::: Voldumvej 80

föstudagur, nóvember 07, 2003  

::: Aðhaldi lokið!
Undirritaðri hefur tekist hið ótrúlega, tæp sjö kíló fokin á tveimur og hálfum mánuði. Og því var fagnað með stæl í kvöld. Ég gæddi mér á Nóa-Síríus súkkulaði sem ég hef geymt í ísskápnum síðan 1. september sl. Breytt mataræði gerði það að verkum að kílóin fuku og er ég einstaklega ánægð með árangurinn. Minn elskulegi eiginmaður, sem hefur verið mín stoð og stytta í bardaganum, er þó í léttu stresskasti þar sem svona kílóatapi fylgir endurnýjun á fataskápnum. En ég verð nú að segja að ég hef sjaldan notið þess jafn vel að borða súkkulaði og í kvöld, ótrúlegt að ég skuli hafi getað haldið mér frá því í svo langan tíma. Þetta segir nú bara að allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi. Maður er nú ekki formaður karaktersklúbbsins fyrir ekki neitt!

Ekki eru síður ánægjulegar þær fréttir að mér hefur loksins tekist að koma mér í liðið eftir meiðslin. Það tók lengri tíma að sannfæra þjálfarann en ég hafði gert ráð fyrir. Þó verð ég að segja að það er hollt fyrir alla að þurfa að berjast fyrir sæti í liðinu - þá er ég að tala um að komast í hópinn en ekki í byrjunarlið. Hinn markmaðurinn í liðinu mínu, hún Sarah, æfði með Slagelse síðastliðin tvö keppnistímabil og er mjög góð. Hún er byrjunarliðsmarkmaður og ég vara - ég er nú reynslubolti í þeim geiranum. Við keppum í Haderslev á Jótlandi á sunnudaginn við heimakonur þar í bæ. Vonandi krækjum við okkur í tvö stig þar og höldum okkur í toppbáráttunni.

posted by Soley | 23:31

mánudagur, nóvember 03, 2003  

::: Hvað gerir maður ekki fyrir súkkulaði?
Hún dóttir mín á ekki langt að sækja dálæti sitt á súkkulaði. Verð víst að taka það á mig. Á sunnudaginn bað daman um brauð með súkkulaðiáleggi (pålægchokolade). Þá sagði ég henni að hún fengi það ef hún gæti stafað orðið súkkulaði. Og viti menn, hún fór létt með það - mömmunni til mikillar undrunar og ánægju. Þrátt fyrir að það sé langur tími síðan hún lærði stafina og sé farin að reyna vel við lesturinn þá fannst mér þetta nokkuð vel af sér vikið. Mjög mikilvægt að vera með svona smáatriði á hreinu ;-)

Helgin var afar notaleg hér á Voldumvej. Henni var eytt í bakstur (nema hvað!), þrif, spilamennsku, leik, göngutúr og mikla afslöppun. Nú erum við farin að telja dagana í Völu og Jóa en þau koma á fimmtudaginn í næstu viku til borgarinnar. Við eigum án efa eftir að skemmta okkur vel. Svona fyrir forvitna eigum við Þórmundur 12 ára sambandsafmæli þann 14. nóvember og ekki er nú verra að fagna því í góðum félagsskap.

posted by Soley | 19:49
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn