::: Voldumvej 80

miðvikudagur, júní 18, 2003  

::: 0. C
Við erum nýkomin af kynningarfundi í skólanum hennar Sigurveigar, Rødovre Skole. Okkur leist afar vel á. Sigurveig verður í bekk sem heitir því fallega nafni 0. C! Það skýrist af því að skólaskylda hefst ekki fyrr en við sjö ára aldur og það er því sjö ára bekkur sem fær að heita 1. bekkur. Allrafyrsti bekkurinn nefnist reyndar líka børnehaveklasse.

Það verður fámennt en góðmennt í 0. C. Alls verður 21 barn í bekknum, 11 stelpur og 10 strákar. Aðalkennarinn heitir Bjarne og er hress náungi. Hann leggur mikla áherslu á að börnin læri að umgangast og virða hvert annað, lestur og skrift komi jafnóðum. Kennarinn er tónlistarmaður og segist grípa í gítarinn sinn á hverjum degi. Sóley fór einmitt í heimsókn í bekk til hans um daginn með tvö börn úr leikskólanum sínum í kynningu - og þá var Bjarne með gítarinn og börnin syngjandi. Ekki amalegt.

Bekkurinn hennar Sigurveigar verður með stofu í álmu sem nýlega hefur verið tekin alveg í gegn - stofurnar eru sem nýjar og aðstaðan glæsileg. Við komumst líka að því að þrjár stelpur úr leikskólanum hennar verða með Sigurveigu í bekk. 0. C verður því án efa hinn hressasti bekkur. Við foreldrarnir erum spennt eftir þessa heimsókn og Sigurveig - sem skildi ekki alveg hvers vegna hún mátti ekki fara með - verður án efa ánægð í nýja skólanum sínum. Og þetta byrjar allt saman 7. ágúst.

Annars er allt gott að frétta. Eftir Tívolíbombuna um helgina með Ara Halldóri hefur verið hjólað, spilað, farið í bæinn og í keilu. Ari hjólar auðvitað út um allt - ekki síst hringinn í kringum engið. Reyndar sprakk afturdekkið á sunnudag þegar þau Sóley voru á leið í bæinn. Við létum gera við það - en það var skammvinn sæla. Það sprakk aftur á sama dekki í dag! Viðgerð á morgun. Síðast en ekki síst höfum við Ari háð mikla baráttu í tölvuleikjum á netinu. Við bætum stigametin til skiptis og spennan er mikil. Tilkynning um það hvor okkar á metið á sunnudag þegar Ari fer verður kannski birt hér á blogginu.

posted by Thormundur | 21:44
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn