::: Voldumvej 80

föstudagur, september 19, 2003  

::: Á leið til Grikklands
Nei, við erum ekki á leið til Grikklands! En foreldrar mínir komu við hjá okkur í gær og héldu síðan áleiðis til grísku eyjarinnar Egínu í dag. Það verður án efa frábært en þau koma svo aftur til okkar í næstu viku og stoppa nokkra daga í Köben. Okkur þótti afskaplega gott að hitta þau og enn betra er að fá þau tvisvar í heimsókn!

Sigurveig hefur verið lasin síðustu þrjá daga og ekkert farið í skólann. Lasleikinn spillti þó ekki gleðinni að fá afa og ömmu í heimsókn. Hún fékk nokkrar sendingar að heiman, þ.á m. fyrstu Blíðfinnsbókina, prinsessubol, smá nammi og síðast en ekki síst svolítið námsefni úr sex ára bekk. Við ætluðum reyndar að senda hana í íslenskuskóla í Jónshúsi en hættum við. Okkur þótti of mikið álag að láta hana byrja í tveimur skólum og mæta eldsnemma í skóla sex morgna í röð. Íslenskuskólinn byrjar nefnilega klukkan níu í Jónshúsi en ferðalagið þangað tekur rúmlega hálftíma.

posted by Thormundur | 18:21

mánudagur, september 15, 2003  

::: Gleymdi því alveg
Sigurveig getur verið lúmsk gleymin. Á laugardaginn fékk hún að fara með mömmu sinni "að keppa" en Rødovre liðið var á móti nærri Farum. Aðstæður voru hinar bestu fyrir börn, þar á meðal sérstakt leikhorn í veitingasalnum. Svo fékk Sigurveig pening fyrir nammi. Sóley lét hana fá 20 krónur fyrir bland í poka en sagði henni að biðja afgreiðslufólkið að gefa henni 15 krónur til baka. Þegar hún kom til baka var hún með grunsamlega stórt bros og ótrúlega stóran poka. Þegar mamma hennar spurði hana um afganginn varð hún hálf skömmustuleg en svaraði einlæglega: "'Eg gleymdi því alveg!"

Af mótinu var það að frétta að liðið hennar Sóleyjar náði öðru sæti en verra var að Sóley meiddi sig að nýju í lærvöðva. Hún hafði meitt sig á æfingu nýlega en náð sér furðanlega fljótt. Vöðvinn gaf sig hins vegar aftur um helgina og því verður Sóley að hvíla á næstunni og sleppa æfingunum næstu daga.

posted by Thormundur | 18:37
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn