::: Voldumvej 80

þriðjudagur, apríl 29, 2003  

::: La posta italiana e molto lenta!
Þann 9. apríl sendi Sigurveig póstkort frá Ítalíu til mömmu sinnar, sem þá var flogin aftur til Danmerkur. Póstkortið kom í dag 29. apríl! Ég endurtek: Í dag. Það tók ítölsku póstþjónustuna sem sagt heila 20 daga að senda póstkort frá Bologna til Rødovre. Fyrirsögnin hér að ofan dregur fram kjarna málsins: Ítalska póstþjónusta er mjög sein!

Nú veit ég að þetta er ekki tilviljun. Daginn eftir sendi ég tvö póstkort til Íslands og fyrir fáeinum dögum kannaði ég hvort þau væru komin. Það voru þau auðvitað ekki. Ég veit líka að þetta er ekki dönsku póstþjónustunni að kenna. Hún er svo snögg að sendi maður sjálfum sér bréf frá pósthúsi að morgni getur maður allt eins átt von á því að finna það í póstkassanum síðdegis. Íslenska póstþjónustan er heldur ekki svo galin.

Hvert póstkortið hefur farið er fróðlegt rannsóknarefni. Fór það frá Bologna til Rómar af því að öll bréf fara fyrst til Rómar? Fór það hugsanlega þaðan til Mílanó af því að þaðan eru hugsanlega fleiri flug til Danmerkur en frá Róm. Eða fór póstkortið ef til vill fyrst til ítalska bæjarins Rodigo í Lombardia-héraði vegna þess að bæjarheitið er svo "líkt" Rødovre? Sennilegra er kannski að póstpoki með póstkortinu hafi bara hreinlega týnst um það leyti sem starfsmenn Poste Italiane flýttu sér heim í siestuna! Hvað á maður annars að halda?

Kortið er þó komið og því má segja að hér gildi máltækið: Betra er seint en aldrei. Önnur máltæki (úr smiðju Sverris Stormskers) ættu reyndar miklu betur við um ítölsku póstþjónustuna. Þar stendur valið helst á milli "Illu er best ólokið" eða "Frestaðu því ekki til morguns sem þú getur frestað lengur".

posted by Thormundur | 16:07

sunnudagur, apríl 27, 2003  

::: Stórleikur!
Það er best að ég skrifi þessa bloggfærslu svo að hógværð Sóleyjar skyggi ekki á sannleikann. :-) Hún er heldur ekki heima, hún er að fagna!

Staðreyndin er sú að Sóley átti stórleik í dag og átti ásamt fleirum þátt í að tryggja liði sínu sigur og áframhaldandi sæti í fyrstu deild í þriðja leik og hreinum úrslitaleik um sætið. Sóley lék allan leikinn og varði örugglega meira en 20 skot! Það byrjaði þó ekki vel því andstæðingarnir, Gladsaxe-konur, komust 0-4 yfir! En Rødovre-píur náðu að jafna 4-4 og sigu svo jafnt og þétt fram úr. Þær höfðu lengst af 4-6 marka forystu en tókst að hrista af sér andstæðingana í lokin og náðu mest níu marka forystu. Liðið lék að þessu sinni betur en ég hef séð í vetur og margir að sýna sitt allra besta, þeirra á meðal Heiða liðsfélagi Sóleyjar í Rødovre. Lokatölur 30-23.

Þetta er vitanlega mikill léttir fyrir Sóleyju og restina af liðinu enda svolítil vonbrigði að missa viðureignina um sæti í þrjá leiki. Og tilhugsun um fall var ekki spennandi. Nú er bara að vona að liðið nái sér á strik næsta vetur og verði að minnsta kosti í efri hlutanum.

En eins og við segjum hér úti - godt gået, Sóley!

posted by Thormundur | 16:23
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn