::: Voldumvej 80

föstudagur, júní 27, 2003  

::: Leikskólagöngu lokið!
Sigurveig fer ekki framar í leikskóla. Síðasti dagurinn hennar á Egegården var í dag. Af því tilefni hélt hún veislu með súkkulaðiköku og sleikjó. Ekki amalegt. Það er ekki hægt að segja annað en að Sigurveig hafi verið heppin með leikskóla. Tíminn á Furuhlíð og Reynihlíð á Hamraborg var frábær og danski leikskólinn reyndist henni mjög vel. Fólkið sem hefur annast hann þennan tíma hefur verið einstakt. Það er ekkert hægt að orða það öðruvísi. Kærar þakkir - ef einhver skyldi vera að lesa.

Við héldum síðbúið afmælisboð fyrir Sóleyju í kvöld. Hún átti auðvitað afmæli á mánudaginn var. Við buðum fullt af fólki en fengum fjóra í heimsókn. Fámennt en góðmennt. Röð tilviljana varð til þess að hinir og þessir komust ekki. Skyndileg ferðalög, vinna og flutningar héldu nokkrum gestum frá glæsilegum veitingum sem Sóley reiddi fram. Það þýðir bara að það var meira handa hverjum og einum!

Tónleikum Iron Maiden á Hróarskeldu var að ljúka. 75 þúsund manns að horfa - þar af nokkur hundruð Íslendingar. Ég hitti söngvara hljómsveitarinnar í dag og tók í höndina á þessum prúða manni - og flugmanni. Það var mjög fróðleg reynsla.

posted by Thormundur | 23:47

fimmtudagur, júní 26, 2003  

::: Fyrsta skólataskan keypt
Við keyptum skólatösku handa Sigurveigu í dag - á næstsíðasta degi hennar í leikskóla. Nú er bara einn dagur eftir, svo tekur við sumarfrí og loks hefst skólagangan.

Fyrsta skólataskan hennar Sigurveigar er ein með öllu frá Lego, sérstaklega hönnuð fyrir hennar aldur. Í töskunni eru fullt af hólfum fyrir eitt og annað, þ.á m. nestisboxið og vatnsbrúsa. Og viti menn. Hólfið fyrir nestisboxið er álfóðrað til að halda réttum hita á nestinu. Magnað. Þá fylgir sérstök leikfimitaska sem taka má af og síðast en ekki síst er pennaveski í stíl. Við drifum okkur að kaupa í dag því þessa dagana eru útsölur í Danmörku og nýja Lego-línan var á sérstöku kynningarverði. Sigurveig hafði séð töskuna áður og hafði heillast. Sigurveig er auðvitað alsæl með töskuna og sýnir hana öllum sem skoða vilja.

Nú er bara vika í að við Sigurveig fljúgum heim. Það þýðir að það eru tvær vikur í Sóleyju. Við getum ekki beðið.

posted by Thormundur | 23:28
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn