::: Voldumvej 80

föstudagur, nóvember 28, 2003  

::: Nýjar myndir
Þá eru loksins komnar nýjar myndir á myndavef fjölskyldunnar. Þar eru glænýjar myndir frá afmælisdegi Sigurveigar og komu afa Dóra í gær. Aldrei er að vita nema fleiri myndir birtist næstu daga og vikur. Fylgist því vel með!

posted by Thormundur | 16:17

miðvikudagur, nóvember 26, 2003  

::: Hún á afmæli í dag!
Sigurveig á afmæli í dag. Hún er orðin sex ára gömul! Hún hefur hlakkað mikið til dagsins og í morgun vaknaði hún hress og kát einu ári eldri. Hún fékk vitanlega að taka upp pakkann frá mömmu og pabba áður en hún fór í skólann. Pakkarnir voru tveir. Hún byrjaði á þeim litla og var afskaplega glöð með innihaldið - því þar fékk hún geisladisk með lögunum úr Eurovision-keppni barnanna. Þar á hún nokkur uppáhaldslög. Seinni pakkinn var aðeins stærri og pappírinn fékk að fjúka hratt og örugglega. Gleðin var ekki síðri þegar hún uppgötvaði að hún hefði fengið tæki "til að spila diska" eins og hún orðaði það. Hún fékk sem sagt ferðageislaspilara - svona lítinn ghettoblaster. Tækinu var stungið í samband, diskurinn settur í og síðan dansað við nokkur lög. Eftir morgunmat að eigin vali lá svo leiðin í sex ára bekkinn í skólanum.

Vikan verður sannkölluð afmælisvika. Tilviljun ræður því að hún heldur í raun þrisvar upp á afmælið! Á laugardaginn verður haldin stór veisla með öllum stelpunum úr bekknum hennar. Strákarnir mega "auðvitað" ekki koma! Afi Dóri kemur svo á morgun og þá verður fagnað og sjálfsagt teknir upp einhverjir íslenskir pakkar. Í dag verður hins vegar haldin lítil veisla - svona á sjálfan afmælisdaginn - en í hana eru boðnar tvær bestu vinkonur hennar úr nágrenninu. Önnur þeirra hefði ekki komist á laugardaginn þannig að niðurstaðan varð ein lítil veisla, ein afaveisla og ein stór bekkjarveisla.

Myndavefurinn góði hefur fengið töluverða hvíld síðustu mánuði en nú stendur til að ráða bót á því. Ég get lofað því að við allra fyrsta tækifæri verða settar inn nýjar myndir - meðal annars af afmælisbarninu og gestum hennar næstu daga.

posted by Thormundur | 09:55
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn