::: Voldumvej 80

sunnudagur, mars 07, 2004  

::: Heim til Íslands
Nú er það endanlega orðið opinbert. Við ætlum að flytja heim til Íslands í sumar. Við sögðum Sigurveigu fréttirnar í morgun og ekki er hægt að segja annað en að það hafi gengið vel. Hún réði sér ekki fyrir kæti og hlakkar mikið til að flytja, eignast nýtt heimili og finna nýjan skóla. Við áttum nú frekar von á því að hún tæki þessu vel en viðbrögð hennar voru framar vonum. Það er mikilvægt að Sigurveig sé glöð með þetta því hún hefur verið mjög ánægð í skólanum hér úti og eignast margar vinkonur.

Við höfum verið mjög ánægð með dvölina í Danmörku en töldum bæði rétt að flytja heim á þessum tímapunkti. Við höfum náð flestum markmiðum okkar með ferðinni og hlökkum til að takast á við ný verkefni heima. Það stóð auðvitað aldrei annað til en að flytja heim. Við höfum þegar hafið fasteignaleit, mest á netinu, en ég kíkti á nokkrar íbúðir í síðustu viku þegar ég var heima. Það er að ýmsu að hyggja þegar maður leitar að húsnæði. Við ætlum m.a. helst af öllu að kaupa íbúð með breiðbandi þannig að við getum horft á danskar sjónvarpsstöðvar! Þannig gæti Sigurveig til dæmis haldið við dönskunni. Hún gæti fyrst horft á danskan barnatíma og svo á Stundina okkar. Við segjum nánari fréttir af fasteignakaupum þegar þar að kemur.

Og það eru fleiri fréttir. Mér bauðst nýlega gott starf á Íslandi sem ég þáði. Ég hef verið ráðinn til Landsbanka Íslands og mun ritstýra Landsbankavefnum. Afrakstur af því starfi munu menn þó fyrst sjá af alvöru þegar nýr vefur fer í loftið síðar á árinu. En það var ekki eftir neinu að bíða. Ég hef þegar hafið störf sem þýðir að ég verð töluvert á Íslandi næstu mánuði. Ekki þarf ég að hafa áhyggjur af matnum í mötuneytinu, svo mikið er víst!

Að öllum líkindum flytjum við í lok júlí en stefnan er að Sóley klári keppnistímabilið, Sigurveig skólaárið og að við sláum botn í dvöl okkar með sumarfríi í Danmörku. Höfum við hugsað okkur að ferðast vítt og breitt um landið og kynnast því betur svona rétt áður en við yfirgefum það.

posted by Thormundur | 18:30
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn