::: Voldumvej 80

þriðjudagur, júní 29, 2004  

::: Grenjandi rigning og góður gleðskapur
Það var grenjandi rigning nánast í allan dag og dimmt yfir. Veðrið hefur ekki beinlínis verið gott í Danmörku það sem af er sumri en maður verður að vera bjartsýnn. Sólin tekur brátt völdin með tilheyrandi hita. Annað er ekki hægt.

Sóley og Sigurveig fóru í ferðalag í dag heim til Randy, fyrrum samstarfskonu Sóleyjar á leikskólanum, en hún býr syðst á Sjálandi. Þær eru rétt ókomnar eftir tveggja tíma lestarferðalag. Það merkilegasta er auðvitað að samstarfskona hennar fer þessa leið tvisvar á dag á leið úr og í vinnu! Ég heyrði í þeim áðan og var mikið fjör á þeim bænum. Sólin skein meira að segja þarna fyrir sunnan. Greinilegt að veðrið er einna síst í Köben.

Við höfum haft það gott síðustu daga. Haldin var afmælis- og kveðjuveisla á föstudaginn fyrir handboltavinkonur Sóleyjar, vinnufélaga og fleiri vini hennar. Veislan var afskaplega skemmtileg og stóð gleðskapur fram á nótt. Við leigðum samkomusal íbúðahverfisins og þar var borðað, drukkið og dansað að dönskum sið. Sigurveig og vinkona hennar Clara voru auðvitað með í partýinu. Það stóð til að Sigurveig færi heim til vinkonu sinnar í næturgistingu en hún harðneitaði og dansaði áfram til hálfeitt. Þá sofnaði hún bara á einum sófanum!

Sóley fékk ýmsar góðar gjafir, þ.á m. línuskauta frá handboltaliðinu. Gjöfin hitti greinilega í mark því hún hefur farið nokkra hringi í kringum Damhusengið. Það er auðvitað hrein viðbót daglegt skokk í kringum sama engi! Sigurveig er fyrir nokkru búin að læra á línuskauta og þær mæðgur eru góðar saman á skautunum.

Þetta er gott í bili.

posted by Thormundur | 23:07
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn