fimmtudagur, apríl 24, 2003
::: Komið að tómum kofanum Við fórum í bæinn í dag til að kjósa. En við komum að tómum kofanum. Sendiráðið var lokað. Í tilefni af sumardeginum fyrsta! Ég verð að viðurkenna að þetta kom mér í opna skjöldu. Ég vissi vel hvaða dagur var heima en mig grunaði aldrei að sendiráðið myndi loka vegna þess. "Viðskiptavinirnir", Íslendingar búsettir í Danmörku og aðrir, eru ekki í fríi og geta ekki verið að velta fyrir sér hvort það er opið í opinberum stofnunum á Íslandi eða ekki þegar þeir reka erindi í Danmörku!
Það er ljóst að sendiráðsstarfsmenn eru með íslenska kjarasamninga en ég hef þá sterklega grunaða um að taka sér líka frí á dönskum frídögum. :-) Þetta var kannski ekki alvarlegt vandamál fyrir okkur, þetta kemur ekki í veg fyrir að við kjósum. Við mætum aftur - en þó ekki 1. maí! Það er þó frídagur í báðum löndum.
Verra þótti mér að á heimasíðu sendiráðsins voru engar upplýsingar um þessa skyndilokun. Ég kíkti á vefinn til að kanna hvenær sendiráðið væri opið. Það gekk frekar illa því upplýsingar um afgreiðslutíma eru vel faldar. Eftir að hafa smellt á nokkra linka fann ég þetta þó að lokum. En það þarf ekki sérfræðinga til að sjá að vefsíðunet sendiráðanna - www.iceland.org - er meingallað og lítt notendavænt.
Gleðilegt sumar!
posted by Thormundur |
23:21
miðvikudagur, apríl 23, 2003
::: Ítalíumyndir komnar Rétt er að vekja athygli á því að við höfum sett inn myndir frá Ítalíuferðinni okkar. Myndamöppurnar skiptast í þrennt. Í fyrstu seríunni eru myndir frá Feneyjum, þeirri einstöku borg. Í annarri myndasyrpunni er háskólabærinn Bologna kynntur í máli og myndum og í þeirri þriðju eru myndir frá ferðalagi okkar til San Marinó, Imola og Maranello.
Ætlunin var að birta ferðasöguna hér á aðalsíðunni en við ákváðum að slá tvær flugur í einu höggi. Ferðasagan er sögð í máli og myndum á myndavefnum og því eru myndatextar óvenju fyrirferðarmiklir í þetta sinn. Njótið vel!
posted by Thormundur |
19:48
|