sunnudagur, maí 04, 2003
::: Við erum meistarar! Enski meistaratitillinn er í höfn hjá United! Einstakur sigur minna manna eftir spennandi tímabil. Titillinn er fyllilega verðskuldaður, við erum einfaldlega með besta liðið. Við áttum reyndar í höggi við fantagott lið í baráttunni um titilinn en sýndum okkar besta eftir áramót. Höfum ekki tapað leik í deildinni síðan á annan í jólum og töpuðum heldur ekki leik gegn fjórum næstbestu liðunum í allan vetur.
Gleggstu menn hafa hugsanlega tekið eftir því að ég hef nánast ekkert bloggað um enska boltann í allan vetur. Þetta er sennilega einhvers konar hjátrú. Það kemur alltaf í bakið á manni að vera með miklar yfirlýsingar á miðju tímabili. Nú er hins vegar rík ástæða til að blogga - og að fagna. Það er hafið yfir allan vafa hverjir eru bestir. Tölurnar tala sínu máli, frammistaða okkar segir allt sem segja þarf.
Við Bjössi, vinur minn, fögnuðum titlinum með því að vera í símasambandi frá því að Leeds skoraði þriðja mark sitt fáeinum mínútum fyrir leikslok! Ég hef því miður lítið séð af leikjum vetrarins - ég næ ekki réttu stöðinni. Þess í stað fékk lýsingu á lokamínútunum í símann. Það var flott! Við Sigurveig fögnuðum eftir leikinn með því syngja hástöfum "We are the Champions". Hún var kannski ekki alveg með á tilefninu en var þó alveg jafn glöð. Hún náði viðlaginu smám saman eftir nokkrar spilanir!
Þetta er í annað sinn sem ég fagna meistaratitli hér á Voldumvej með tilheyrandi gleðilátum. Í september hlustaði ég á lýsingu Rásar 2 í beinni á netinu þegar KR tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn. Það var yndislegt. Sem sagt: KR er Íslandsmeistari og Manchester United Englandsmeistari. Það getur ekki verið betra!
posted by Thormundur |
22:55
|