::: Voldumvej 80

miðvikudagur, ágúst 20, 2003  

::: Kætumst meðan kostur er
Það er óhætt að kætast yfir því, að nú um stundarsakir, eru Íslendingar efstir í forriðli fyrir stórkeppni í knattspyrnu - vafalaust í fyrsta sinn (nema við höfum einhvern tímann spilað fyrsta leik og slysast til að vinna). Þjóðverjar eiga reyndar leik til góða en við hugsum ekki um það núna! :-) Mér skilst hins vegar á heimildarmönnum mínum að leikurinn í kvöld gegn Færeyingum hafi ekki verið mikið fyrir augað. Bæði lið hafi verið mjög slöpp - svo ekki verði meira sagt. En sigur hafðist engu að síður. Það skiptir mestu máli. En það er um að gera að kætast meðan kostur er - við fáum ekki oft tækifæri til að fagna efsta sæti í riðli. Nema við vinnum Þjóðverja - tvívegis!

Ég fann leikinn vitanlega hvergi í sjónvarpi eins og búast mátti við. Ég hlustaði því á leikinn í útvarpi og gaf Útvarpi Sögu tækifæri. Ekki veit ég hver lýsti, það var ekki Valtýr Björn. Ég hætti að hlusta á RÚV því það kann aldrei góðri lukku að stýra þegar Bjarni Fel er með gest í lýsingu. Það fer ekki vel saman. Bjarni Fel er bestur aleinn!

Nú bíða tveir "úrslitaleikir" gegn Þjóðverjum. Spurningin er hins vegar hvort Þjóðverjar séu raunverulega orðnir nógu slappir að við eigum séns í þá - og þar með möguleika á áframhaldandi þátttöku. Þeir mörðu jú Færeyinga og hafa átt í miklum erfiðleikum í flestum leikjum sínum hingað til. Á móti kemur að þetta eru síðustu leikir riðilsins og þá má eiga von á því að Þjóðverjar láti sverfa til stáls. Þetta kemur víst nógu fljótt í ljós. Ég get hins vegar treyst því nokkurn veginn að þýska sjónvarpsstöðin ARD sýni næsta leik! Þeir munu án efa ferðast með allt sitt hafurtask til Íslands, setja upp stórt stúdíó með yfirsýn yfir Laugardalsvöll og sýna leikinn beint. Ég verð í sófanum þann 6. september.

posted by Thormundur | 22:33
 

::: ARD bregst
Ég lagði allt mitt traust á ARD 1. En þeir virðast ætla að bregðast mér. Þeir munu ekki sýna leikinn í beinni í kvöld. Jú, við erum að tala um stórleikinn Færeyjar-Ísland. Þýska sjónvarpsstöðin hefur nefnilega sýnt ýmsa leiki úr riðlinum, þ.á m. Ísland-Færeyjar fyrr í sumar. Sjálfsagt skiptir máli að Þýskaland leikur vináttuleik við Ítalíu á sama tíma og sá leikur virðist hafa verið valinn til sýningar frekar en hið þýðingarmikla uppgjör í Þórshöfn. Ekki skil ég það. Maður kíkir nú samt á netið til að kanna hvort leikurinn verði í beinni á ruv.is. Er þó ekki sérstaklega vongóður um það. Samningar um sýningarrétt banna það örugglega. Í staðinn lætur maður sér nægja beina útsendingu frá Parken þar sem Danir taka á móti Finnum og síðar um kvöldið beina útsendingu frá leik Englendinga og Króata. Það ætti að duga.

posted by Thormundur | 15:45
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn