::: Voldumvej 80

föstudagur, desember 20, 2002  

::: Rólegheit fram að jólum
Jæja, þá er komin helgi og fjölskyldan komin í frí fram að jólum. Sóley fer ekki í vinnu á mánudag og Sigurveig heldur ekki í leikskólann. Við ætlum að taka því mjög rólega næstu daga, fara í bæinn og hafa það gott. Við erum nánast búin að kaupa allar jólagjafir og sendum síðustu jólakortin í dag. Vegna anna á síðustu viku fór seinni bunkinn af kortum hugsanlega aðeins of seint af stað en vonandi komast kortin á leiðarenda fyrir jól.

Og að allt öðru. Við uppgötvuðum í gær að Danir geta verið mjög gamaldags á einstökum, afmörkuðum sviðum. Þannig var mál með vexti að við höfum nú beðið nokkuð lengi eftir að fá greiddar út húsaleigubætur. Þar sem Sóley er skráð fyrir íbúðinni sá hún alfarið um samskipti við bæjaryfirvöld hér í Rødovre. Hún fékk svo loks að vita það fyrr í vikunni að við gætum fengið greitt út það sem áttum inni, en til að fá peningana strax yrðum við sækja þá sjálf í ráðhúsið. Ella yrðum við að bíða lengur. Þegar hún spurði svo hvenær hún gæti sótt þá, var henni hins vegar tjáð að það gæti hún alls ekki. Ástæðan reyndist vera sú að samkvæmt áratugagömlum reglum er eingöngu hægt að greiða út bætur, sem ætlaðar eru hjónum, til eiginmanna! Ég var því gerður út af örkinni til að rukka bæinn um bæturnar. :-)

posted by Thormundur | 23:05

fimmtudagur, desember 19, 2002  

::: Hann á afmæli í dag!
Vil bara óska pabba til hamingju með afmælið, sem er í dag. Auðvitað hringdi ég líka - en sjaldan er góð vísa of oft kveðin. Ekki meira í bili.

posted by Thormundur | 23:28

miðvikudagur, desember 18, 2002  

::: Skyr í skóinn
Skyrgámur kemur í fyrramálið og hann fær bréf frá Sigurveigu. Hún setti litla skyrdós í skóinn sinn en með dósinni fylgir stutt bréf sem Sigurveig fékk mömmu sína til að skrifa. Hér kemur brot úr bréfinu sem var skrifað eftir skýrum fyrirmælum Sigurveigar: "Elsku Skyrgámur! Þú mátt eiga skyrið af því að þér finnst skyr svo gott. Ég ætla að vera svo góð, rosalega góð. Ég hlakka til jólanna! Gleðileg jól! Sigurveig."

Annars gerðist það eitt kvöldið um daginn að Sigurveig bað um að horfa á barnatímann klukkan níu að kvöldi. Hún fékk því nú ekki framgengt enda kominn háttatími. Foreldrar hennar gripu til klassísks úrræðis og minntu hana á að ef hún horfði svo seint á sjónvarp, myndi hún kannski ekkert fá í skóinn næsta morgun frá jólasveininum. Eftir smá hik svaraði hún með bros á vör: "Ætti ég að prófa?" Svo fór að lokum að hún tók ekki sénsinn. Vonandi þarf ekki að taka fram að foreldrarnir hefðu heldur aldrei leyft sjónvarpsglápið á þessum tíma. :-) En foreldrarnir lentu samt á hálum ís í þessum samningaviðræðum.

posted by Thormundur | 23:58

þriðjudagur, desember 17, 2002  

::: Meira af kóki
Ég tel mig knúinn til að skrifa meira um kók. Ég fékk áleitnar spurningar frá tryggum lesendum sem undruðust hvers vegna í ósköpunum ég drykki kók úr dós! Þetta er rétt athugað þar sem ég drekk aldrei kók í dós heima á Íslandi. En hér ytra gilda önnur lögmál. Málið er í raun einfalt. Rannsóknir mínar hafa leitt í ljós að kók í dós samhæfir best stífar kröfur um kulda, hæfilegt magn og verð!

Nú er það því miður bláköld staðreynd að danskt kók og smyglað stendur hinu íslenska langt að baki. Og af þrennu illu er plastið verst en flaskan og dósin öllu skárri kostir. Valið stendur því milli flöskunnar og dósarinnar. Þá verður að líta til þess að dósakókið er oft mjög kalt, sem vitanlega gerir gæfumuninn, og er auk þess töluvert ódýrara, þ.e. smyglaða útgáfan. Magnið skiptir líka máli. Stundum eru 25 cl úr flöskunni einfaldlega ekki nóg. Að sama skapi getur hálfur lítri verið of mikið magn. Ekki það að ég vilji ekki meira en kókið á það til að volgna ansi hratt og þá hverfur lystin. Að vandlega athuguðu máli er dósakókin því afar skynsamur kostur hér í Danmörku! :-)

posted by Thormundur | 22:38

mánudagur, desember 16, 2002  

::: Öll að braggast
Sigurveig er öll að braggast eftir lasleika síðustu tveggja daga. Hún fer væntanlega í leikskólann á morgun. Sigurveig fékk tölvupóst í dag frá Vífli og krökkunum á Reynihlíð með nokkrum myndum frá leikskólanum. Henni þótti það ekki leiðinlegt! Við fengum nokkrar jólamyndir og líka mynd af nýja sandkassanum.

posted by Thormundur | 20:59
 

::: Kók undir borðið
Ég lenti í undarlegri lífsreynslu í dag. Ég keypti kók í dós undir borðið! Ég bað sem sagt um dósakók og afgreiðslumaðurinn laumaðist bakvið og sótti kók innan úr lager. Hver skyldi ástæðan vera? Jú, danska Vífilfell framleiðir lítið sem ekkert kók í dós. Afleiðingin er sú að árlega er milljónum kókdósa smyglað til Danmerkur frá austantjaldslöndunum. Smyglaða dósakókið fæst í öllum betri Tyrkjasjoppum hér í landinu og kostar stykkið víða aðeins fimm krónur eða um 55 krónur íslenskar.

Hingað til hefur verið fremur auðvelt að koma höndum yfir það. Nú bregður svo við að í tveimur sjoppum sem ég á mikil viðskipti við (!) er dósakókið ýmist alveg horfið eða komið undir borðið. Dönsk tollayfirvöld hafa vitanlega horn í síðu smyglaða kóksins og hafa reynt að sporna við þessari þróun - með litlum árangri. En þar sem ég er tryggur viðskiptavinur fæ ég hins vegar kókið afgreitt. Nema hvað!

posted by Thormundur | 20:23
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn