::: Voldumvej 80

fimmtudagur, janúar 02, 2003  

::: Snjór yfir öllu
Snjórinn er kominn fyrir alvöru hér í Rødovre. Það er snjór yfir öllu og sú sem gladdist mest var Sigurveig. Hún fór í leikskólann í morgun og gekk auðvitað bara þar sem snjórinn var mestur. Við megum nú búast við hörkuvetri á næstunni en janúar og febrúar mánuðir eru allra kaldastir hér í landi. Síðan kemur betri tíð með blóm í haga strax í mars, vonum við.

Áramótin gengu ljúflega fyrir sig hér í Danmörku og hefur áramótagleðin aldrei farið jafn friðsamlega fram og þetta árið. Ég las reyndar sömu frétt um stöðuna heima. Við reyndum að horfa á áramótaskaupið hér á netinu en lentum í vandræðum með hljóðið, það bergmálaði allt. En við fáum skaupið á spólu frá pabba og mömmu. Við bíðum spennt.

posted by Thormundur | 14:45

þriðjudagur, desember 31, 2002  

::: "Gud bevare Danmark"
Við vorum að horfa Margréti drottningu flytja nýjársræðu sína. Hún gerði það af miklum myndarbrag, var mjög afslöppuð og skýr í framkomu. Hún talaði líka í beinni. Fullyrt var að hún væri eini þjóðhöfðinginn í Evrópu sem flytti stefnuræðu sína í beinni! Hvernig er þetta hjá Ólafi Ragnari? Tekur hann ekki sitt upp? Svo er það Anders Fogh á morgun. Forsætisráðherrann. Hér er þetta nefnilega öfugt miðað við heima, drottningin á gamlárskvöld og forsætisráðherrann á nýjársdag. Samt er þetta nú meira og minna sömu skilaboðin. Ræðu drottningarinnar er nefnilega vandlega ritstýrt af forsætisráðuneytinu. Fyrst fá ræðuhöfundar hennar hátignar heppilega efnispunkta úr ráðuneytinu. Þegar ræðan er tilbúin verða embættismenn ráðuneytisins síðan að samþykkja hana! Þetta þarf Ólafur Ragnar þó ekki að gera. Hann ber fulla ábyrgð á eigin orðum. En endirinn á ræðu Margrétar er alltaf á sömu leið: "Gud bevare Danmark!"

Við ætlum að hafa það mjög gott í kvöld. Höfum fengið góða gesti í heimsókn í mat, Sóleyju Grétars og vinkonu hennar Þóru, sem ætla að lesa verkfræði við DTU nú á vormisseri. Það verður nautasteik á borðum í kvöld og svo auðvitað fullt af snakki og nammi. Við ætlum svo að gera tilraun til að horfa á áramótaskaupið, sem er sent út á netinu! Við getum þó ekki horft á það allt því við erum einum tíma á undan og verðum að fylgjast með flugeldunum. Annars sýnist mér Danir ekkert síður vera óðir í að brenna upp peninga. Við ætlum að brenna upp heilar 40 danskar krónur en við keyptum stjörnuljós handa Sigurveigu. Annars munu um 250 milljónir danskra króna fuðra upp á miðnætti!

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir samveruna og góðar minningar á árinu sem er að líða.

posted by Thormundur | 18:48

mánudagur, desember 30, 2002  

::: Áramótaklipping
Ég fór víst aldrei í jólaklippinguna. En hárið fór endanlega fyrir augun eftir jólin og því ákvað ég að drífa mig í áramótaklippingu.

Ég ákvað hins vegar að spara örlítið og datt inn á hárgreiðslustofu í Vanløse þar sem herraklippingin kostar 100 krónur danskar. Hef verið að borga 230 krónur á "betri" stofu í staðarkringlunni hér í Rødovre. Ég tók sénsinn og satt best að segja er munurinn varla sjáanlegur. Mér leist vel á þessa stofu en sumar Bónus-hárgreiðslustofur geta verið mjög óspennandi. Hárgreiðslukonan var mjög snögg að klippa mig, sennilega til að reyna að ná sama tímakaupi og "betri" stofurnar, en afraksturinn var alveg jafn góður.

Þessi sparnaður í hárgreiðslunni er auðvitað liður í hagræðingu á heimilinu en eitt athyglisverðasta verkefnið við að flytja hingað út er að læra að lifa af einum launum. Okkur hefur tekist það sæmilega hingað til en nú fannst mér kominn tími til að ná umtalsverðri hagræðingu í heimilisbókhaldinu - nánar tiltekið 57% undir liðnum herraklipping!

posted by Thormundur | 18:39
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn