::: Voldumvej 80

laugardagur, ágúst 09, 2003  

::: Skovtur í Rósenborgargarði
Við erum nýkomin úr lautarferð í Rósinborgargarðinum með Bjössa og Þóru. Við tókum okkur til og fórum með brauð og álegg, drykki og snakk, glös og hnífapör - og borðuðum í garðinum að hætti Dana. Garðurinn skartar sínu fegursta í þessu einstaka veðri sem er hér upp á hvern dag. Við komum okkur fyrir, smurðum okkur mat og supum á öl og gosi. Algjör snilld. Við Bjössi skoruðum svo á tvo heimamenn í fótbolta á malbikuðum velli sem er í garðinum. Skemmst er frá því að segja að við sýndum snilldartakta og rúlluðum andstæðingum okkar upp í tveimur leikjum, þeim fyrri 5-0 og þeim síðari 5-3. Eftir sigrana töldum við ljóst að 14-2 ófaranna hefði verið hefnt.

Eftir sannkallað svitabað í boltanum héldum við stoltir með stelpunum heim á leið - en löbbuðum auðvitað í gegnum miðbæinn í leiðinni og virtum fyrir okkur fjölskrúðugt mannlífið. Götulistamenn voru áberandi, ekki síst listamenn með málverk og teikningar. Bjössi og Þóra höfðu hrifist mjög af einni myndinni - og svo fór að lokum að Bjössi fékk hana í afmælisgjöf frá okkur, enda nýorðinn hálffimmtugur.

Í gær buðum við Ingu Steinunni og litlu Söndru Sól í mat og voru þær hjá okkur lengi. Reyndar var Hjölla líka boðið en hann var að kveðja vin sinn sem var á leið til Íslands. Það var gaman að fá mæðgurnar í heimsókn og síðar um kvöldið litu Bjössi og Þóra við hjá okkur.

posted by Thormundur | 23:48

fimmtudagur, ágúst 07, 2003  

::: Sigurveig byrjuð í skóla!
Það er sannkallaður merkisdagur í dag. Fyrsti skóladagur Sigurveigar. Eftir smá upphitun á skóladagheimilinu síðustu daga hófst regluleg kennsla í dag. Foreldrum var boðið með og dagurinn byrjaði á sal með skólastjóra og öllum kennurum. Síðan fóru börnin í sínar stofur meðan foreldrum var boðið í kaffi. Eins og fram hefur komið, verður Sigurveig í børnehaveklasse C eða 0.C eins og hann er líka kallaður. Það er 19 krakkar í bekknum og fimm starfsmenn! Umsjónarkennarinn er mjög söngelskur og heitir Bjarne en honum til aðstoðar verða tveir aðstoðarkennarar (sem sinna líka annarri kennslu) og tveir leikskólakennarar, sem sjá um börnin úr C-bekknum á skóladagheimilinu eftir hádegi.

Skóladagurinn var reyndar stuttur í dag enda engin ástæða að byrja of hratt. En þau lærðu samt ýmislegt fyrsta daginn. Þau lærðu til dæmis söng um ljón í Afríku - sem þau sungu svo fyrir okkur foreldrana. Þá var líka farið yfir tvo bókstafi til að kanna hvað krakkarnir kynnu. Og stafirnir voru ekki valdir af handahófi. Þetta voru stafirnir I og S. Allir kunnu þá stafi að því er virtist og fyrir hvað þeir standa séu þeir settir saman. Enda fengu krakkarnir ís að launum. Ekki amaleg byrjun á skólagöngunni. Vonandi halda börnin ekki að gefinn verði ís á hverjum skóladegi!

Ekki verður annað séð en að Sigurveig kunni vel við sig í skólanum og á skóladagheimilinu. Hún hefur verið mjög spennt yfir því að byrja en spurði okkur þó að því um daginn hvers vegna hún byrjaði í skóla bara fimm ára gömul! Við höfum nefnilega stundum talað um fyrsta skólaárið sem sex ára bekk - að íslenskri vísu. Hún er sérstaklega stolt af skólatöskunni sinni, bleikri Lego tösku með fiðrildaskreytingu, og hefur beðið lengi eftir að fá að nota hana. Við keyptum hana nefnilega strax í júní!

Við höfum sett glóðvolgar myndir frá fyrsta skóladeginum á myndasíðu fjölskyldunnar. Njótið vel.

posted by Thormundur | 18:58

sunnudagur, ágúst 03, 2003  

::: Sigurveig í bústað
Sigurveig fór í sumarbústað í gær með vinkonu sinni Clöru og verður til morguns. Þær hafa meðal annars farið á ströndina og eru örugglega mjög ánægðar að geta leikið sér saman að nýju. Við vorum að spjalla við hana í símanum áðan og hún var voða ánægð með ferðina í bústaðinn - og í sjóinn. Sigurveig hefur sannarlega verið eftirsótt eftir komuna hingað því allir krakkarnir á svæðinu vilja leika við hana, nýkomna úr fríinu. Margir hafa greinilega saknað hennar. Húner í óða önn að rifja upp dönskuna sína en nokkrum sinnum hafa slæðst inn nokkur orð, jafnvel setningar, á íslensku.

Á föstudag fór hún í heimsókn á skóladagheimilið, þar sem hún verður hluta úr degi eftir að skóladegi lýkur. Þar hittir hún suma af vinum sínum en þó fara ekki mjög margir úr leikskólanum hennar í Rødovre Skole. Sigurveig er ein fjögur hundruð barna úr bænum sem hefur skólagöngu sína á fimmtudag.

Við "gömlu hjónin" erum hálfeinmana en höfum reynt að nýta tímann til að slappa af meðan Sigurveig er í bústað. Fórum reyndar í miðbæinn í gær og virtumst vera komin úr gönguæfingu. Vorum allavega búin í fótunum eftir daginn. Sóley nýtti sér tækifærið meðan útsölurnar eru enn í gangi. Í kvöld ætlum við að fara í Tívolí tvö ein.

Hér er sama blíðan og verður næstu daga, sbr. þessa spá upp á glampandi sól og 25 stiga hita fimm daga í röð. Hver þarf að fara til Spánar þegar veðrið er svona í Kaupmannahöfn? Þóra og Bjössi munu njóta góðs af því þau eru á leið í frí til Kaupmannahafnar í næstu viku.

posted by Thormundur | 17:22
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn