::: Voldumvej 80

miðvikudagur, janúar 08, 2003  

::: Allir í heimsókn!
Nú hafa menn ekki lengur afsökun fyrir því að koma ekki í heimsókn til okkar hér í Köben. Á morgun, 9. janúar, verður hægt að bóka miða hjá Iceland Express, fyrsta íslenska lággjaldaflugfélaginu. Hægt verður að fljúga til okkar alla daga vikunnar, allan ársins hring og heim aftur fyrir vel innan við 15 þúsund krónur - íslenskar. Reyndar flýgur félagið líka til London, en við erum ekki þar. En það sem meira er. Það verður raunverulega mikið af fargjöldum í boði á þessu lágu verði. Lágt verð er ekki bara auglýsingabrella, lágt verð er útgangspunktur. Loks þarf ekki að hafa áhyggjur af "sunnudagareglunni" alræmdu, hægt verður að fljúga út hvaða dag sem er og koma heim hvenær sem hentar.

Við vitum að margir hafa þegar hugsað sér til hreyfings af þessu tilefni. Elísabet, systir Sóleyjar, kemur í mars og nokkrir fleiri hafa orðað möguleikann að kíkja í heimsókn. Við letjum engan til þess. Menn þurfa líka að fara að bóka gistingu. Voldumvej 80 tekur ekki endalaust við. :-)

posted by Thormundur | 22:44

þriðjudagur, janúar 07, 2003  

::: Hún á afmæli í dag!
Mamma á afmæli í dag. Við sendum innilegar hamingjuóskir frá Danmörku! Svo hringjum við seinna í dag þegar sumir eru komnir úr leikskólunum sínum.

posted by Thormundur | 13:32

sunnudagur, janúar 05, 2003  

::: Vetrarríki
Spádómar um harðan vetur stóðu heima. Við sjáum ekki út um glugga fyrir snjó og getum ekki opnað svaladyrnar. Danir líta svo á að það sé ófært á vegum úti en Íslendingum þætti þó færðin hér ekkert tiltökumál. Munurinn er sjálfsagt fólginn í dekkjabúnaði.

Þegar veðrið er annars vegar er ekkert meira pirrandi en að hitta Dani sem spyrja hvort maður sé nú ekki farinn að kannast við sig, svona í snjónum og kuldanum! Og hvort okkur Íslendingunum sé nokkuð kalt úti. Ég er eiginlega löngu hættur að reyna að útskýra að það sé heitara á Íslandi en í Danmörku um háveturinn og að snjór þekkist varla á Íslandi um þessar mundir! Og ég reyni alls ekki að útskýra að mér er alveg jafn ískalt og Dönum þegar maður er úti við. Það er reyndar auðveldlega hægt að færa rök fyrir því að Danir eigi að þola kuldann betur en Íslendingar. Við förum næstum aldrei út úr bílunum okkar, nema á leiðinni af bílastæðunum og inn í Kringluna. Danir eru hins vegar alltaf að labbandi úr og í strætó eða lest eða hjólandi sama hversu kalt er.

En okkur er þó ekkert kalt inni í íbúðinni okkar, því hún er betur kynt en hið dæmigerða danska heimili. Við njótum þess líka að í húsaþyrpingunni okkar er starfandi sérstakur kyndimeistari - varmemester Kim Larsen. Ég er ekki að grínast, hann heitir þetta.

posted by Thormundur | 23:11
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn