::: Voldumvej 80

fimmtudagur, júní 12, 2003  

::: Ari Halldór á leiðinni
Þetta blogg mun ekki snúast um fótbolta. Ég fékk einmitt kvörtun í gær frá tryggum lesanda þess efnis að ég bloggaði allt of mikið um fótbolta, að bloggin að undanförnu væru eintóm fótboltablogg. Þessi tímabæra gagnrýni á skrif mín um fótbolta hefur verið tekið til greina og því mun ég ekkert skrifa um fótbolta að þessu sinni. Það væri auðvitað að bera í bakkafullan lækinn að gera fótbolta að umtalsefni. Sem sagt: Ekki meiri fótbolti að sinni. Blaðran er sprungin.

Það sem stendur upp úr hjá okkur núna er að hinn nýfermdi Ari Halldór kemur til landsins í kvöld og ætlar að vera hjá okkur í tíu daga. Satt að segja getur Sigurveig varla beðið. Við getum heldur ekki beðið. Við förum auðvitað í Tívolí, á Bakken og á sólarströnd svo fátt eitt sé nefnt. Svo er meira að segja bæjarhátíð hér í Rødovre um þessa helgi. Búið að setja upp heilt tívolísvæði við ráðhúsið, skammt frá Rødovre Centrum (fyrir þá sem þekkja vel til hér í bænum)! Það lítur út fyrir þokkalegt veður næstu daga, 20 stig og sól með stöku skúrum einn og einn dag.

posted by Thormundur | 13:59

miðvikudagur, júní 11, 2003  

::: Ekki lengur efstir
Hið óhjákvæmilega gerðist. Þjóðverjar unnu. En þeir skoruðu ekki fyrr en á 89. mínútu og maður var farinn að halda að Færeyingum tækist að halda jöfnu. Við erum því ekki lengur efstir. Verðum þó í öðru sæti í nokkrar vikur - kannski lengur. Hver veit. Þjóðverjar voru jafn heppnir og við gegn Færeyingum. Þetta var einstefna allan tímann en tvö mörk í lokin slökktu vonir frænda vorra. Maður sárvorkennir þeim. Jafntefli gegn Þjóðverjum hefði verið magnaður árangur. En Færeyingar geta verið stoltir, það var svo sem engin hætta á að þeir skoruðu en þeir sýndu einstaka baráttu og góðan varnarleik. Léku eins og Íslendingar hafa verið svo þekktir fyrir í gegnum tíðina!

posted by Thormundur | 23:08
 

::: Þjóðverjar bitrir
Það er hálfleikur í Færeyjum og við erum enn efstir í riðlinum. Ég sá myndir úr leiknum og hann var víst ekkert spes. Mörkin voru þó góð og þrjú mörk og þrjú stig í höfn. Þýski íþróttafréttamaðurinn var reyndar svo bitur að ég hef aldrei heyrt annað eins. Hann skildi ekki hvernig leikur Litháa og Íslands gat verið leikur um tímabundið efsta sæti. Hann var svo neikvæður að það var bara fyndið. Þegar Ísland skoraði fyrsta markið sagði hann að loksins væru einhver merki um að leikinn væri fótbolti á vellinum. Að lokum gerði hann bara grín að því að Ísland væri efst í riðlinum. Ég er ekki að halda því fram að þetta hafi verið neinn snilldarleikur en fyrr má nú fyrr vera biturðin. Vonandi fáum við tækifæri til að láta hann sjá eftir þeim orðum. :-) Við gætum hugsanlega náð af þeim stigi eða þremur heima og strítt þeim í Hamborg 11. október. Ég væri alveg til að fara á þann leik. Ef við vinnum Færeyjar í haust spilum við um sæti í úrslitum EM í tveimur leikjum gegn Þjóðverjum. :-) Ég segi ef því við eigum síst af öllu sigur vísan gegn Færeyingum. Það er ekkert öruggt í fótbolta. Það eigum við Íslendingar að vita best sjálfir. En það er gaman meðan vel gengur.

posted by Thormundur | 21:53
 

::: Efstir í riðlinum!
Þegar þetta er skrifað erum við efstir í riðlinum eftir frábæran útisigur gegn Litháum, 0:3. Það er ekki oft sem maður getur sagt þetta. Þjóðverjar eru reyndar rétt að hefja leik gegn Færeyjum og geta náð efsta sætinum með líklegum sigri. En hverjum er ekki sama. Við erum efstir!

Ég hlustaði auðvitað á Bjarna Fel á Rás 2 og það var yndislegt. Maður var reyndar rosalega stressaður því hann var svo fljótur að æsa sig. Maður ruglaðist líka oft því það var lítill munur á lýsingum hans á okkar sóknum/mörkum og markvörslu Árna Gauts. Maður var því ekki alltaf viss hvorum megin vallar hættan var. Besta atriðið í lýsingunni var þegar aðstoðarmaður hans, Viðar Halldórsson, öskraði: "Hann lamdi strákinn," og átti þar við einn leikmann Litháa, sem "lamdi" semsagt son hans Arnar Þór, og hlaut rautt spjald fyrir. Maður heyrði ákaflega vel angistina í rödd hans þegar hann endurtók þetta aftur og aftur - fimm sinnum held ég: "Hann lamdi strákinn!"

Annars fæ ég að sjá útdrátt úr leiknum á þýsku stöðinni ARD í hálfleik í leik Færeyinga og Þjóðverja. Ég ætla miklu frekar á horfa á þann leik en hundleiðinlegan leik Lúxemborgara og Dana en þar er 0:1 í hálfleik. Maður heldur auðvitað stíft með Færeyingum, ekki bara okkar vegna heldur af sannri frændsemi.

posted by Thormundur | 21:07
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn