::: Voldumvej 80

laugardagur, september 06, 2003  

::: Þjóðverjar stálheppnir - segja Þjóðverjar
Já, við lékum firnavel í kvöld en samt er maður hálfsvekktur. Hálfsvekktur að hafa ekki skorað markið sem við áttum svo skilið. Þetta var með betri leikjum sem Ísland hefur leikið, en hefði hæglega orðið einn af bestu leikjum Íslands frá upphafi hefðum við skorað markið. Þjóðverjarnir voru sannarlega stálheppnir að ná jafntefli - sem Þjóðverjarnir viðurkenndu sjálfir í lýsingu sinni á ARD1. Það var mjög athyglisvert að fylgjast með leiknum í þýsku sjónvarpi. Lýsingin var fagmannleg fram í fingurgóma. Lýsandinn vonast auðvitað eftir þýskum sigri en leggur hins vegar hlutlægt mat á framvindu leiksins. Hann dró til dæmis ekki í efa nokkurt af gulu spjöldunum sem Þjóðverjar kræktu sér í.

Ég var svo heppinn að Sigurveig fékk heimsókn frá vinkonu akkúrat á meðan á leik stóð og því gat ég einbeitt mér að leiknum :-). Sóley er í æfingaferð á Jótlandi og því stefndi í að Sigurveig þyrfti að horfa á pabba sinn stjarfan yfir sjónvarpinu í tvo tíma. Ég var reyndar svo einbeittur í áhorfinu að ég var næstum búinn að ávarpa stelpurnar á þýsku, þegar ég bað þær einhverju sinni að hafa sig hægar og leika í herberginu. Danke schön!

Við Sigurveig vörðum annars lunganum af deginum í Tívolí. Hún var svo spennt fyrir ferðinni að við vorum komin á staðinn klukkan hálf tólf! Þá uppgötvaði ég að öll stóru tækin opna ekki fyrr en klukkan tvö. Alltaf lærir maður eitthvað nýtt. Við urðum því að gera okkur "smábarnatækin" að góðu. Sigurveig er orðin svo stór að hringekjan er tæplega nógu spennandi. Við unnum einn skopparabolta í einum básnum, það var allt og sumt, og fengum okkur nammi og gos meðan við biðum eftir rússíbönunum og öðrum spennandi tækjum. Vorum auðvitað bæði með túrpassa í öll tæki. Við byrjuðum á Hraðlest Óðins, sem er hraðasti rússibaninn. Sigurveig er alvön, búin að fara nokkrum sinnum, ég var að fara í fyrsta sinn. Vá, maður! Mér fannst þetta næstum of mikið! Ég er reyndar enginn sérstakur unnandi rússíbana. Síðar um daginn fórum við svo í gamla góða rússibanann, Rutschebanen, sem er sá elsti í heimi, og mér líkaði mun betur við hann. Við héldum loks heim eftir rúmlega fimm tíma keyrslu í tækjum og tólum - í tæka tíð fyrir landsleikinn góða.

Og hann var skemmtilegur þrátt fyrir markaleysið. En svekkjandi vegna markaleysisins.

posted by Thormundur | 23:59

mánudagur, september 01, 2003  

::: Við erum meistarar!!!
Annað árið í röð fagna ég Íslandsmeistaratitli KR í Danmörku. Við urðum meistarar í kvöld eftir glæsilegan sigur á útivelli gegn Grindavík - og það þegar tvær umferðir eru eftir. Yfirburðirnir eru augljósir. KR hefur haft yfirburði í deildinni síðustu ár - fjórir Íslandsmeistaratitlar á fimm árum. Ekki amalegt.

Ég tók á móti Sóleyju og Sigurveigu á Kastrup í dag en þær skruppu í örferð til Íslands um helgina. Fóru á laugardag, gagngert til að Sóley gæti mætt í brúðkaup Gumma og Guðrúnar. Sigurveig var nokkurs konar leynigestur, fáir vissu af komu hennar. Mæðgurnar skemmtu sér afskaplega vel þótt tíminn væri skammur.

Ég fékk íslenskt nammi frá Sóleyju að launum fyrir að hafa sinnt smá fjáröflunarstarfi fyrir handboltaliðið í fjarveru Sóleyjar. Nammið var sannarlega vel þegið; Rís, Staur og Nóa-Síríus súkkulaði. Sigurveig kom líka með pakka handa mér, sem vissi á gott varðandi knattspyrnuleikinn í kvöld. Pabbi og mamma höfðu nefnilega fundið gamlan KR-búning, sem ég notaði í körfuboltanum í eldgamla daga. Búningurinn, númer 14 auðvitað, passar hins vegar nú mjög vel á Sigurveigu, sem kjóll! Hún er alsæl með búninginn/kjólinn.

Til hamingju með titilinn, KR-ingar allra landa!

posted by Thormundur | 22:20
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn