::: Voldumvej 80

föstudagur, desember 13, 2002  

::: Snjóaði í nokkrar mínútur
Það snjóaði í dag. En það snjóaði bara í nokkrar mínútur. Og það snjóaði bara í Lyngby. Sem sagt hvorki í Kaupmannahöfn sjálfri né Holte, fyrir þá sem þekkja landafræði stórborgarinnar! En það vildi svo skemmtilega til að við vorum einmitt í Lyngby þegar snjórinn féll! Mæðgurnar höfðu farið snemma af stað og ákváðu að heimsækja miðbæinn í Lyngby. Amma Sigga kannast svo sannarlega við sig á þessum slóðum eftir að hún dvaldist hér ytra síðasta vetur. Ég mætti á staðinn um fjögur og skömmu síðar byrjaði að snjóa. Þá var líka orðið nógu dimmt að jólaljósin höfðu verið kveikt. Þetta var mjög notalegt.

Það voru sérstaklega margir á aðalgötunni í Lyngby, sennilega fleiri en á venjulegum föstudegi. Ástæðan kann að vera leiðtogafundur ESB, sem hrekur marga burt af Strikinu og Ráðhústorginu. Margir hafa gert sérstakar ráðstafanir vegna yfirvofandi mótmæla og hugsanlegra óeirða en fáir hafa gengið jafn langt og McDonalds og Burger King, sem hafa hreinlega pakkað inn veitingastöðum sínum í miðbænum. Þegar Sóley sagði mér frá innpökkuninni mismælti hún sig lítillega og sagði að hún hefði séð iðnaðarmenn negla fyrir gluggana hjá McDonalds og Big Mac. :-)

posted by Thormundur | 20:44

fimmtudagur, desember 12, 2002  

::: Nýjar myndir
Nú eru komnar nýjar myndir á myndavefinn. Og í þetta sinn eru fleiri en Sigurveig á myndunum! Annars vegar eru komnar myndir frá jólahátíðinni á leikskólanum hennar Sigurveigar og hins vegar myndir frá ýmsum heimsóknum sem við höfum fengið í haust.

posted by Thormundur | 20:19

miðvikudagur, desember 11, 2002  

::: Beðið eftir jólasveininum
Það er mikið um að vera í Kaupmannahöfn þessa dagana. Amma Sigga kom til borgarinnar í dag og margar mótmælagöngur hafa verið skipulagðar. Það eru þó alls engin tengsl þarna á milli. :-) Mótmælagöngum er beint gegn leiðtogafundi ESB sem hófst í dag og stendur fram á laugardag. Menn segja víst rétt að forðast Ráðhústorgið á laugardag.

Sigurveig var eitt bros í framan þegar nafna hennar og amma kom að sækja hana í leikskólann. Eftir það fórum við heim og tókum upp úr töskum. Upp úr þeim kom m.a. hangikjöt, útskorin og heimasteikt laufabrauð, Egils malt og appelsín, Freyju möndlur, Appóló lakkrís og Dóra íslensk ýsa. Ennfremur töluvert af jólagjöfum en þær voru þó ekki opnaðar!

Sigurveig var líka mjög glöð með nokkrar auka gjafir að heiman. Jólapúsluspil frá ömmu Siggu og jólasveinakjóll frá Oddi og Jónínu, sem hún klæddi sig strax í. Síðast en ekki síst var tekinn upp dularfullur poki frá Jónu og Grétari. Upp úr honum komu Barbie-dúkkur, alls konar föt og fylgihlutir og loks það sem Sigurveigu hefur alltaf vantað - Ken! Komu dúkkurnar úr leikfangasafni fjölskyldunnar á Löngumýri en "börnin" þar eru víst hætt að leika með þær. Vitanlega lék Sigurveig með Barbie-dótið allan daginn - í jólasveinakjólnum. Þegar kvöldaði vildi hún síðan alls ekki fara að sofa. Alveg þar til við mundum skyndilega eftir því á hverjum væri von í fyrramálið. Fyrsta jólasveininum. Stekkjastaur! Hún rauk til, burstaði tennurnar umsvifalaust, sótti annan brúðkaupsskóinn sinn, henti sér upp í rúm og undir sæng. Og það sem meira var. Hún harðneitaði að lesið yrði fyrir sig heldur lokaði augunum og var sofnuð nokkrum augnablikum síðar. Að þessu sinni fannst henni öruggara að sleppa lestrinum þar sem klukkan var brátt að slá tíu.

posted by Thormundur | 23:05

mánudagur, desember 09, 2002  

::: Myndavefur opnaður!
Nú eru komnar fyrstu myndirnar á myndavef fjölskyldunnar! Við byrjum smátt en stefnan er að setja reglulega inn nýjar myndir og af og til einhverjar eldri líka. Fyrst um sinn er annars vegar hægt að skoða nokkrar vel valdar myndir frá því í sumar og haust og hins vegar myndir frá afmælinu hennar Sigurveigar. Til að komast inn á myndavefinn þarf framvegis einfaldlega að smella á samnefndan tengil á valblaðinu hér hægra megin á síðunni. Njótið vel!

posted by Thormundur | 19:49

sunnudagur, desember 08, 2002  

::: Jólahátíð í leikskólanum
Við Sigurveig tókum þátt í jólahátíð leikskólans í dag. Sóley komst ekki þar sem hún var að keppa. Úrslit verða ekki birt af tillitsemi við hlutaðeigendur :-)

Það var margt um manninn í leikskólanum og borð hlaðin eplaskífum og piparkökum. Fullorðnum var boðið upp á glögg eða kaffi en börnum upp á saft. Ég valdi saftið! Að veitingum loknum var komið að aðalatriðinu. Eldri börnin klæddu sig upp að hætti Lúsíuhátíðar, öll í hvítum kirtlum með ljós í hendi, stúlkur með kórónu en strákar með oddmjóan hatt. Þau gengu síðan í skrúðgöngu á leikskólalóðinni og sungu lagið St. Lucia. Að því er ég best veit fjallar lagið um samnefnt ítalskt fiskimannaþorp en ekki um heilaga Lúsíu, sem uppi var á 3. öld og var ættuð frá Sikiley. Sigurveig stóð sig mjög vel og var mjög flott í Lúsíubúningnum. Skoðið myndirnar!

Jólasveinninn mætti einnig á staðinn, leikinn af John, deildarstjóra Fiðrildadeildarinnar hennar Sigurveigar. Honum tókst nú ekki að fela sig bakvið skeggið því að krakkarnir voru fljótir að þekkja hann. Hann gaf krökkunum nammipoka sem Sigurveig týndi síðan. Það var þó lán í óláni að hún var búin með nammið úr pokanum en eftir var mandarína og rúsínur!

posted by Thormundur | 19:53
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn