fimmtudagur, janúar 16, 2003
::: Þúsund heimsóknir! Vefurinn okkar hefur nú fengið þúsund heimsóknir síðan við settum hann upp fyrir einum og hálfum mánuði síðan. Við þökkum kærlega fyrir áhugann og lofum að standa okkur áfram vel við að skrifa á vefinn.
Nú er snjórinn farinn hér og kominn heima á Íslandi. Veðrið er samt leiðinlegt, kalt, rok og rigning af og til. Þetta er svona dæmigert íslenskt vetrarveður, eins og það var einu sinni allavega. Höfum hins vegar bara heyrt sögur um hita og sól að heiman síðustu vikur!
posted by Thormundur |
13:13
sunnudagur, janúar 12, 2003
::: Áfram Ísland! Fjölskyldan fór að horfa á íslenska landsliðið í handbolta etja kappi við Egypta í Valby-Hallen í dag. Íslendingar völtuðu yfir andstæðinga í seinni hálfleik, eftir jafnan fyrri hálfleik, og unnu sannfærandi 35:25. Annars var leikurinn eins konar upphitunarleikur því áhorfendur voru komnir eingöngu til að sjá Dani spila á móti Pólverjum en þessar fjórar þjóðir tóku þátt í æfingamóti hér í Köben. Íslendingar stóðu sig alveg þokkalega eftir útreið gegn Dönum í gær í Helsinge. Ég er bara feginn að ég fór ekki á þann leik. Sá hann í sjónvarpinu og hætti að horfa í lokin þegar annars þokkalegir lýsendur leiksins fóru yfirum í þjóðernisstolti og fullvissu að þeir væru að horfa á væntanlega heimsmeistara. Þetta fór svolítið í taugarnar á manni, þeim þótti auðvitað bara eðlilegt að vinna Ísland, en gleymdu reyndar hvort liðið hefur berið betra á heimsmælikvarða síðustu 10-15 ár allavega fram að hinum afdrifaríka bronsleik á EM á síðasta ári.
Við hlökkum til að fylgjast með Íslandi á HM í Portúgal. Maður er nú hæfilega vongóður, ekkert meira. Fyrir mitt leyti mun ég hins vegar ekki veita Dönum stuðning á mótinu. Ég kann bara ekki við það hvað þeir eru stundum góðir með sig. Þetta var allt annað þegar maður fylgdist með danska kvennalandsliðinu í desember sl. Þær voru með skemmtilegt lið sem auðvelt var að halda með. Hafi danska karlaliðið einhvern tímann átt von um að fá stuðning minn (eftir að Ísland félli hugsanlega úr leik), varð það að engu á landsleiknum fyrr í dag. Þá kom í ljós að meirihluti danskra áhorfenda virtist fremur styðja Egypta en Íslendinga. Enda eru Danir og Egyptar frændþjóðir miklar. :-)
Áfram Ísland á HM!
posted by Thormundur |
20:17
|