laugardagur, maí 24, 2003
::: Eurovision-partý! Við erum að undirbúa Eurovision-partý fyrir kvöldið. Það væri kannski nær lagi að kalla þetta Eurovision-matarboð, við erum svo gömul! Við fáum nágranna okkar í heimsókn, Lars og Ninet, en þau eru foreldrar Clöru, bestu vinkonu Sigurveigar hér úti.
Við göngum bara út frá því að þau haldi með Íslandi enda Danir ekki með. Urðu í neðsta sæti í fyrra. Við ætlum að borða mexíkanskan mat á undan, við gátum ekki gert upp á milli evrópskra matarhefða á þessu Evrópukvöldi. :-)
Við vonum það besta með kvöldið. Er ekki annað sætið besta sætið? Efsta sætið án þess að vinna keppnina. Go Birgitta!
posted by Thormundur |
18:54
miðvikudagur, maí 21, 2003
::: Safarí-leiðangur Ferðasaga helgarinnar væri ekki fullkomin nema að við segðum frá heimsókn okkar í Knuthenborgar-dýragarðinn, sem líka er á Lollandi ekki langt frá Lalandia. Dýragarðurinn er sérstakur fyrir þær sakir að þar er hægt að keyra í gegn í bíl og fylgjast með fjölmörgum dýrategundum í náttúrulegu umhverfi sínu. Sums staðar má yfirgefa bílinn og njóta samverur með hestum, kúm, lamadýrum og kameldýrum svo dæmi séu tekin. Áhugaverðastur er hins vegar safarí-hluti garðsins en þar eru gíraffar og sebrahestar, nashyrningar og jakuxar, emúar og vatnabuffalar. Á þessu svæði má hins vegar ekki yfirgefa bílinn. Sérstakt svæði er loks tileinkað Síberíutígrum og bavíönum.
Í safarí-hlutanum var einna skemmtilegast að fylgjast með gíröffum, sebrahestum og emúum. Þessi dýr voru mjög forvitin og voru oftar en ekki nærri komin inn í bílinn. Einn sebrahestur stakk hausnum inn til okkar og vildi þefa af okkur, jafnvel sleikja. Gíraffarnir lögðu leið sína á götuna og tepptu umferðina. Þeir höfðu sérstakan áhuga á einum bíl sem keyrði á undan okkar, sem var með þakið niðri. Gíraffarnir stungu hausum sínum niður í bílinn og þefuðu af farþegum! Emúarnir voru enn aggressívari og einn þeirra goggaði fast í bílinn okkar, svona eins og til að kanna hvort hann væri ætilegur. Hann hefði örugglega goggað í hausinn á okkur hefðum við ekki verið nógu snögg að skrúfa upp rúður og aka af stað. Þegar emúinn goggaði bílinn var Sóley einmitt að spjalla við Hjalta í símanum og hún sagði honum að einn emúinn vildi éta okkur. Fiskisagan flaug hratt og skömmu síðar fengum við SMS frá Íslandi þar sem við vorum spurð hvort búið væri að borða okkur. Við gátum hins vegar staðfest að við værum heil á húfi. :-)
Allra "hættulegasta" leiðin var um landsvæði Síberíutígra. Þeir búa innan rammgerðra girðinga en þangað inn er bílum hleypt inn í hollum. Gestum er alfarið bannað að yfirgefa bíla sína og skrúfa niður rúður. Hættan var svo sem lítil akkúrat meðan við keyrðum í gegn, því tígrisdýrin lágu flest afvelta eða röltu letilega um svæðið. En allur er varinn góður. Loks er apasvæðið spennandi. Þangað er hægt að fara inn í sérstökum vögnum sem aparnir ráðast á um leið og keyrt er inn á svæði þeirra. Ástæðan? Jú, gestir fá tækifæri til að gefa öpunum sérstakt "apanammi", eins og Sigurveig kallaði það, í gegnum sérstakar rennur. Aparnir með rauðu rassana eru mjög sólgnir í þetta, ráðast á bílana og háma í sig apanammið úr rennunum.
Við mælum hiklaust með þessum dýragarði enda líklega ódýrasta leiðin til að fara í "ekta" safarí-leiðangur.
posted by Thormundur |
19:00
þriðjudagur, maí 20, 2003
::: Vatnaveröld á Lollandi Foreldrar mínir hafa nú verið hjá okkur í rúma viku. Hið óvenjulega er að við höfum varið tiltölulega litlum tíma í miðbæ Kaupmannahafnar heldur meira verið á ferðinni um Sjáland og eyjarnar Lolland og Falstur suður af Sjálandi.
Við tókum nefnilega bíl á leigu og höfum nýtt hann vel. Í miðri síðustu viku skruppum við meðal annars til Helsingjaeyrar, nyrst á Sjálandi, þar sem styst er yfir til Svíþjóðar. Bærinn er afskaplega skemmtilegur, ekki síst gamli miðbærinn þar sem eru margar spennandi göngugötur. Við keyrðum Strandvejen á leiðinni þangað en þar eru hýbýli ríka fólksins í Danmörku, þeirra á meðal Michael Laudrups. Við komum við í safni Karenar Blixen í herragarði hennar Rungstedlund, sem stendur við ströndina. Safnið er lítið og vinalegt og afskaplega smekklega sett upp. Óhætt er að mæla með heimsókn þangað.
Á föstudaginn var síðan komið að ferð okkar í skemmtigarðinn Lalandia á Lollandi en þar dvöldumst við tvær nætur í fínum sumarbústað. Garðurinn er mikið sumarbústaðahverfi. Í tengslum við hverfið hafa gestir aðgang að glæsilegri vatnaveröld með nokkrum sundlaugum en einnig eru þarna íþróttahús, keilubrautir, veitingastaðir og endalaust úrval af leiktækjum fyrir börn. Loks er Lalandia alveg við baðströndina gegnt Þýskalandi en hitinn var ekki orðinn nógu hár fyrir strandferðir. Lolland og aðrar eyjur sunnan við Sjáland eru reyndar veðursælustu staðir Danmerkur og eru í daglegu tali nefndar suðurhafseyjarnar.
Við fórum nokkrar ferðir í sundlaugarnar þar sem Sigurveig buslaði og lék sér. Barnalaugarnar eru heitar en aðrar ekki eins heitar, þannig að við vorum oftar en ekki líka í barnalauginni! Svo uppgötvaði Sigurveig rennibrautirnar í miðri sundlaugarhvelfingunni og fór margar ferðir, fyrst með okkur en hafði svo enga þörf fyrir okkur lengur. Fjölskyldan fór síðan einu sinni í keilu og það var í fyrsta sinn sem Sigurveig og mamma reyndu sig við þá íþrótt. Allir stóðu sig vel, en enginn eins vel og Sóley sem komst framúr eiginmanni sínum á endasprettinum með þremur fellum í röð í lokin við dræmar undirtektir hans. :-) Sigurveig sýndi fína takta þrátt fyrir ungan aldur en við notuðum auðvitað batta á brautinni til að Sigurveig missti ekki of margar kúlur í rennurnar. Að öðru leyti var tíminn nýttur á veröndinni í sólinni eða við spilamennsku um kvöldið.
Við komum heim á sunnudaginn og tókum þá á móti nýjum gesti. Hjalti, mágur og svili, var þá kominn frá Bjerringbro þaðan sem hann var kominn úr fermingu Karlottu dóttur sinnar. Hann var hjá okkur í mat og gisti en flaug síðan aftur heim til Íslands í gærmorgun. Hjalti fyllti á íslensku nammibirgðirnar meðal annars með Nóa-kroppi og Sambó-lakkrís. Sóley hafði nefnilega sármóðgast yfir því að ég hafði klárað Nóa-kropp sem vinir mínir höfðu fært okkur helgina áður. Því var sem sagt kippt í liðinn og Sóley fékk sitt kropp.
Við þurftum svo að skila bílnum í gær. Það var ekki gaman. Þetta var hinn þægilegasti bíll og það var alls ekki gott að venja sig við bíl í eina viku eftir heilan vetur án bíls. Það er reyndar afskaplega erfitt að keyra í miðbænum, ekki síst vegna fjölda hjólreiðarfólks. En við lifum þetta af. Sóley er nýbúin að fá nýtt hjól og ég notast við það gamla um stundarsakir.
Við ætlum annars að drífa okkur í Tívolí á eftir. Pabbi og mamma fara heim á morgun og því síðustu forvöð að komast þangað með Sigurveigu. Við biðjum að heilsa heim. Nú styttist í okkur. Við erum byrjuð að telja niður.
posted by Thormundur |
14:35
|