::: Voldumvej 80

laugardagur, október 11, 2003  

::: Búið spil
Hvað er hægt að segja? Ég sá þetta reyndar ekki en hlustaði á lýsingu. Samkvæmt henni hitti Baggalútur naglann á höfuðið að einu leyti:

Dómarinn var augljóslega
ekki á okkar bandi
og hinir drullusokkarnir
frá miklu stærra landi.

Maður er samt stoltur af strákunum okkar. Þeir gerðu sitt besta. Við misstum möguleikann í raun og veru með því að tapa í tvígang gegn Skotum - og svo nýttum við ekki færin í heimaleiknum gegn Þjóðverjum, þegar við vorum óvænt mun betri aðilinn. Það var víst engin spurning hverjir voru betri í kvöld. Og Litháar náðu ekki að bjarga okkur. En samt spyr maður sig hvað hefði gerst ef mark Hermanns hefði fengið að standa. Líklegasta svarið er að Þjóðverjar hefðu skorað aftur en ábyrgð rússneska dómarans er mikil. Ég læt þetta flakka þótt ég hafi ekki séð atvikið. Endurskoða kannski álit mitt ef ég sé þetta. En hafa skal það sem betur hljómar. :-)

Nú er bara að standa sig í næstu forkeppni og gefa Ásgeiri og Loga tækifæri á að halda áfram. Áfram Ísland!

posted by Thormundur | 19:15
 

::: Stuðningur undirbúinn
Jæja. Mikilvægasti landsleikur Íslandssögunnar hefst eftir rúma tvo tíma. Ég hef undirbúið mig andlega með því að hlusta á stuðningslag Baggalúts í tíma og ótíma. Lagið er algjör snilld. Hins vegar er það engin snilld að þýska sjónvarpsstöðin ARD ætlar að svíkja mig og aðra Íslendinga í útlöndum. Allir leikir í riðlinum hafa verið sýndir þar en leikurinn í dag er sýndur á ZDF, stöð sem ekki einu sinni finnst meðal 212 stöðva í Jónshúsi. En ég ætla nú samt að kveikja á ARD kl. 17 ef þeim hefur snúist hugur. Leikurinn er ekki í sjónvarpsdagskránni - en maður verður að trúa á kraftaverk. Ég hef satt að segja verið fremur miður mín út af þessu. Ég treysti alveg á að sjá leikinn í sjónvarpi, fyrst maður fór ekki á völlinn. Fyrst svíkur KSÍ íslensku þjóðina með því að þiggja innan við helming miða á leikinn og nú þetta.

Í staðinn á ég kost á að horfa á Skota taka á móti Litháum en við eigum vitanlega mikið undir í þeim leik. Ef Skotar ná ekki sigri erum við öruggir með annað sæti hvernig sem fer í Hamborg. Þá get séð Dani mæta Bosníumönnum í ljónagryfju hinna síðarnefndu í Sarajevo. Danir verða að vinna til að tryggja sæti sitt en ella fara þeir í umspil. Loks verður leikur Tyrkja og Englendinga sýndur en það er sannkölluð háspenna - lífspenna.

Sóley er komin til Holstebro að fagna þrítugsafmæli Ingu Fríðu með Íslendinganýlendunni þar og fleiri góðum gestum. Reyndar erum við Sigurveig bæði hálflasin en sá slappleiki kemur endanlega í veg fyrir ýmsar brjálaðar hugmyndir sem skotið höfðu upp í kollinn á mér - eins og að keyra yfir landamærin til Þýskalands (bara þrír tímar eða svo) og horfa á leikinn í þarlendri krá. Nei, ætli maður verði ekki að láta Bjarna Fel nægja. :-) Áfram Ísland!

posted by Thormundur | 14:48

miðvikudagur, október 08, 2003  

::: Sigurveig og Mary standa sig vel
Ég lofaði að segja frá frammistöðu tilvonandi drottningar Dana á blaðamannafundi hennar og Friðriks krónprins. Til að gera langa sögu stutta heillaði Mary blaðamenn úr skónum. Hún ávarpaði fundinn fyrst á dönsku og gerði það með bravúr. Hún var vissulega búinn að læra textann sinn utanað - en framburðurinn var furðu góður. Hún viðurkenndi reyndar hlæjandi að hún væri taugaóstyrk: "Jeg håber De vil kunne forstå, at jeg er en lille smule nervøs," sagði hún einfaldlega. Hún reyndi meira að segja að svara spurningum á dönsku en skildi þó ekki alltaf spurningarnar - Danir tala heldur ekkert sérstaklega skýrt. Friðrik ljómaði af hamingju en ekki verður þó sagt um hann að hann sé mælskur. Sérstaklega missteig hann sig þegar hann var beðinn að lýsa Mary en niðurstaðan var eitthvað á þessa leið: "Hun er den person, der sidder her ved siden af mig."

