::: Voldumvej 80

laugardagur, febrúar 01, 2003  

::: Óforsvaranlegt!
Við horfðum á íslenska landsliðið í fyrsta sinn í beinni áðan. Það reyndust mikil vonbrigði. Það er algjörlega óforsvaranlegt að spila bara með eina skyttu allan leikinn. Hvers vegna í ósköpunum var Dagur látinn leika sem hægri skytta? Það er meira að segja umdeilanlegt að hann spili í stöðu leikstjórnanda, hvað þá skyttu. Þetta er óskiljanlegt og ófyrirgefanlegt, jafnvel þótt Patti hafi meiðst. Það eiga að vera tvær hægri handar skyttur í hverjum hópi. Gunnar Berg hefur sjálfsagt ekki verið í hópnum en það hefði nú átt að koma til greina að nota Guðjón Val sem skyttu. Hann hefur þó spilað sem skytta. Það er nógu erfitt fyrir Ólaf Stefáns að ná sér á strik að íslenski landsliðsþjálfarinn hjálpi ekki til og geri vinstri vænginn óvirkan. Hvað skoraði Dagur mörg mörk, ef undan eru skilin víti? Hvað skoraði Guðjón Valur mörg mörk úr spili og sendingum af vinstri vængnum, ef undan eru skilin hraðaupphlaup? Ekki mörg!

Það var ekki að ósekju að dönsku þulirnir hér ytra væru forviða og ályktuðu að það yrði að koma meira úr Aroni og Degi ef íslenska landsliðið ætti að vinna Rússa. Þeir kölluðu Dag ítrekað hægri skyttu og gátu ekki vitað betur fyrst hann spilaði sem slíkur allan leikinn.

Þetta er grátlegt. Það er fyrir sig að tapa fyrir gömlu en góðu liði Rússa ef við stillum upp venjulegu liði, með markmanni, leikstjórnanda og línumanni og tveimur skyttum og tveimur hornamönnum. Þetta hefur yfirleitt þótt eðlileg uppstilling. En ekki í huga Guðmundar landsliðsþjálfara. Grátlegra er að hugsa um þetta vegna þess að ekki hefði þurft svo öfluga hægri skyttu til að ná jafnvægi í sókninni og vinna leikinn.

posted by Thormundur | 15:00

föstudagur, janúar 31, 2003  

::: Fyndið
Hér á eftir ætla ég að birta kynningu hins geðþekka vikutímarits Se & Hør á tveimur dagskrárliðum í sjónvarpsvísi blaðsins, sem kom út á miðvikudag! Dagskrárliðirnir eru undanúrslitaleikur og úrslitaleikur HM. Fyrst er það kynningin um undanúrslitin:

"Hvis alt er gået som fod i hose for Danmark, så spiller Joachim Boldsen og co. i dag semifinale ved VM i Portugal. Modstanderen er formentlig Spanien eller Island, og begge nationer bør Danmark kunne besejre på en god dag. ... Det ligner en drømmefinale i morgen mod Tyskland eller Frankrig."

Og svo er það textinn um úrslitin!

"... En drømmefinale hedder Danmark mod Sverige, men det er nok snarere Tyskland eller Frankrig, der er dagens modstander."

Þar hafið þið það.

posted by Thormundur | 21:06
 

::: Betri en Danir og Svíar!
Það er gaman að vera Íslendingur í Danmörku núna. Af hverju? Jú, við erum meðal átta bestu á HM en hvorki Danir né Svíar. Tilvonandi heimsmeistarar (Danir að eigin sögn) féllu út með skömm í gær eftir niðurlægjandi stórtap gegn Króötum. Það eru ekki nema þrír dagar síðan að Danir fögnuðu því ógurlega að hafa tapað gegn Svíum til að losna við Frakka og Þjóðverja á leið sinni í úrslit. Þess í stað þyrfti bara að vinna Rússa og Króata í milliriðli og annað hvort Ísland eða Spán í undanúrslitum - þetta leit svo vel út, þetta var svo auðvelt! :-)

Danir eru auðvitað miður sín og í senn hneykslaðir og reiðir með frammistöðu sinna manna. Blöðin fara ófögrum orðum um liðið og þjálfarann. Liðið er hnípið og finnur réttlætingu í lélegu gengi með því að Danir hafi nú lent í erfiðum riðlum, þeir séu með ungt lið og að dómarar hafi leyft full mikla hörku. Þeir hafi ekki verið tilbúnir í þetta. Einmitt. Það er auðvelt að vera vitur eftir á. En þeir viðurkenna líka að gömlu mennirnir frá Svíþjóð og Rússlandi, sem voru hinar auðveldu bráðir fyrir ungu mennina, hafi verið snjallari en þeir þegar á hólminn var komið og að hið unga lið Króatíu hafi einfaldlega verið betra. Batnandi mönnum er best að lifa.

En hvað um frammistöðu Íslendinga? Hún er góð en alls ekki framúrskarandi. Við verðum að horfast í augu við það að við vorum í léttum riðli og milliriðli. Við höfum eingöngu unnið þá leiki, sem við "áttum" að vinna, t.d. á móti Portúgal og Póllandi. Ég nefni ekki einu sinni Ástralíu, Katar og Grænland. Við unnum hins vegar hvorki Þýskaland og Spán - erfiðu mótherjana. En það er á hinn bóginn jákvætt að tveir síðastnefndu leikirnir voru tiltölulega jafnir og að við áttum smá von í báðum leikjum. Nú er bara að vona að við vinnum annan leikinn af þeim tveimur sem eftir eru til að tryggja Ólympíusætið.

En hvað sem öðru líður skiptir mestu máli að við endum ofar á mótinu en bæði Danir og Svíar.

posted by Thormundur | 17:08

þriðjudagur, janúar 28, 2003  

::: Loksins
Við höfum ekki verið mjög dugleg á blogginu síðustu daga. Það er engin sérstök ástæða fyrir því. Við vorum reyndar mjög upptekin um helgina því við fengum góða heimsókn. Afi Dóri mætti á svæðið en eins og fram hefur komið hér á vefnum hringdi hann bara og tilkynnti komu sína tæpri viku fyrir brottför. Það var afskaplega gott að fá hann í heimsókn núna enda höfum við ekki séð hann frá því í ágúst. Amma Sigga kíkti í heimsókn í desember og hitt afa- og ömmu parið kom skömmu áður! Sigurveig er því búin að fá báðar ömmur og báða afa í heimsókn á stuttum tíma.

Við erum annars byrjuð að skipuleggja heimsókn til Þýskalands í næsta mánuði. Ætlum að heimsækja Hrabbý og Val sem búa í Waldbüttelbrünn. Þýskara verður nafnið varla! Sigurveig getur ekki beðið eftir að hitta Sævar Örn og Valgerði og er mjög spennt yfir ferðinni. Fyrir þá sem ekki vita hvar Waldbüttelbrünn er getum við upplýst að bærinn er skammt frá hinni fornu borg Würzburg um miðbik Þýskalands.

posted by Thormundur | 23:46
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn