::: Voldumvej 80

laugardagur, júlí 05, 2003  

::: Ísland - best í heimi
Við Sigurveig erum komin heim og njótum lífsins. Við höfum fengið hlýjar móttökur, gott að borða og hitt fjölskyldu og vini (eigum þó enn langt í land að hitta alla). Meðan við erum hér heima verðum við með bækistöðvar okkar á Holtsgötu - í íbúð Oddnýjar ömmu minnar heitinnar. Það mun sannarlega fara vel um okkur þar. Sigurveig er reyndar búin að gista bæði í Hofslundinum og á Bræðraborgarstígnum og því hef ég séð minnst af henni. Nú bíðum við bara eftir Sóleyju sem kemur á fimmtudaginn.

Áður en maður kom var það svolítið sérstök tilfinning að vera á leiðinni heim í sumarleyfi eftir tæpt ár í útlöndum. Eftir komuna fannst mér hins vegar eins ég hefði aldrei farið - fannst ég vera kominn heim. Það hefur svo sem aldrei staðið annað til en að flytja aftur heim eftir dvöl okkar ytra. En hafi þess þurft - hefur maður bara styrkst í þeirri trú sinni. Við ætlum að njóta tímans í Danmörku en hlökkum til að koma alkomin heim.

Það er ekki hægt að segja að margt hafi breyst hér heima. Það er búið að byggja stöku ný hús og hótel (tók sérstaklega eftir því) og breikka einhverjar götur og brýr. Ég gekk um miðbæinn í gærkvöldi og þar var allt við það sama. Þó hefur einhverjum veitingastöðum verið lokað, nöfnum annarra verið breytt og einhverjir nýir bæst við í flóruna. Svo er líka "ánægjulegt" að endurnýja kynnin við alla jeppana í umferðinni. Ég hef satt að segja aldrei skilið þá áráttu manna að eignast stóran jeppa til að komast innan úr Grafarvogi eða Garðabæ niður í miðbæ. Allt síðasta ár rakst ég einungis á einn Landcruiser í Kaupmannahöfn.

En eitt verð ég að játa. Vera mín í Danmörku hefur breytt einu hjá mér. Mér finnst hreinlega ekki lengur eins spennandi að fá mér eina pylsu á Bæjarins bestu - til þess eru danskar pylsur of góðar. Ég fékk mér eina Bæjarins fyrr í dag og mér fannst hún reyndar góð. En hún stóð hins vegar ekki undir væntingum :-) Þetta var ekki sama upplifunin og í gamla daga þegar maður, nýkominn frá útlöndum, hljóp rakleiðis niður í bæ gagngert til þess að fá eina með tómat og steiktum - og kók með. Dönsku pylsurnar hafa ruglað mig í ríminu.

Að gefnu tilefni skal tekið fram að íslenskt kók er enn best í heimi. Og að sama skapi er Ísland enn best í heimi!

PS: Sóley hefur sannarlega staðið í ströngu í dag. Hún gerði sér lítið fyrir og hjólaði 172 kílómetra - ég endurtek 172 kílómetra - í maraþonhjólreiðakeppni fyrir almenning sem ber nafnið Sjælland Rundt. Ég ætla að leyfa henni sjálfri að blogga um þetta við tækifæri - sennilega þegar hún er búin að hvíla sig. En það er ekki hægt annað en að vera stoltur af henni!

posted by Thormundur | 22:17

miðvikudagur, júlí 02, 2003  

::: Pakkað - nýjar myndir
Jæja. Nú er verið að pakka á fullu. Sigurveig sér um sína tösku og vill helst enga aðstoð. Við tökum sjálfsagt alltof mikið með en þetta eru þó fjórar vikur. Ég byrjaði á að leyfa Sigurveigu að velja föt úr skúffunum sínum og þá kemur í ljós hvað er í uppáhaldi. En reyndar vildi hún bara helst taka allt. Sem betur fer hefur hún ekki lagt fram neinar óskir um að taka allt dótið sitt með - við tökum bara valdar Barbie-dúkkur, eitt spil og nokkrar litabækur og bækur fyrir svefninn.

Við komum sem sagt á morgun. Sigurveig átti erfitt með að sofna í gærkvöldi og maður getur bara reynt að ímynda sér hvernig það verður í kvöld. Verst er auðvitað að Sóley kemur eftir viku - en það er allt út af vinnunni. Hún fær svo fáa daga í sumarfrí á launum. Ástæðan er að orlofsárið hér er almanaksárið og því gildir bara tímabilið sept-des. Það hefði alveg farið með tekjur okkar hefði hún verið allan mánuðinn burtu.

Ég vil vekja athygli á því að komnar eru nýjar myndir á myndavefinn. Þetta er myndir af Sigurveigu tannlausri, diskóteki á leikskólanum og frá heimsókn Ara Halldórs til okkar um daginn. Verði ykkur að góðu. Næstu myndir koma í ágúst!

posted by Thormundur | 20:35
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn