::: Voldumvej 80

sunnudagur, desember 07, 2003  

::: Dvínandi trú á jólasveininn?
Allt þar til í morgun hefur trú Sigurveigar á jólasveininn verið einlæg og óbifuð. Það gerðist á hinn bóginn í morgun að Sigurveig dró í efa að jólasveinninn hefði gefið henni gjöf morgunsins og gaf í skyn að hugsanlega hefðum við komið þar nærri! Þvílík firra! :-)

Fyrir þá sem undrast að hún hafi fengið gjöf frá jólasveininum í morgun skal það útskýrt að hér í Danmörku tíðkast sú hefð að gefa svokallaðar kalender-gjafir frá fyrsta degi desember-mánaðar. Ekki gátum við látið Sigurveigu bíða eftir íslensku jólasveinunum meðan aðrir krakkar í bekknum fá litlar gjafir á hverjum degi. En við höfum hugsað okkur að láta hana setja skóinn í gluggann og telja henni trú um að íslenski jólasveinninn komi hingað með Iceland Express á hverjum degi. Sennilega þarf þó engar slíkar skýringar. Jólasveinninn getur allt, farið með gjafir til barna í öll hús á hverri nóttu og jafnvel inn um læstar og lokaða glugga!

En aftur að trúnni. Við létum sem ekkert væri og játuðum ekki sök okkar - ekki að sinni. Hún sat þó á rúminu og horfði á okkur tortryggnislega. Þetta voru erfið augnablik en svo skiptum við bara um umræðuefni. Hún var líka ánægð með gjöfina og uppgötvar líkast til fljótt að það borgar sig að trúa á jólasveininn!

posted by Thormundur | 23:56
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn