::: Voldumvej 80

laugardagur, apríl 24, 2004  

::: Svaka partý
Eftir klukkutíma leggjum við Rødovre-píur af stað til Ringsted. Þar ætlum við að eyða næsta sólarhring saman og skemmta okkur með tilheyrandi hætti. Við verðum heima hjá Morten sjúkraþjálfaranum okkur. Dagskráin er mjög einföld, hygge, hygge, hygge. Ég tek smá gjöf með handa Morten enda er hann búin að vera mín stoð og stytta í boltanum í vetur. Ég er búin að eyða meiri tíma hjá honum á nuddbekknum og á stofunni hjá honum í vetur heldur en inni á vellinum. Ég pakkaði gjöfinni inn í sárabindi og fannst mér ég alveg svakalega fyndin! Nánari fréttir af partýinu síðar.

Í nótt kom Bjössi bróðir frá Spáni. Hann heldur því miður heim á leið í kvöld aftur þannig að við erum búin að kveðjast nú þegar. Sigurveigu fannst frábært að hitta frænda sinn og var hann svo heppinn að fá "Diddle" pappír að gjöf frá henni. "Diddle" er aðal æðið í skólanum hjá skvísunni, "Diddle" er mús sem prýðir bréfsefni og skiptast allir á mismunandi blöðum, frímerkjum o.s.frv. Sigurveig er sem sagt kominn á býtt-skeiðið, hver hefur ekki gengið í gegnum það.

Núna er Sigurveig farin í afmæli til Michelle vinkonu sinnar. Þetta verður löng afmælisveisla þar sem Sigurveig gistir hjá Michelle og fjölskyldu þar sem mamman er að fara í partý. Á morgun þegar ég sæki hana ætlar Michelle að koma heim með okkur heim og gista. Sem sagt svaka fjör í vændum hjá okkur mæðgum!

Átta dagar í Ísland - og sameiningu fjölskyldunnar aftur. Við hlökkum svakalega til að knúsa pabba - eftir þriggja vikna aðskilnað. Jibbí!

Hvet alla til að skrifa í gestabókina - gaman að fylgjast með hverjir kíkja á síðuna.

Kan I ha' en rigtig god weekend!

posted by Soley | 13:26

sunnudagur, apríl 18, 2004  

::: Frábær helgi!
Elísabet, Ari Halldór og Elías héldu heim á leið í morgun eftir frábæra dvöl í Danaveldi. Það má með sanni segja að við skemmtum okkur konunglega saman. Þau komu á miðvikudaginn, beint í þvílíka blíðu sem virðist engan endi ætla að taka. Við systurnar byrjuðum auðvitað aðeins á því að kíkja í búðir og gerði ég allt sem í mínu valdi stóð til að systir mín sankaði að sér sem flestum pokum. Má segja að hún hafi staðið sig alveg þokkalega í búðunum. Föstudagurinn var tekinn með trompi. Þau byrjuðu á því að fara í dýragarðinn um morguninn og svo hittumst við í bænum síðdegis. Þá drifum við okkur í Tívolí. Ég, Sigurveig og Ari Halldór keyptum okkur "turpas" þannig að við gátum prófað öll tækin. Elías fékk að sjálfsögðu að prófa öll tæki fyrir gaura á hans aldri - og það sem hann skemmti sér vel. Við Ari Halldór gerðumst svo frökk að prófa nýja rússíbanan, "Dæmonen". Í einu orði sagt var hann brjálæðislegur. Hann fer í þrjá hringi, hrikalega brattur og ógeðslega hraður. Menn segja að turninn sé ekkert miðað við þennan, þannig að maður ætti nú að prófa turninn áður en við flytjum heim. En við sjáum nú til með það. Um miðnætti sáum við síðan opnunarflugeldasýninguna og var hún ekki af verri endanum.

Í gær tókum við því rólega enda alveg búin eftir föstudaginn. Við fórum og sáum Ydun spila við Tvis-Holstebro. Íslendingaliðið frá Holstebro sigraði örugglega í leiknum. Það var mjög gaman að sjá að það voru samlandar mínir sem réðu leikum og lofum á vellinum og stóðu þær sig allar mjög vel. Það verður spennandi að heyra hvernig seinni leikurinn fer - en fyrir þá sem ekki vita eru þessi lið að keppast um að komast í umspil um sæti í úrvalsdeildinni.

Og í morgun kvöddumst við svo eftir frábæra helgi. Við Sigurveig drifum okkur út að skokka - og hjóla. Eftir hádegi fórum ég, Sigurveig og Clara síðan út á engi að reyna að fljúga flugdrekanum. Það gekk hálf brösulega og við ályktuðum að það hefði verið of mikið rok. Við lékum okkur þess vegna bara á leikvellinum á enginu í staðinn.

Í dag eru fjórtán dagar þangað til að við Sigurveig fáum að knúsa Þórmund aftur. Vonandi verður tíminn fljótur að líða. Við söknum hans að sjálfsögðu mjög mikið. Þegar við vorum búnar að biðja bænirnar þegar Sigurveig var að fara sofa í kvöld sagðist hún þurfa að tala við guð. Þá sagði hún "Góði guð, viltu passa pabba og ömmu og alla sem ég þekki á Íslandi... pabbi minn er sko á Íslandi núna..".

posted by Soley | 22:28
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn