::: Voldumvej 80

laugardagur, mars 15, 2003  

::: "Vorið er komið ..."
Við höfum notið sannkallaðrar vorblíðu síðustu daga. Þetta byrjaði allt fyrir rúmri viku þegar hitastigið hækkaði skyndilega, reyndar var það daginn sem Valgeir kom í heimsókn. Veðrið batnaði síðan enn meira þegar Elísabet mætti á svæðið á fimmtudag. Síðan hefur verið heiðskírt, sól og logn. Hér er orðið svo "heitt" að ég þurfti ekki að nota flíspeysu í dag - í fyrsta sinn í fjóra eða fimm mánuði. Húfan er líka farin af kollinum vonandi til frambúðar.

Sigurveig leikur sér úti í góða veðrinu með krökkum hér í kring. Ljóst er að vorið og sumarið verður eins og í Stigahlíðinni. Sigurveig úti allan daginn enda er stórt leiksvæði hér beint fyrir utan afgirt af húsunum hér við Voldumvej.

Systurnar eru í bænum þegar þetta er skrifað og hafa verið síðan snemma í morgun! Nákvæm skýrsla verður væntanlega birt eftir helgi með stöku myndum. Annars var það ekki bara Elísabet sem kom á fimmtudaginn til landsins. Jóna kom einnig í hádeginu á fimmtudag - en með annarri vél - til að heimsækja dóttur sína Sóleyju Grétars. Við hittumst öll í gær á Strikinu og sjálfsagt aftur á morgun. Hér í Kaupmannahöfn er sem sagt nokkurs konar ættarmót.

posted by Thormundur | 17:36

þriðjudagur, mars 11, 2003  

::: Godt að borða
Valgeir var hjá okkur um helgina. Við höfðum það einstaklega gott. Við slöppuðum af ýmist heima eða á rölti í bænum, gerðum vel við okkur í mat og drykk og fórum seint að sofa og sváfum lengi (les: eins lengi og við gátum). Sigurveig vaknaði auðvitað á sínum tíma en er yfirleitt svo góð að horfa stillt og prúð á barnatímann meðan gestir fá að lúra klukkutíma eða tvo í viðbót í sófanum.

Hápunktur heimsóknarinnar var þó án efa maturinn á Restaurant Godt í boði Valgeirs. Til að gera langa sögu stutta var matur og þjónusta óviðjafnanleg. Maturinn klárlega einn sá besti sem við Sóley höfum bragðað. Það þykir væntanlega líka fréttnæmt að Valgeir sannfærði okkur um að bragða á viðeigandi hvítvíni eða rauðvíni með hverjum rétti. Og við kunnum gott að meta. Það eru hjón sem reka þennan stað, eiginmaðurinn töfrar fram matinn og eiginkonan ber hann fram. Staðurinn er lítill og rúmar aðeins 20 gesti í senn en er að sama skapi afar persónulegur. Eingöngu er boðið upp á fastan matseðil, þriggja til fimm rétta, en matseðillinn breytist hins vegar dag frá degi. Það er sannarlega óhætt að mæla með þessum stað.

Annars er skemmtilegt að segja frá því að lengst af föstudeginum var Valgeir hreint ekki viss um að hann hefði yfirgefið Ísland. Meðan við sátum og spjölluðum heima á Voldumvej og Sóley var á æfingu fékk Sigurveig að horfa á sjónvarpið. Fyrst horfði hún á Stundina okkar á spólu (réttara sagt Stundirnar okkar því að hún fékk nánast alla þætti frá síðasta hausti að heiman) og þar á eftir fór Latibær í tækið. Það var fyrst á laugardeginum þegar við komum á Strikið að Valgeir fékk loks danskt áreiti.

Við þökkum kærlega fyrir heimsóknina. Næst á dagskrá er Elísabet! Hún mætir á fimmtudag.

posted by Thormundur | 19:33
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn