::: Voldumvej 80

fimmtudagur, desember 18, 2003  

::: Á morgun er gleði og gaman!
Ótrúlegt en satt þá er að koma að heimferðinni. Á morgun mætum við á klakann. Allir eru að springa úr spenningi og mest af öllu Sigurveig auðvitað. Nú er hún meira segja önnum kafinn inni í herbergi að taka til og raða öllu dótinu á rétta staði. Hún var ekki alveg nógu ánægð með mig þegar ég tók sængina hennar til að viðra hana. "Mamma ég var búin að búa svo vel um". Ég lofaði að ganga frá eftir mig.

Aðfaranótt þriðjudagsins síðasta renndu Hrabbý, Valur, Sævar Örn og Valgerður Ósk í hlað eftir tíu tíma keyrslu frá Þýskalandi. Frábært að fá þau í heimsókn þó stutt væri. Sigurveig vaknaði og krakkarnir léku sér frá 01:15 til 02:30 - um miðja nótt. Síðan var farið snemma á fætur til að nýta allan mögulegan tíma til að spjalla. Þau flugu svo til Íslands um hádegið - alsæl eftir að hafa gætt sér að gómsætu konfekti (varð að koma því að :-) )

Nú er ég komin í jólafrí í boltanum, þ.e.a.s. hérna í Danmörku. Er mikið að spá í að skreppa á æfingar heima, það væri frábært að hitta stelpurnar aftur. Valsstelpurnar verða fyrir valinu að þessu sinni, ótrúlegt að ég þekki varla nokkurn í Stjörnunni, þó að það séu bara tvö og hálft ár frá því að ég yfirgaf klúbbinn. Já ég veit það - ég er bara orðin gömul!

Nú er best að fara pakka niður. Jólagjafirnar taka gott pláss í töskunum, verða kannski hálftómar á leiðinni til Danmerkur aftur. Annars er ég auðvitað að fara til "útlanda" og í útlöndum kaupir maður sér alltaf fullt af fötum ekki satt? ;) Nei, ætli ég fari þá ekki frekar með þær hálftómar heim :).

Sjáumst hress í jólastemningunni heima á Íslandi!

posted by Soley | 16:48

mánudagur, desember 15, 2003  

::: Fjórir dagar í Ísland!
Bara fjórir dagar þangað til ... getum varla beðið. Sigurveig er eins og gefur að skilja spenntari en allt spennt yfir því að komast heim á frónið. Sagði eftir kvöldmat með tár í augum og grátstaf í kverkum að hún vildi fá ömmur sínar og afa.

Þegar ég var búin að lesa fyrir Sigurveigu í kvöld fyrir svefninn báðum við bænirnar sem ekki er í frásögur færandi. Þá segir þessi elska að hún ætli líka að tala við guð. "Mamma, hvernig segir maður "kære gud" á íslensku?" Kæri guð svaraði ég. Bænin hljómaði svona frá prinsessunni: "Ég vildi bara segja þér að ég þarf bara að fá fjórum sinnum í skóinn meira því eftir fjóra daga er ég sko farin til Íslands. Amen". Síðan spurði hún mig aftur, "mamma, talar guð við jólasveininn?". Mér fannst þetta alveg svakalega sætt allt saman og sýnir þetta okkur foreldrunum að trúin á jólasveininn er ekki alveg brostin.

Núna í þessum skrifuðu orðum eru Hrabbý og fjölskylda á leiðinni til Kaupmannahafnar. Fyrir um hálftíma síðan voru þau að nálgast Puttgarten en þaðan sigla þau til Rødby á Lálandi. Þá er bara einn og hálfur klukkutími til okkar. Þannig að nú er ekki seinna en vænna að fara að taka til góðgæti svo að fjölskyldan geti fengið "natmad" þegar þau koma. Og að sjálfsögðu verður heimagerða konfektið á borðum, uhmmm.

posted by Soley | 21:51

sunnudagur, desember 14, 2003  

::: Fimm dagar í Ísland!
Já, nú eru bara fimm dagar þangað til við leggjum í hann heim til Íslands. Það verður alveg dásamlegt að komast heim í faðm fjölskyldu og vina.

Því miður fengum við ekki Hrabbý og fjölskyldu í heimsókn í dag. Sævar hefur verið veikur að undanförnu og þau urðu því að fresta heimsókn sinni. Þau eiga reyndar flug frá Kaupmannahöfn þannig að þau koma hér aðeins við á leið í flugvél heim. Vonandi jafnar Sævar sig fljótt svo þau geti komið í heimsókn til Köben við annað tækifæri. Þau fá ekki frið fyrir pressunni hérna megin fyrr en við höfum þau hérna á stofugólfinu. Þannig að ég sé mig næstum því neydda til að borða nammi í kvöld og ímynda mér að Hrabbý sitji mér við hlið. Við hittumst síðan hress og kát á fróninu áður en langt um líður.

Í gær bjó ég til jólakonfekt ásamt Trine vinkonu minni. Ég gerði hvorki meira en minna en þrjár sortir - átti náttúrulega von á Hrabbý í heimsókn - og smakkast þær hver annarri betri. Tengdamamma fær síðan væntanlega vatn í munninn þegar ég minnist á viskítruflur með pistasíuhnetum - uhmmmm.

Í dag spiluðum við Rødovre píur á móti Ajax. Riðum ekki feitum hesti frekar en í síðustu leikjum og töpuðum 30-23 (minnir mig, man yfirleitt bara hvort ég hef unnið eða tapað;-)). Kom inná og spilaði í fjörutíu mínútur og gekk bara ágætlega - en dugði því miður ekki til sigurs. Við förum því í jólafrí í 7. sæti, ekki alveg nógu gott.

posted by Soley | 18:23
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn