::: Voldumvej 80

miðvikudagur, júní 09, 2004  

::: Til hamingju með afmælið elsku mamma!
Mamma mín á stórafmæli í dag, hún er orðin sextug, ótrúlegt en satt. Það er verst að við getum ekki samglaðst henni í dag en við gerðum okkar besta og hringdum í hana og sungum afmælissönginn í símann. Við mamma erum einstaklega góðar vinkonur og lít ég mikið upp til hennar. Það verður frábært þegar við erum flutt heim og hægt verður að skreppa í Hofslundinn, setjast við eldhúsborðið og spjalla um allt og ekkert. Elsku mamma, til hamingju með afmælið!

Þórmundur kom til okkar í gær og urðu að sjálfsögðu miklir fagnaðarfundir. Við hófum undirbúning kveðjupartýs fyrir bekkinn hennar Sigurveigar sem við héldum í dag. Partýið gekk eins og í sögu og allir skemmtu sér konunglega. Sem betur fer rigndi ekki eins og spáin hafði lofað og léku krakkarnir sér því úti allan tímann. Róluðu, veguðu, krítuðu, spiluðu tennis og fótbolta, blésu sápukúlur og dönsuðu. Síðan gæddum við okkur á súkkulaðiköku og "pølsehorn" og íslenskum rískubbum. Þetta er frábær bekkur sem hún Sigurveig er í og voru krakkarnir allir sem einn til fyrirmyndar. Þau færðu Sigurveigu kveðjugjöf, "diddle" pennaveski, myndaalbúm og litla öskju og var hún vægast sagt afar ánægð með gjöfina.

posted by Soley | 21:32

sunnudagur, júní 06, 2004  

::: Ég er svo stolt af sjálfri mér!!!
Ótrúlegt að það sé komið sunnudagskvöld. Við Trine vorum súperduglegar um helgina, kláruðum bæði hjólreiðarnar í gær og hlaupið í dag með miklum stæl. Vægt til orða tekið er ég gjörsamlega dauð í kroppnum - en skrýtið hvað manni líður vel á sama tíma.

Við hjóluðum kílómetrana 112 í gær á 4 tímum og 43 mínútum. Veðrið var frábært til hjólreiða, sólin skein reglulega á okkur, smá rigning og skýjað þess á milli. Við fengum góðar samlokur og ávexti á stoppustöðvunum og náðum þannig að hlaða batteríin. Mamma hennar Trine hjólaði með okkur og kom hálftíma á undan okkur í mark. Hún beið svo eftir okkur og gaf okkur rósir þegar við komum í mark. Það streymdi þægileg ánægjutilfinning um kroppinn minn í gær þegar við fengum gullpening um hálsinn - allir þátttakendur fengu gullpening. Nú finnst mér ég vera orðinn bauni út í gegn - búinn að klára mína fyrstu hjólreiðakeppni. Skide godt!

Í morgun tókum við Sigurveig daginn snemma og hjóluðum af stað um hálf átta. Fann aðeins fyrir því að bossinn var aumur eftir hjólreiðarnar í gær. Við hlupum svo af stað klukkan 10.07 og leiðin lá í gegnum fallegan skóg Farum, 14,3 km. Það kláruðum við á 1 klukkustund og 23 mínútum. Vel af sér vikið - okkur langaði til að skrifa á bolina okkar að við hefðum sko líka hjólað langt í gær. En það var nóg fyrir okkur sjálfar að vita það og fengum við tár í augunum þegar við loksins komum í mark. Enn og aftur tók mamma hennar Trine á móti okkur við mikil fagnaðarlæti. Sigurveig undi sér vel í barnapössuninni á meðan, hún er svo glöð og yndisleg stelpa og á aldrei í vandræðum með að finna sér einhvern til að leika við. Dagurinn í dag hefur svo farið í að slappa af og borða, enda öll orka búin. Nú fer ég að kasta mér á sófann og verð sjálfsagt fljót að sofna.

Nú kemur Þórmundur bara eftir tvo daga. Á morgun koma Hildur vinkona, Bragi og Helgi Hrannar í mat til okkar Sigurveigar. Þau eru í fríi hérna í Danmörku og eru svo yndisleg að gefa sér tíma í að koma í heimsókn.

posted by Soley | 20:50
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn