::: Voldumvej 80

miðvikudagur, apríl 14, 2004  

::: Sól og sumarylur!
Hér er svo sannarlega komið sumarveður. Á mánudaginn dreif ég mig niður í geymslu og náði í sessurnar í sólstólana. Síðan kom ég mér haganlega fyrir í sólstól - komin í hlýrabol í fyrsta skipti á þessu ári - með Noruh Jones á fóninum. Síðan lá ég eins og skata í sólbaði á meðan Sigurveig lék sér úti á leikvellinum. Rigtig, rigtig hyggeligt!! Spáin hljóðar upp á 16-18 gráður það sem eftir er af vikunni og um helgina. Það er nátttúrulega bara snilld þar sem Elísabet, Ari Halldór og Elías eru einmitt að leggja í hann hingað til Køben í þessum skrifuðu orðum.

Sigurveig greyið varð þó lasin í gærkvöldi. Hún fékk hita og kastaði upp en er miklu betri í dag. Við erum heima og vonandi verður hún orðin eldhress um hádegið þegar innrásin á sér stað. Ekki mikill tími til að verða lasin núna. Annars á ég að losna við spelkuna af fingrinum á morgun. Eins gott enda er ég orðin þokkalega þreytt á þessu. Ég hef verið ansi dugleg að hlaupa undanfarið enda handboltinn búinn. Það er auðvitað þvílíkur lúxus að hafa Damhusengen og Damhussøen hérna bakvið hús - frábær kvennahlaupshringur.

posted by Soley | 09:18

sunnudagur, apríl 11, 2004  

::: Barn náttúrunnar
Það er sko sannarlega komið gott veður hérna hjá okkur. Sigurveig elskar að vera úti að leika sér og það besta er að hún leikur bara við þá krakka sem eru úti á leikvellinum hverju sinni. Það skiptir minnstu máli hvort hún þekkir þá eða ekki. Þess á milli hjólar hún á hjólinu sínu, skautar um á línuskautunum eða rennir sér á hlaupahjólinu. Hún kom inn klukkan átta í kvöld eftir að hafa verið úti frá því klukkan hálf ellefu í morgun. Skaust rétt inn til að borða páskamatinn. En að sjálfsögðu tók hún daginn snemma enda hlakkaði hún mikið til að borða páskaeggið sitt. Klukkan 06.18 sagði skvísan: Gleðilega páska! Við sömdum um að hún skoðaði bók þar til klukkan yrði sjö. Síðan smakkaði hún alsæl á egginu sínu og klíndi smá súkkulaði í lakið sem mömmunni finnst svo huggulegt. Í kvöld fékk hún sér líka góðan skammt af eggi - þegar hún loksins kom inn.

Við erum búin að hafa það einstaklega gott um páskana hérna á Voldumvej. Við erum fyrst og fremst búin að njóta þess að vera saman enda fer Þórmundur heim til Íslands á morgun. Við hittumst síðan næst 2. maí - 20 dögum síðar - þegar við Sigurveig skreppum heim á klakann í viku. Við eigum eftir að sakna hans mikið en vonandi að vorblíðan eigi eftir að láta tímann líða hratt.

Á miðvikudaginn er síðan von á innrás úr Lautarsmáranum. Elísabet, Ari Halldór og Elías koma í heimsókn og verða hjá okkur fram á sunnudag. Það verður án efa svakalegt fjör og þéttskipuð dagskrá. M.a. ætlum við í Tivoli en það opnar á föstudaginn eftir vetrarlokun. Þar er auðvitað mest spennandi hinn nýi rússíbani, en í honum fer maður í tvo hringi. Sigurveig segist alls ekki vilja prufa hann - enda mætti hún það sjálfsagt ekki jafnvel þótt hún hefði áhuga á því.

posted by Soley | 21:15
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn