::: Voldumvej 80

þriðjudagur, maí 13, 2003  

::: Viðburðarík helgi
Nýliðin helgi var afar viðburðarrík. Helgin hófst reyndar hjá mér á miðvikudaginn var þegar Eggert Þór og Viggó mættu á svæðið. Von var á Guðbrandi tveimur dögum síðar. Við félagarnir höfðum samið ítarlega dagskrá svona til að uppfylla fræðilegar kröfur en fórum ekki nema lítillega eftir henni. Okkur tókst þeim mun betur að slappa af og njóta samverunnar. Og þá var markmiðinu náð.

Fimmtudagurinn var helgaður Hróarskeldu. Við heimsóttum Víkingasafnið og skoðuðum dómkirkjuna, en í henni eru nær allir konungar Dana grafnir. Bærinn er afar skemmtilegur og mjög góður valkostur við Kaupmannahöfn. Það er jú ekki nema 20 mínútna lestarferð þangað frá Hovedbanegården. Við vorum sérlega duglegir við að slappa af á föstudeginum og biðum eftir Guðbrandi. Þegar hann rann í hlaðið með Gautaborgarrútunni skunduðum við hingað á Voldumvej og héldum mikla veislu um kvöldið.

Laugardagurinn var stóri dagurinn í heimsókninni enda langur dagur samkvæmt prógramminu. Okkur tókst að fara á Íslendingaslóðir eins og til stóð um morguninn. Endastöðin var Hvids Vinstue í hádeginu. Við ákváðum að taka hlutverk okkar mjög alvarlega og hófum að drekka bjór á Hvíti eins og landar okkar hafa gert um aldir. Síðdegis sigldum við um síkin og innri höfnina, fórum á stakt safn en loks var stefnan sett á Tívolí. Þar borðuðum við á Ferjukránni og ákveðið að borða danskan mat. Viggó og Guðbrandur voru reyndar afar óheppnir í vali sínu og fengu líklega versta mat í lífi sínu á veitingastað. En þetta var auðvitað frekar fyndið. Það er ekki hægt annað en að hlæja að þegar menn kaupa sér súpukjöt og mauksoðnar kartöflur af fúsum og frjálsum vilja á fínum veitingastað í útlöndum. En við Eggert Þór vorkenndum þeim líka. Við fengum betri mat!

Eftir að hafa unnið tvo bangsa og fleiri skemmtilega vinninga handa Sigurveigu í ýmsum leikjum og þrautum var komið að því að fylgjast með kosningum. Þegar klukkan nálgaðist miðnætti drifum við okkur í Jónshús sem var pakkað af fólki. Við komum í tæka tíð fyrir fyrstu tölur. Þær voru ekki uppörvandi. Strax eftir fyrstu tölur mátti ljóst vera að stjórnin héldi velli. Þrjár einmana sálir fögnuðu sigri en meirihluti gesta var vonsvikinn. Sjálfur gladdist ég yfir 31% Samfylkingar en skildi hvorki upp né niður í góðu gengi Framsóknar. Fylgi VG og Frjálslyndra kom ekki á óvart en hinir síðarnefndu hefðu mátt fá miklu minna fylgi. Það var þó huggun harmi gegn að Sjálfstæðisflokkurinn beið afhroð í kosningunum, ekki síst Davíð í sínu kjördæmi. En þjóðin hefur talað. Hún verður að eiga það við sig.

Kosningaúrslitin spilltu þó ekki gleðinni hjá manni og við drengirnir hurfum af vettvangi og áleiðis niður í bæinn. Þar tók við lokahnykkurinn á gleði okkar. Heimsóknin hafði heppnast einstaklega vel og við hér á Voldumvej þökkum kærlega fyrir okkur.

Það er hins vegar skammt stórra högga á milli. Drengirnir kvöddu allir í hádeginu á sunnudaginn og um kvöldið höfðum við þegar fengið nýja heimsókn. Foreldrar mínir eru komnir hingað frá Ítalíu og ætla vera hér nokkra daga. Eitt og annað skemmtilegt er á döfinni hjá okkur, við ætlum til að mynda að fara í skemmtigarðinn Lalandia á Lollandi um næstu helgi. Meira um það síðar!

posted by Thormundur | 00:07
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn