur |
13:10
þriðjudagur, mars 25, 2003
::: Á Íslendingaslóðum Við höfum verið afskaplega lánsöm í mars. Við höfum fengið góða gesti í heimsókn um hverja helgi og nýliðin helgi var auðvitað engin undantekning. Björn Friðgeir var hjá okkur alla helgina en pabbi og mamma komu hér við á leið til Ítalíu og gistu eina nótt á flugvallarhóteli við Kastrup. Það styttist síðan í að við heimsækjum þau!
Við Bjössi tókum miðbæinn með trompi í nokkrum gönguferðum í ágætu sólskinsveðri en fremur kuldalegu framan af. Við gengum um Íslendingaslóðir, þræddum óteljandi hliðargötur í gamla miðbænum og virtum fyrir okkur mannlíf og sögufræg mannvirki. Þess á milli settumst við niður og gerðum vel við okkur í mat og drykk. Við lögðum hins vegar áætlanir um safnaferðir á hilluna í þetta sinn. Það bíður betri tíma.
Það er bara staðreynd að æði mörg kennileiti á Íslendingaslóðum tengjast mannlegum harmleikjum. Þannig skoðuðum við hús nr. 22 við Sankt Peders Stræde þar sem Jónas bjó og hrasaði með alkunnum afleiðingum, gengum framhjá Larsbjørnsstræde nr. 23 þar sem Baldvin Einarsson brenndist, sömuleiðis með örlagaríkum afleiðingum, og loks virtum við fyrir okkur Löngubrú en fram af þeirri brú varpaði Jón Eiríksson, konferensráð, sér árið 1787. Við gengum sömuleiðis framhjá krám þar sem Íslendingar drukku og Garði (Regensen) þar sem landinn bjó og drakk sennilega meira. En auðvitað eru ekki allar Íslendingaslóðir tengdar sorgarviðburðum. Við heimsóttum Jónshús, gengum um Bredgade þar sem Nonni bjó, árið sem hann var innlyksa í Kaupmannahöfn, og gengum loks um æskustöðvar íslenska myndhöggvarans Bertels Thorvaldsen og framhjá safni hans, Thorvaldsenssafni, svo aðeins fátt eitt sé nefnt. Við tókum reyndar þá ákvörðun að tala eingöngu um Bertel sem íslenskan í mótmælaskyni við því að Danir telja hann aldanskan og þykjast ekkert muna eftir íslenskri föðurætt hans.
Við vorum ekki síður duglegir við að fara á góða veitingastaði. Ég held ég fari að gera það að reglu að geta góðra veitingahúsa sem óhætt er að mæla með. Á föstudaginn fengum við einstaklega góðan mat á hádegisveitingastaðnum, Husmanns Vinstue á Larsbjørnsstræde. Þar smurðum við okkar eigin smørrebrød og drukkum Carlsberg með. Góð byrjun á góðri matarhelgi. Á laugardagskvöldið bauð Bjössi fjölskyldunni á veitingastað á Grábræðratorgi, sem einfaldlega heitir Restaurant Gråbrødre Torv 21. Við fengum þar einstaklega góðan mat en staðurinn sérhæfir sig í danskri matargerð. Meðal þess við gæddum okkur á voru Limfjarðarkræklingar, andabringur, unghanabringur og "rødgrød med fløde"!
Á sunnudag komu foreldrar mínir hér við á leið sinni til Bologna á Ítalíu. Við borðuðum öll saman á flugvallarhóteli við Kastrup og Sigurveig fékk síðan að gista hjá afa og ömmu. Henni þótti mikið sport að gista á hóteli og hafði reyndar óþarfa áhyggjur af því að foreldrar hennar myndu gista líka! Daginn eftir - í gær - náðum við að skreppa stuttlega í bæinn og fengum okkur snarl á Ristorante Italiano, elsta ítalska veitingastað borgarinnar, á Fiolstræde, skammt ofan Jórukleifar. Staðurinn klikkar sjaldnast, maturinn einfaldur en góður. Þjónarnir voru líka afar duglegir að skjalla Sigurveigu, kölluðu hana prinsessu og gáfu henni bæði sleikjó og ís. Sjálfsagt draumi líkast í huga Sigurveigar!
Gestir helgarinnar drifu sig svo með stuttu millibili á Kastrup og flugu hvert í sína áttina. Við þökkum kærlega fyrir okkur og samveruna um helgina.
PS: Við erum búin að fá páskaegg frá Nóa! Pabbi og mamma komu með þrjú egg. Eitt lítið sem Sigurveig fékk að klára strax á sunnudag. Hin tvö borðum við auðvitað á páskadag, eitt handa litlu prinsessunni meðan foreldrarnir skipta einu með sér! Bjössi kom líka færandi hendi og færði okkur Nóa-konfekt. Maður fær aldrei nóg af Nóa.
posted by Thormundur |
20:09
|