::: Voldumvej 80

föstudagur, nóvember 14, 2003  

::: 12 ár
Við Sóley eigum afmæli í dag. Við höfum þekkst, verið á föstu, trúlofuð og að lokum gift samtals í 12 ár! Þessu ætlum við að fagna í kvöld með því að fara út að borða. Ánægjan verður tvöföld því að Vala og Jói ætla að borða með okkur. Þau eru hér í helgarferð með vinnunni hans Jóa.

Við völdum mexíkanskt í kvöld en Sóley er frekar svag fyrir því. Við pöntuðum borð á einum besta mexíkanska staðnum í bænum, El Viejo Mexico, sem einfaldlega merkir gamla Mexíkó. Staðurinn er á Store Kongensgade skammt frá Kongens Nytorv og Nýhöfn.

posted by Thormundur | 17:09

fimmtudagur, nóvember 13, 2003  

::: Ég held með ...
Sigurveig kom mér skemmtilega á óvart um síðustu helgi. Þar sem ég horfði spenntur á viðureign stórliðanna tveggja í dönsku knattspyrnunni, Brøndby og FC København, spurði hún mig hvaða lið væru að spila - og fylgdi því eftir með að spyrja með hverjum ég héldi. Ég sagði henni að ég héldi með FCK, liðinu í hvítu búningunum. Þá sagðist mín sko halda með Brøndby!

Nú voru góð ráð dýr. En þar sem þetta snerist hvorki um KR eða Manchester United var ég pollrólegur. Það væri nú kannski ekki svo hræðilegt að hún héldi með öðru liði en pabbi gamli. Ég brosti bara og spurði hana hvers vegna hún héldi með Brøndby, liðinu í gulu búningunum. Fyrst sagði hún "bara" en að lokum tókst mér að staðfesta grun minn. "Allir í bekknum mínum halda með Brøndby," sagði hún stolt. "Nema Khalid. Hann heldur með FCK." Og nafnið sagði hún fullkomnum hreim og réttri áherslu, þ.e. þungri áherslu á K-ið.

Nú skal það upplýst að mjög margir í Rødovre halda með Brøndby enda nágrannabæir hér í Vestvolden, en svo kallast svæðið vestur og suður af Kaupmannahöfn. FCK er hins vegar klassískt stórborgarstórlið - líkt og KR - og þess vegna hef ég haldið með þeim!

En aftur að sögunni. Þegar ég hafði komist að því hvaðan hún vissi allt um Brøndby og FCK, virtist sem hún sæi eitthvað að sér og Brøndby-brosið hvarf skyndilega. "En ég vil halda með sama liði og þú, pabbi," sagði hún með klökkri röddu. Ég fullvissaði hana hins vegar um að hún ætti að halda með því liði sem hún vildi (en nefndi auðvitað ekki að þessi regla ætti helst ekki að gilda um KR). Og að það væri bara mjög gaman að allir í bekknum héldi með Brøndby.

Hún tók þessum rökum vel en sneri síðan endanlega á mig. "Vilt þú ekki halda með mínu liði?" sagði hún og setti upp vonarsvipinn sem feður falla gjarnan fyrir - þann sama og hún notar þegar hún biður lymskulega um nammi. Ég reyndi að koma til móts við hana og bauðst til að halda líka með hennar liði og hélt þá að ég væri hólpinn. Aldeilis ekki. "Það er ekki hægt að halda með mörgum liðum," sagði hún þá frekar hneyksluð. Sigurveig hitti auðvitað naglann á höfuðið. Maður getur ekki haldið með tveimur knattspyrnuliðum. Hver heldur bæði með Manchester United og Arsenal eða bæði KR og Val?

Í tilefni af þessu öllu saman hyggst ég nota tækifærið og kenna henni sitthvað um umburðarlyndi í samskiptum áhangenda erkifjenda í knattspyrnu. :-) Það er uppeldisleg skylda mín að fullvissa hana um að hún megi halda með Brøndby - en jafnframt að ég megi nú kannski halda áfram stuðningi við mitt lið. Við förum kannski saman á næsta leik, ég í hvítu og hún í gulu. Áfram FCK / Brøndby!

posted by Thormundur | 21:30
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn