::: Voldumvej 80

fimmtudagur, ágúst 28, 2003  

::: Aftur í 6 ára bekk
Ég settist á skólabekk í morgun, nánar tiltekið í sex ára bekk! Sigurveig bauð mér í heimsókn í skólann sinn og var ég gestanemandi í 0. C. Krakkarnir í bekknum voru því 20 í dag en ekki 19 eins og venjulega. Börnunum stendur til boða að bjóða foreldrum með sér í skólann í vetur, hvoru í einn dag. Sigurveig vildi strax fá annað hvort okkar með sér í skólann en ein mamman hafði einmitt komið í heimsókn í síðustu viku. Kennarinn í fjölskyldunni fer án efa síðar í vetur!

Sigurveig var afskaplega spennt yfir því að taka pabba sinn með en var frekar feimin þegar á hólminn var komin. Það er eðlilegt enda hlýtur að vera sérstakt að hafa pabba sinn eða mömmu með sér í skólanum. Við byrjuðum daginn á afslöppun, lögðumst á gólfið með lokuð augun meðan kennarinn las upp nöfnin og því næst stutta sögu. Síðan settust allir í hring og farið í nafnaleiki en krakkarnir eru enn að læra öll nöfn hvers annars. Svo var sungið og trallað til að vekja liðið. Sigurveig var yfirleitt með á nótunum og kunni margt af textum, meðan pabbi hennar reyndi að læra þá jafnóðum eða mumla bara eitthvað. Eitt lagið kunni maður þó - það var Atti katti nóa. Textinn er reyndar örlítið öðruvísi á dönsku en auðlærður :-)

Það var sem sagt sungið, leikið og lært í dag. Í einum tímanum unnum við verkefni þar sem börnin áttu að teikna mynd af sér - en einhverra hluta vegna var mér hlíft við að teikna mynd af mér! Í öðru verkefni átti að lita mynd fána, les danska fánann, en við teiknuðum auðvitað þann íslenska í staðinn. Vitanlega voru frímínútur í hávegum hafðar. Við fórum þá í snú-snú og feluleik svo nokkuð sé nefnt.

Þetta var mjög skemmtilegur dagur og fróðlegt að fylgjast með skólastarfinu svona í upphafi námsferilsins. Ég vona að ég fái að fara með Sigurveigu í fyrsta tímann í menntaskóla þegar þar að kemur. Hún hlýtur að vilja það!

posted by Thormundur | 23:39

mánudagur, ágúst 25, 2003  

::: Íþróttasjónvarpsdagur
Nýliðinn sunnudagur hefur verið helgaður iðkun sjónvarpsíþrótta. Hver viðburðurinn hefur rekið annan, eins og títt er á sunnudögum en úrvalið var óvenju mikið í dag.

Þetta byrjaði allt í Ungverjalandi en þaðan var bein útsending frá Formúlunni. Glæsilegur sigur hjá Alonso en að sama skapi virðist Ferrari eitthvað vera að förlast. Að minnsta kosti verður ólýsanleg spenna í síðustu þremur keppnunum. Því næst var skipt yfir til Parísar og fylgst með sænsku frjálsíþróttadrottningunni, Carolinu Klüft, tryggja sér öruggan sigur í sjöþraut á HM í frjálsum. Við horfðum vitanlega á þetta í sænska sjónvarpinu þar sem lýsendur voru tárvotir af stolti - og öll fjölskylda hennar í viðtölum. Carolina er langvinsælasti íþróttamaður Svía í dag og var valin íþróttamaður ársins í Svíþjóð í fyrra - og ekki bara það heldur var hún líka valin maður ársins í Svíþjóð í fyrra. Þá fylgdist maður einnig með farsanum í 100 m hlaupinu og yfirburðum Eþíópíumanna í 10 km hlaupinu svo eitthvað sé nefnt.

Meðan það var rólegt á Stade de France skipti maður reglulega yfir á beinar útsendingar frá þýska boltanum og þeim danska. Mig vantar reyndar þann enska.

Eftir kvöldmat kveikti maður á Rás 2 á tölvunni og hlustaði á Bjarna Fel (aleinan) lýsa stórleiknum heima á KR-velli. Stórsigurinn var óvæntur en afskaplega gleðilegur - og án efa mjög verðskuldaður. Öruggur 4-0 sigur gegn Fylki er gott vegarnesti fyrir lokaumferðirnar. Um leið og lokaflautið gall á KR-velli var komið að spænska boltanum. Þar mættust Real og Real (Madrid og Mallorca) í fyrri viðureign meistara og bikarmeistara síðasta árs, þar sem heimamenn frá Mallorca höfðu betur 2-1. Næsti leikur á miðvikudag. Og nú skömmu fyrir miðnætti er loks komið að golfi. Rétt í þessu var skipt yfir til Bandaríkjanna þar sem maður getur fylgst með lokaholunum á síðasta hring á NEC International. Þetta er eitt af stóru mótunum, þegar frá eru talin risamótin. Gott ef ekki þetta mót telst ekki eitt af mótunum þar sem keppt er um óopinberan heimsmeistaratitil í golfi.

Það er óhætt að segja að sportið hafi verið yfirgnæfandi í dag. HM í frjálsum er reyndar rétt að byrja og því hægt að horfa á útsendingar þaðan alla vikuna. Og ef það er ekki útsending í danska sjónvarpinu, er afar líklegt að meira sé sýnt í sænska sjónvarpinu, en ef allt um þrýtur verður maður að treysta á Eurosport. Það kom líka á daginn því vegna tafanna, sem urðu vegna mótmæla Jon Drummonds í 100 m í dag, brunnu dönsku og sænsku sjónvarpsstöðvarnar inni á tíma og gátu ekki sýnt úrslitin í 100 m kvenna. Þá kom til kasta Eurosport sem klikkaði auðvitað ekki heldur sýndi allt saman. Ekki var verra að Marion Jones aðstoðaði við lýsinguna.

posted by Thormundur | 00:24
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn