laugardagur, apríl 19, 2003
::: Tvenn tímamót Tvenn tímamót hafa orðið í lífi Sigurveigar síðustu daga. Í fyrradag lærði hún að reima skó sína og var auðvitað stolt af því. Nýlega keyptum við einmitt skó með reimum gagngert til þess að hún gæti byrjað að æfa sig. Í þessari viku komst hún svo upp á lagið með þetta. Það er ekki þar með sagt að hún nenni alltaf að reima sjálf - og hún hefur meira að segja laumað sér í gömlu skóna - með franska rennilásnum - þegar hún þarf að flýta sér mikið út að leika.
Í dag urðu síðan önnur og óvæntari tímamót. Sigurveig náði tökum á því að hjóla án hjálpardekkja! Við höfðum gert fyrstu tilraun til að taka hjálpardekkin í febrúar en þá virtist hún alls ekki tilbúin. En í dag gekk þetta eins og í sögu. Hjólin voru tekin af og hún náði strax tökum á því að hjóla. Stíllinn er enn svolítið skemmtilegur, af og til rykkir hún til og frá til að halda jafnvægi. En hvað sem því líður hefur hún hjólað í allan dag. Búin að fara í hjólatúr með mömmu sinni og nú bíður hún eftir mér. Við eigum nefnilega bara tvö hjól eftir að mínu var stolið á fyrstu dögum okkar hér á Voldumvej. Fjölskyldan getur því ekki farið saman út að hjóla. Það verður kannski eitthvað gert í því máli fyrr en seinna.
Annars er það einnig að frétta að við keyptum sólhlíf á svalirnar í dag. Þá er blómaker, gaskútur og kannski einn sólstóll á innkaupalistanum. Við getum lofað sumargestum góðum stundum á svölunum á Voldumvej!
posted by Thormundur |
17:20
miðvikudagur, apríl 16, 2003
::: Tívolí Fjölskyldan skundaði í Tívolí í dag í einstakri sumarblíðu. Við flögguðum árskortunum okkar góðu og keyptum túrpassa í öll tæki á góðu verði fyrir árskorthafa. Stefnan var sett á að nýta túrpassana til hins ítrasta svo fjárfestingin borgaði sig. Það reyndist auðvitað leikur einn.
Ég held að Sigurveig hafi farið í að minnsta kosti ein tíu tæki. Hún fór ýmist ein eða með í fylgd með "fullorðnum" :-). Ekki færri en þrír rússabanar voru prófaðir, þó ekki sá elsti og frægasti, sem heitir einfaldlega "Rutschebanen". Sá hraðasti sem við völdum var Hraðlest Óðins en hinir tveir voru heldur hægari og styttri. Svo var klesst í klessubílum, siglt á drekabátum, setið í hringekjum og flogið á flugvélum! Sigurveig og Sóley fóru í litla Parísarhjólið, sem reyndar ber heitið Blái safírinn. Stefnan var sett á stóra hjólið en að lokum vannst ekki tími til þess. Það bíður betri tíma. Eitthvað verðum við að gera í næstu heimsóknum.
Það var líka sérstök hátíðarstemning í Tívolí í dag í tilefni af afmælisdegi Margrétar drottningar. Tívolí á hins vegar afmæli í ár - er 160 ára. Til hamingju með það - bæði.
posted by Thormundur |
23:30
mánudagur, apríl 14, 2003
::: Allir komnir heim Jæja, þá eru allir komnir heim aftur úr frábærri ferð til Ítalíu. Við Sigurveig komum í gærkvöldi en Sóley hafði komið fyrr vegna handboltaiðkunar og atvinnu fyrirvinnunnar á heimilinu! Við stefnum að því að segja ferðasöguna sem allra fyrst og birta valdar myndir.
Í örstuttu máli var heimsóknin til pabba og mömmu afar vel heppnuð. Ferðin skiptist nokkurn veginn í þrjá hluta. Við skruppum fyrst til Feneyja og gistum eina nótt, héldum svo til í nokkra daga í háskólabænum og viðskiptaborginni Bologna, þar sem foreldrar mínir hafa bækistöðvar sínar þessar vikurnar og loks keyrðum við um ítalska sveitavegi og háskalegar hraðbrautir í tvo daga og heimsóttum meðal annars San Marinó og Maranello, heimabæ Ferrari. Við fengum að kynnast alls kyns veðri í ferðinni, hita og kulda, sól, rigningu og snjó!!! Við vorum þó svo heppin að þegar mest á reyndi var gott veður, t.d. í Feneyjum og San Marinó en veðurfar skiptir miklu máli á seinni staðnum varðandi útsýni.
Miklu meira og myndir síðar.
posted by Thormundur |
15:59
|