Koss á opinberum vettvangi lét líka á sér standa, eins og á svölunum fyrr um daginn. Annar koss á hönd Mary var allt og sumt sem Friðrik gaf dönsku þjóðinni. Sagði að alvöru koss biði betri tíma - brúðkaupsdagsins. Þegar allt er á botninn er hvolft eru Danir mjög ánægðir með ráðahaginn og hafa tekið mjög vel á móti stelpunni frá Tasmaníu.

Sigurveig stendur sig líka vel. Við fengum það staðfest á foreldrafundi í skólanum í dag. Kennararnir hrósuðu henni fyrir að sýna mikinn áhuga og taka þátt í öllum verkefnum og leikjum af fullum krafti. Við erum auðvitað mjög stolt af henni!

posted by Thormundur | 18:38
 

::: Kysstust ekki
Stóra stundin er runnin upp. Friðrik og Mary eru búin að stíga fram á sjónarsviðið og veifa til fólksins. Þau voru glöð en hálffeimin. Mary hefur lært að veifa konunglega og stóð sig með prýði. Konunglega parið var klappað upp þrisvar og kom því alls fjórum sinnum fram. Það kom sjónvarpsmönnum í opna skjöldu því talið var að allt væri þegar þrennt væri! Krafa fólksins var að fá einn vænan koss en hin nýtrúlofuðu urðu ekki við þeirri kröfu. Friðrik kyssti Mary reyndar á hönd hennar og allan tímann stóðu þau þétt hvort að öðru og litu ástfangin út. Ekki er meira í konunglegum fréttum. Læt kannski vita hvernig henni tekst upp í dönskunni seinna í dag!

posted by Thormundur | 12:23
 

::: 14. maí 2004
Þá er það ljóst. Konunglegt brúðkaup Friðriks krónprins og Mary Donaldson verður haldið föstudaginn 14. maí á næsta ári. Það er mér mikil ánægja að bjóða lesendum í brúðkaupið hér í Kaupmannahöfn. Brúðkaupið verður haldið í dómkirkju Kaupmannahafnar, Vor Frue Kirke, sem er á besta stað í elsta hluta miðbæjarins. Í kirkjunni eru t.d. fjölmörg verk íslenska myndhöggvarans Bertel Thorvaldsens þannig að þetta verður sannkallað íslenskt brúðkaup!? Ólíklegt er þó að maður fái sæti í kirkjunni - en það er ekki síðra að horfa á brúðkaupið í beinni útsendingu í stofunni hér á Voldumvej. Þeir sem koma gagngert af þessu tilefni fá kaffi og kökur í tilefni dagsins.

Ég er annars búinn að horfa á beina útsendingu í rúma tvo tíma í tilefni af opinberri staðfestingu á trúlofun Friðriks og Mary. Og það verður bein útsending í allan dag! Ríkisráðsfundi er nýlokið þar sem endanlega var samþykkt að "leyfa" unga parinu að giftast. Eftir rúman hálftíma fær maður að sjá parið á svölum Amalienborgarhallar, þar sem það lætur hylla sig af almúganum. Talið er að rúmlega tíu þúsund manns verði á hallartorginu þegar flest er. Svo bíður maður, eins og aðrir, eftir blaðamannafundi sem haldinn verður síðar í dag en þar kemur í ljós hversu góða dönsku Mary talar. Þess er vænst að hún tali og jafnvel svari spurningum á dönsku, líkt og svilkona hennar, Alexandra prinsessa fyrir átta árum þegar hún trúlofaðist Jóakim prins.

Rétt í þessu varð ég vitni að því þegar Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Dana, tók í höndina á Mary Donaldson. Og svo koll af kolli, allir ráðherrarnir fá tækifæri til að heilsa upp á tilvonandi drottningu Dana. Þetta er óheyrilega spennandi. :-)

posted by Thormundur | 11:29
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn