::: Voldumvej 80

laugardagur, maí 31, 2003  

::: Karfan minni en mér sýndist!
Ég verð að koma að smá leiðréttingu. Ég var að sjá endursýningu úr úrslitaleiknum á HM í kafsundknattleiknum í íþróttafréttum. Karfan er sennilega bara hálfur metri í þvermál. Þetta er auðvitað lykilatriði. Annars kærðu Norðmenn úrslitin, töldu sig hafa jafnað leikinn og þess vegna var mikið endursýnt úr leiknum. En kæruna var hafnað. Svíar eru heimsmeistarar og Þjóðverjar í kvennaflokki. Líður ykkur ekki betur við að vita þetta allt saman?

Ég var líka að komast að því að þessi íþrótt er stunduð hér í Rødovre og er lið bæjarins meðal þeirra fjögurra bestu í landinu. Náði silfri á danska meistaramótinu árið 2000! Það er spurning hvort maður ætti að byrja að æfa. Eftir nokkur ár hér myndi maður auðvitað stofna kafsundknattleiksdeild KR!

posted by Thormundur | 18:29
 

::: HM í kafsundknattleik
Fyrr í dag varð ég vitni að úrslitaleik heimsmeistaramóts í einhverri afkáralegustu íþrótt sem ég hef kynnst í gegnum tíðina. Ég veit ekki hvort greinin hefur opinbert íslenskt nafn en ég kýs að kalla þetta bara kafsundknattleik. Upp á dönsku heitir þetta víst undervandsrugby, eða UV-rugby, sem er skrýtið nafn því íþróttin á lítið skylt með rugby á þurru landi. Það voru landslið Svíþjóðar og Noregs sem mættust í beinni útsendingu á einni stöðinni hér. Mér skilst að Danir hafi einnig verið með.

Keppt er í djúpri sundlaug og eru tvær körfur í hvorum enda á botni laugarinnar. Sex leikmenn eru í hvoru liði, einn markvörður, tveir varnarmenn og þrír sóknarmenn. Auk sundskýlu og sundgleraugna bera leikmenn sérstakar froskalappir til að auðvelda kafsundið. Markmið leiksins er að kafa og koma knettinum ofan í körfu andstæðinga. Menn geta reynt að ímynda sér þetta að blanda saman eiginleikum úr sundknattleik og körfuknattleik. Greinin reynir mjög á leikmenn. Sendingar eru vandasamar þótt boltinn hafi eiginleika sem koma í veg fyrir að hann þrýstist þegar upp á yfirborðið. Leyfilegt er að ýta við andstæðingum og hrinda og þar eru líklega helstu líkindin með rugby-íþróttinni. Leikmenn geta loks ekki verið lengi í senn í leiknum vegna kafsundsins og því er ört skipt um leikmenn.

Mér tókst nú ekki að læra allar reglur meðan ég sá síðustu fimm mínútur leiksins. Furðulegast þótti mér þó að körfuvörðurinn mátti liggja flatur ofan á körfunni og varna þannig sóknarleikmönnum leiðina ofan í hana. Leiddi það til mikilla átaka þar sem sóknarleikmenn reyndu að ýta körfuverðinum ofan af körfunni. Tekið skal fram að þvermál körfunnar er um einn metri. Dómarar leiksins báru sérstaka súrefniskúta því þeir voru mun lengur í kafi en leikmenn. Fyrir þá sem vilja kynna sér þetta íþrótt er bent á þessa síðu.

Ekki veit ég hvað mönnum gekk til þegar þessi íþrótt var þróuð og óhætt er að fullyrða að greinin verður seint vinsæl. Að mörgu leyti er þessi grein hreint og beint kjánaleg en hvað gera menn ekki til að verða heimsmeistarar. Menn búa auðvitað til eigin íþróttagrein. Ég get ekki skilið við þessa umfjöllun án þess að upplýsa lesendur hverjir hafi hampað heimsmeistaratitlinum. Svíar unnu Norðmenn með 2 mörkum gegn 1 og eru verðugir heimsmeistarar í kafsundknattleik!

posted by Thormundur | 16:40

fimmtudagur, maí 29, 2003  

::: Sama blíðan
Það er alltaf sama blíðan hér og mér skilst líka að það sé sama blíðan á Íslandi. Við eigum von á góðum gesti í kvöldmat og næturgistingu. Það er Sigurjón Páls sem er á leið heim til Íslands úr vinnunni í Hammerfest nyrst í Noregi. Hann fær auðvitað að njóta svalanna sem svo mjög hafa verið auglýstar hér á síðunni :-)

Í gær fékk Sigurveig bréf frá skólanum sínum. Hún verður í C-bekk en börnunum er blandað í bekki eftir kúnstarinnar reglum. Hún mætir í skóladagheimilið þann 1. ágúst en fyrsti skóladagur er 7. ágúst!

Ég horfði annars á úrslitaleikinn í Meistaradeildinni í gærkvöldi. Þvílík leiðindi, ekki síst seinni hálfleikur og framlenging. Bæði liðin sýndu og sönnuðu að þau áttu lítið sem ekkert erindi í úrslitaleikinn. Ég hef ávallt borið virðingu fyrir ítalskri knattspyrnu og jafnan haldið með ítalska landsliðinu. Það er hins vegar ekki hægt að hrópa húrra fyrir ítölsku félagsliðum um þessar mundir. Hinn sanni úrslitaleikur var viðureign United og Real. Gallinn við þessa kenningu er þó að hvorugt liðið vann keppnina. :-)

posted by Thormundur | 15:11

sunnudagur, maí 25, 2003  

::: 30+
Smá update. Besta veður sumarsins staðreynd. Vel yfir þrjátíu gráður á yndislegu svölunum okkar - eða því sem næst. Maður svitnar eins og á sólarströnd. Allir í stuttbuxum auðvitað. :-)

posted by Thormundur | 15:30
 

::: Gott kvöld
Við áttum mjög gott kvöld í gær og nutum matar og tónlistar í góðum félagsskap. Meðan tónlistin hljómaði í sjónvarpinu buldi rigningin á þakinu og þrumur og eldingar léku undir. Sannarlega rafmögnuð stemming.

Annars olli margt í keppninni vonbrigðum. Tyrkneska lagið var langt frá því að vera gott, það versnar eiginlega við hverja hlustun. Sá það í þriðja sinn áðan í fréttunum. Rússnesku stelpurnar skandalíseruðu með því að skandalísera ekki. Og það var fleira. Þjóðverjar sungu á ensku! Og Pólverjar á þýsku! Austurríski gaurinn var heldur ekkert fyndinn, átti þó góða takta í þungarokkinu. Og vonbrigðin voru fleiri. Írar buðu upp á endurunnið danskt sigurlag Olsen-bræðra - við gátum meira að segja sungið með "Smuk som en stjerneskud ..." í aðalviðlaginu. Auðvitað eru fæst lögin frumleg. En það reglulega pínlegt að endurvinna nýlegt sigurlag úr keppninni.

En þrátt fyrir þetta finnst manni alltaf jafngaman að horfa á þetta. Enda frábært tilefni til að halda matarboð og fá sér nammi, snakk og gos.

Annars er sól og 25 stiga hiti úti núna! Það er ekkert að því. :-)

posted by Thormundur | 12:59
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn