::: Voldumvej 80

föstudagur, mars 19, 2004  

::: Oddur Fannar og Tómas Ingi
Litlu prinsarnir hafa verið nefndi. Frænkan í Danmörku er afar hrifin af nöfnunum og óskar þeim innilega til hamingju. Allt gengur vel hjá þeim og þeir braggast vel. Bara að ég gæti fengið að sjá þá með berum augum en ég verð víst að bíða aðeins. Sendi áfram góðar hugsanir til þeirra.

Annars má segja að handboltaferli mínum í Danaveldi sé lokið. Í gær fingurbrotnaði ég á æfingu. Þar kom punktinn yfir i-ið á miklum meiðslavetri hjá mér. Ég hef kannski verið að taka út meiðslaleysi á annars löngum handboltaferli. Fremri kjúkan á vísifingri vinstri handar brotnaði. Ég er með spelku á fingrinum og á að hafa hana í fjórar vikur. Ég fékk bolta framan á fingurinn eins og maður hefur nú prófað u.þ.b. milljón sinnum áður, en nú þurfti hann að brotna. Augljós skilaboð - þetta er komið gott, ég er orðin of gömul í þetta. Þannig að nú verð ég að vona að Rødovre-píur klári þetta án mín, en það er nú alltaf söknuður eftir góðum varamönnum. ;-)

Ég held ég skelli mér þá bara í langhlaupin af miklum krafti. Eins og sumir vita er ég á einhven óskiljanlegan hátt mikið fyrir útihlaup. Eftir að Þórmundur fór til Íslands höfum við Sigurveig farið að hlaupa saman, þ.e. ég hlaupandi og Sigurveig á hjólinu. Það finnst okkur mjög skemmtilegt! Fyrr en varir verður hún farin að skokka með mér.

Annars ætlar Sigurveig að passa vel uppá mömmu sína með brotna fingurinn. Í morgun vildi hún helst klæða mig og vildi fara að drífa í uppvaski þar sem mamma hennar ætti erfitt með það. Svo segir hún inn á milli: "Mamma, þú getur ekkert farið á æfingu í kvöld, er það nokkuð? Gott þá verðum við bara saman."

posted by Soley | 12:07

þriðjudagur, mars 16, 2004  

::: Til hamingju Dísa, Jöri og Sigrún María!
Dísa hetja fæddi stelpu og strák í dag. Þau eru víst stór og stæðileg og allt gekk vel. Við sendum þeim bestu hamingjuóskir hér frá Køben. Maður veit bara ekki í hvorn fótinn maður á að stíga þessa dagana yfir öllum þessum börnum. Langar helst að taka næstu vél heim og knúsa þau öll saman!

Allt gengur vel hjá litlum nýfæddu frændunum mínum. Hvet ykkur til að kíkja á fyrstu myndirnar af þeim á síðunni þeirra á Barnalandi. Þeir eru svo fallegir og yndislegir. Myndin af Helgu með annan þeirra í fanginum fær mann bara til að tárast. Ég samgleðst þeim svo innilega. Eins og þið áttið ykkur kannski á er ég alveg í skýjunum yfir þessu öllu!

Í kvöld er foreldrafundur í skólanum hjá Sigurveigu. Ég fer því ekki á æfingu og mæti á fundinn eins og ábyrgðafullu foreldri sæmir. Pössunarpían okkar hún Cicilia (frænka hennar Clöru) kemur og passar hana. Hún hefur passað Sigurveigu og gekk það bara skínandi vel. Þannig að þær eiga eftir að skemmta sér vel í kvöld. Annars er vert að minnast á að til að lokka danska (og íslenska auðvitað) foreldra á foreldrafund í skólum er yfirleitt boðið upp á áfenga drykki. Í kvöld er byrjað á rauðvíni og ostum! Það er spurning hvort maður byrji að drekka rauðvín í kvöld, nei annars ég held ég láti það bara vera. Þó það væri bara "prinsip" atriði! Það er náttúrulega bara fáránlegt að mínu mati að bjóða upp á áfenga drykki í slíku tilefni.

posted by Soley | 18:15

mánudagur, mars 15, 2004  

::: Tvíburar fæddir í fjölskyldunni!
Helga Jóhanna og Hjalti eignuðust tvo heilbrigða drengi í gærkvöldi. Ég óska þeim innilega til hamingju. Það er varla færri hamingjusamari en þau núna, enda hefur langþráður draumur þeirra ræst. Þeim lá nú reyndar dálítið á, fæddust níu vikum fyrir tímann. En þetta eru greinilega drengir með sjómannsblóð og spjara sig því vel. Það þarf sjálfsagt engum að koma á óvart að ég grét úr gleði í gærkvöldi. Þetta er allt saman svo yndislegt að ekki er hægt að finna orð sem lýsa því næginlega vel. Enn og aftur til hamingju Helga og Hjalti!

Svo á morgun er stóri dagurinn hjá Dísu, Jöra og Sigrúnu Maríu. Þá eiga tvíburarnir þeirra að koma í heiminn. Þvílíkt barnalán í kringum mann. Ég sendi allar mínar góðu hugsanir til þeirra og hlakka til að fá fréttir. Og ég og Sigurveig hérna í Danmörku á meðan á öllu þessu stendur. En það verður bara enn skemmtilegra að koma heim fyrir vikið.

Svo eru það smáatriðin í samanburði við ofannefndar fréttir. Við Rødovre-píur unnum Helsingør í gær, 21-17. Ég kom inná í einu vítakasti og varði það. Stendur ekki einhvers staðar að það sé gott að eiga góða varamenn?!? Næsti leikur er svo á móti Roar, heimaleikur sem ekki væri leiðinlegt að vinna - hvenær er annars leiðinlegt að vinna?

Þórmundur er kominn á klakann. Við mæðgurnar erum strax farnar að sakna hans mikið og teljum því dagana fram að páskafríinu en þá kemur hann til okkar aftur. Sigurveig er alveg með þetta á hreinu, eftir 16 daga kemur pabbi - með stórt páskaegg!

posted by Soley | 17:47
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn