::: Voldumvej 80

laugardagur, maí 29, 2004  

::: Allt að styttast
Um síðustu helgi var ég í Kaupmannahöfn og ekki svo langt þangað til ég kem aftur í heimsókn. Svo er ekki nema rúmur mánuður þar til ég fer alfarinn til Danmerkur til að fara í eins konar sumarfrí og að pakka búslóðinni í gám. Þetta er sem sagt allt að styttast og eins gott.

Við höfum verið ódugleg í blogginu og það er best að ég skrifi örlítið um síðustu helgi. Ég kom nefnilega óvænt í heimsókn, stelpunum til ómældrar gleði. Ég var víst þó heldur leynilegur í þessu og í örfáar sekúndur hélt Sóley að það væri kominn innbrotsþjófur á staðinn. Sigurveig var ekki sofnuð en ég hafði einmitt drifið mig í leigubíl eftir síðdegisflugið til að ná henni vakandi. Urðu fagnaðarfundir.

Þar sem pabbi er ekki alltaf á staðnum núna var ég nánast allan fimmtudaginn "úti að leika" með Sigurveigu og fleirum. Í þetta sinn vildi hún hafa mig með í öllu. Svæðið í kringum Voldumvej er mjög upplagt fyrir feluleiki og það var skipst á að telja og leita.

Við lékum ferðamenn þessa helgi og fórum út að borða, í Tívolí og á tónleika. Við drifum okkur til dæmis loksins á tælenska veitingastaðinn í Rødovre, sem höfum lengi ætlað okkur að heimsækja. Ég get alveg mælt með honum en hann er auðvitað ofurlítið úr leið fyrir almenna ferðamenn. Á föstudaginn fórum við á tónleika með Safri Duo í Tívolí á aðalútisviðinu, Plænen. Þessir dönsku slagverksteknópopparar eru mjög vinsælir í heimalandinu og víða um heim.

Sunnudagurinn fór síðan nær allur í Tívolí. Ég fór með töskurnar á Hovedbanegården og svo vorum við þar þangað til ég fór í flug. Við Sigurveig keyptum okkur "turpas" í öll tæki og nýttum hann vel. Fórum öll helstu tækin og sum oftar en einu sinni. Svo skemmtilega vildi til að við hittum bestu vinkonu Sigurveigar og foreldra hennar í Tívolí og slógumst í för með þeim. Þær litlu gátu þá farið saman í ýmis tæki. Ég reyndi auðvitað að fara sem seinast af stað og græddi klukkutíma vegna seinkunar á brottför.

Eins og við var að búast var þetta mjög skemmtileg heimsókn og maður getur vart beðið eftir þeirri næstu. Það er satt að segja mjög sérstakt að vinna í einu landi og með fjölskylduna í hinu. Þetta er mjög erfitt og eingöngu hægt vegna þess að maður veit að það tekur brátt enda og að þetta auðveldar okkur flutningana til Íslands.

posted by Thormundur | 14:39
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn