::: Voldumvej 80

laugardagur, júní 07, 2003  

::: Danir höfðu sigur
Leikurinn á Parken var ekki sá besti sem maður hefur séð en hann var afskaplega spennandi. Danir höfðu sigur þótt ekkert mark hefði verið skorað síðustu 90 mínúturnar! Eina markið kom á fjórðu mínútu og satt að segja ógnuðu Norðmenn mjög lítið allan leikinn. Með það í huga var sigurinn fyllilega verðskuldaður. Danir höfðu meira vilja og meiri trú á því sem þeir voru að gera. En riðillinn er orðinn mjög spennandi, Danir og Norðmenn með tíu stig og Rúmenar með níu. Nú eiga Danir Lúxemborgara í næsta leik á útivelli en Norðmenn taka á móti Rúmenum heima. Nóg í bili um fótbolta. Meiri Evrópubolti á miðvikudag.

posted by Thormundur | 21:21
 

::: Náði sigurmarkinu heima
Hálfleikur hér úti en Ísland hafði sigur heima gegn Færeyjum. Haldið þið ekki að ég hafi ekki séð sigurmarkið í beinni! Leikurinn var í beinni á þýsku stöðinni ARD (Þjóðverjar með okkur í riðli) en útsendingin var ekki í auglýstri dagskrá. Ég hafði auðvitað kannað málið. Ég var hins vegar svo heppinn að kíkja yfir á ARD þegar það var dauður punktur í leik Dana og Norðmanna. Viti menn - tíu mínútur eftir. Ég hafði þó fylgst með leiknum á netinu og vissi að við höfðum ekki nýtt nokkur færi og að Færeyingar hefðu jafnað úr eina færi sínu. En svo kom Tryggvi og skallaði okkur til sigurs. Naumur en afar sanngjarn sigur. Þetta þýðir að þrátt fyrir allt erum við enn með í baráttunni, ekki síst eftir jafntefli Skota og Þjóðverja í dag.

Annars eru Danir yfir gegn Norðmönnum 1:0. Jesper Grønkjær skoraði eftir aðeins fjórar mínútur. Ég heyrði í Sóleyju áðan. Hún hélt að þakið myndi hrynja yfir sig þegar Danir fögnuðu. Annars hefur hún ekki selt neinn bjór - hún var sett í pylsurnar!

posted by Thormundur | 20:20
 

::: Ólýsanleg stemmning
Það er hálfleikur heima og 25 mínútur í stórleikinn á Parken. Sóley sjálfsagt búinn að selja tugi lítra af bjór. Við fórum annars í bæinn í dag og hittum Pálma. Urðu fagnaðarfundir. Við gengum um bæinn og upplifðum einstaka stemmningu. Þúsundir Dana og Norðmanna voru að hita sig upp fyrir leikinn með söng, hvatningaröskrum og bjórdrykkju. Bærinn var rauður og hvítur aðallega en íslensku fánalitirnir voru líka áberandi - það er í norsku útgáfunni.

Við komum við í Nýhöfn og það var ótrúleg sjón. Höfnin var troðfull af glöðum fótboltaáhangendum beggja landsliða og þegar við komum voru menn að keppa í þjóðsöng. Danir unnu vitanlega enda miklu fleiri og þjóðsöngurinn auðveldari í flutningi. Það flottasta sem ég hef nokkurn tímann upplifað hér í Danmörku er reyndar þegar áhorfendur á Parken syngja þjóðsöng sinn allir sem einn. Maður fær gæsahúð. 40 þúsund manns sem syngja í takt. Alveg hreint magnað.

En hvort ég held með Dönum? Það er ekki alveg víst. Ég vona allavega að Ole Gunnar Solskjær skori nokkur mörk. Ef Danir skora fleiri verðskulda þeir sigur.

posted by Thormundur | 19:07

fimmtudagur, júní 05, 2003  

::: Önnur löng helgi framundan
Í dag er þjóðhátíðardagur Dana, Grundlovsdagen. Dagurinn stendur þó vart undir nafni því engin þjóðhátíð er haldin, engar skrúðgöngur og engar skipulagðar skemmtanir. Á þessum degi minnast menn fyrstu stjórnarskrár Dana sem tók gildi þann 5. júní 1849. Nýjasta útgáfa stjórnarskrárinnar fagnar hins vegar fimmtugsafmæli sínu í ár. Þjóðhátíðardagurinn er frídagur víðast hvar og jafnframt byrjun á annarri langri helgi. Reyndar er vinnudagur á morgun - svona til málamynda - en svo koma þrír frídagar vegna hvítasunnuhelgarinnar.

Það er margt sem til stendur að gera um helgina en efst á lista er heimsókn Pálma vinar okkar, sem er í ferðalagi um Svíþjóð og Danmörku með samkennurum sínum úr Safamýrarskóla. Við munum hitta hann um helgina en hann var væntanlegur til Köben í dag frá einu úthverfa borgarinnar - Malmö í Svíþjóð. :-)

Annars bíður danska þjóðin í eftirvæntingu eftir uppgjöri Dana við Norðmenn á knattspyrnuvellinum, nánar tiltekið á Parken á laugardaginn. Þjóðirnar leika í sama riðli í undankeppni EM og óhætt er að segja að allt sé á öðrum endanum hér í Danmörku - og auðvitað líka í Noregi. Fyrri leikur liðanna í riðlinum endaði með jafntefli 2:2. Eftir þann leik hófst mikið orðaskak milli þjálfara annars vegar og fjölmiðla í hvoru landi hins vegar. BT hóf sálfræðistríðið að nýju í upphafi vikunnar með háðulegri úttekt á frændþjóð sinni sem þeir kölluðu þjóð tapara. Greinin vakti strax hörð viðbrögð í Noregi, sem kallaði á andsvör í dönsku pressunni og svo framvegis. Leikmönnum hefur hins vegar verið bannað að tjá sig, að minnsta kosti bannað að vera ögrandi í viðtölum. Norðmenn standa vel að vígi fyrir leikinn, eru efstir í riðlinum með 10 stig en Danir í öðru sæti með 7 stig. Það þarf því engan snilling til að átta sig á mikilvægi leiksins. Danir verða helst að vinna því aðeins efsta liðið tryggir sér farseðil til Portúgal. Liðin í öðru sæti þurfa hins vegar í umspil. Hins vegar snýst þessi leikur ekki síður um stolt en stig.

Ég verð því miður að láta mér nægja að horfa á leikinn í sjónvarpi en Sóley fær hins vegar að fara á Parken! Hún mun þó sjá minnst af leiknum því hún og liðsfélagar hennar í handboltanum munu selja bjór á leiknum til að afla fjár fyrir liðið. Nóg að gera hjá henni! Ég öfunda hana samt mjög mikið því stemmningin verður engu lík á leiknum. Það hef ég upplifað tvisvar, þótt stemmningin hafi orðið heldur súr þegar leið á leikinn í seinna skiptið.

posted by Thormundur | 23:53
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn