::: Voldumvej 80

fimmtudagur, mars 25, 2004  

::: Sigurveig söngstjarna!
Sigurveig hélt sína fyrstu tónleika fyrir almenning í gær. Um þessar mundir eru Olsen bræðurnir í miklu uppáhaldi hjá skvísunni og þá auðvitað besta lagið þeirra Smuk som et stjerneskud (sem vann Júróvisjon 2000). Í gær eftir skóla byrjaði hún að hlusta á lagið og söng auðvitað með af mikilli snilld. Ég var að tala við Heiðu í símanum á meðan. Sigurveig hafði lokað hurðinni í herberginu svo að ég gæti nú heyrt eitthvað í henni Heiðu. Síðan kom hún allt í einu fram og náði í flíspeysuna sína en dreif sig inn aftur og hélt áfram að syngja. Þegar hún var búin að hækka heldur mikið í tækinu (og var að spila lagið í 35. skipti!!) ætlaði ég að biðja hana að lækka aðeins. Þegar ég kom inn í herbergið kom í ljós til hvers flíspeysunnar var þörf. Hún hafði galopnað gluggann - sem er mjög stór - sat upp á stól með mígrafón af smábarnakasettutækinu sínu í hendinni og hélt þessa fínu tónleika fyrir vegfarendur á enginu góða. Ég get sagt ykkur að ég var að deyja úr hlátri (hló þau auðvitað ekki), þetta var bara snilld. En ég hvatti hana bara til að halda áfram og dreif mig fram í stofu til að reyna að bæla í mér hláturinn. Þetta var frábær hugmynd hjá henni og hún hefur pottþétt eignast marga aðdáendur!

Gummi frændi kom í gærkvöldi hingað á Voldumvej. Það urðu miklir fagnaðarfundir. Þó að það sé langt síðan við höfum haft svona góðan tíma til að spjalla skipti það engu máli, allt var eins og það var í gamla daga. Síðan bætast Guðrún og Hulda Sóllilja í hópinn á morgun. Sigurveig ætlar ALEIN með hana út að moka, mikið sport að passa litlu frænku. Annars er hún alltaf jafn yndisleg hún Sigurveig, sagði að ef Hulda Sóllilja kæmi áður en hún kæmi heim úr skólanum ætti ég bara að segja henni að hún mætti alveg leika með dótið hennar. Þær eiga eftir að skemmta sér konunglega saman.

Ég fór í myndatöku með fingurinn í dag. Fékk að vita að brotið er á mjög slæmum stað, það er sin sem hangir í brotinu sem er víst ekki gott. Þannig að ég þarf að fara sérlega varlega og fer svo aftur í myndatöku eftir viku.

Sigurveig á að sýna fimleika á laugardaginn. Hún hlakkar mjög mikið til - í fyrra fékk hún nefnilega hlaupabólu og gat því ekki tekið þátt í fimleikasýningu síðasta árs. Sýningin verður í íþróttahúsinu sem ég æfi og keppi í, en nú er það hún sem verður inni á vellinum en ég í áhorfendastúkunni. Sannarlega mikið sport fyrir dömuna, sem á eftir að standa sig eins og hetja.

posted by Soley | 23:16

sunnudagur, mars 21, 2004  

::: Rok og rigning!
Það má með sanni segja að hér sé íslenskt veður eins og það gerist leiðinlegast, rok og rigning. Við Sigurveig létum okkur þó hafa það og fórum í göngutúr í morgun. Við fórum og keyptum brauð og ávexti á bensínsstöðinni og aðalsportið hjá skvísunni litlu var að labba heim aftur húfulaus. Hana langaði svo mikið til að fá blautt hár. Þar sem mér fannst slíkt hið sama afar spennandi sem barn fékk hún leyfi til þess. Á meðan kólnaði súkkulaðikakan sem við bökuðum í morgun. Þannig að það verður veisla í kaffitímanum hér á Voldumvej.

Við Rødovre-píur gerðum okkur lítið fyrir og unnum Roar í gær. Leikurinn endaði með eins marks sigri en við vorum 4-5 mörkum yfir allan leikinn. Nú þurfum við að vinna Freja á laugardaginn, Roar og Fredericia þurfa að tapa og þá erum við í 6. sætinu umtalaða. Þannig að nú krossleggja allir fingur og tær - ég læt tærnar duga að þessu sinni. Annars hefur fingurinn minn það ágætt. Það er þó mikill sláttur í honum ennþá og skrýtin sviðatilfinning í brotinu. Sjúkraþjálfarinn minn (kalla hann fyrir minn þar sem ég er búin að eyða miklum tíma með honum í vetur) hann Morten sagði að hugsanlega lægi taug þarna nalægt sem ylli þessum sviða. En það verður spennandi að sjá röntgenmyndir á fimmtudaginn.

Á miðvikudaginn kemur Gummi frændi í heimsókn. Hann ætlar auðvitað að gista hjá okkur og eigum við væntanlega eftir að skemmta okkur vel. Hann er að fara á fundi hér í Køben. Síðan á föstudaginn slást Guðrún og Hulda Sóllilja í hópinn. Sigurveig hlakkar mikið til að fá litlu frænku sína til að leika við - þær urðu nefnilega svaka góðar vinkonur um jólin.

12 dagar í Þórmund. Við mægðurnar teljum dagana skipulega á sérútbúnu dagatali. Næsta vika líður væntanlega hratt og svo er maður allt í einu farinn að telja dagana á fingrum annarrar handa.

Við Sigurveig ætlum að fá okkur hangikjöt í kvöldmat. Pabbi var svo yndislegur að koma með það með sér í vetur og tókum við það úr frystinum í gær. Ilmurinn lætur mann bara fá vatn í munninn. Sigurveig er alsæl með þetta enda hangikjöt einn af uppáhaldsréttum hennar. Nammi namm...

posted by Soley | 14:42
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn