::: Voldumvej 80

miðvikudagur, september 10, 2003  

::: Verðum að vinna
Niðurstaða kvöldsins - eftir sigur Þjóðverja á Skotum - er að við verðum að vinna Þjóðverja til að eiga möguleika á áframhaldandi þátttöku í EM - án þess að þurfa að treysta á önnur úrslit. Jafntefli dugar heldur ekki, ef Skotar vinna sinn lokaleik, því þá gilda innbyrðis viðureignir liðanna, okkur í óhag. En kannski munu Litháar draga okkur áleiðis til Portúgal? Nái þeir að vinna Skota eða gera jafntefli við þá er 2. sætið okkar - hið minnsta. Gætum þá mætt Spánverjum, Hollendingum, Englendingum eða jafnvel Dönum.

Það var góður skammtur af boltanum í sjónvarpinu í kvöld. Danir voru arfaslakir gegn Rúmenum og rétt mörðu jafntefli með marki þegar fimm mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. Engir fögnuðu meira en Norðmenn og það var mun skemmtilegra að fylgjast með útsendingu í norska sjónvarpinu en því danska. Danir voru svo fúlir yfir lélegum leik sinna manna að þeir fögnuðu varla jöfnunarmarkinu. Besta sjónvarpsefnið var þó upphitunin fyrir leikinn í Þýskalandi en þar var Ísland nefnt í öðru hverju orði. Rudi Völler virðist hafa unnið hylli almennings fyrir að hafa ausið úr skálum reiði sinnar yfir þýska fjölmiðla. Fórnarlömb reiðilesturs Völlers voru mun kurteisari í dag og reyndu greinilega að vera taktískir. Leikurinn var bara svona og svona en upphitun, hálfleiksanalýsa og viðtöl eftir leikinn voru hins vegar skemmtiefni. Talandi um skemmtiefni. Hér voru Danir rétt í þessu að birta valin brot af reiðilestri Völlers í einu fótboltamagasíninu. Þetta var náttúrulega hrein snilld hjá Völler. Fékk núna danskan texta með og gat skilið hvert orð.

Leikurinn í bikarnum heima var að klárast. Ekki þýðir að gráta úrslitin. Við erum Íslandsmeistarar!

posted by Thormundur | 23:54
 

::: Heitar umræður
Ég vil benda lesendum á að heitar umræður hafa spunnist í gestabókinni um gildi þess að blogga um fótbolta, fótboltagláp og fótboltalýsingar, svo nokkuð sé nefnt. Ég vísa á bug allri gagnrýni sem birst hefur og lofa því að hér á síðunni verður áfram skrifað um fótbolta í tíma og ótíma. Að sama skapi þakka ég mömmu fyrir gott innlegg. Ég tek skýrt fram að þetta var ekki pantað lögfræðilegt álit! Hún kann bara gott að meta. :-)

Með gagnrýni sinni óttast ég að gagnrýnendur hafi kallað yfir sig meira fótboltablogg. Ég tel mig vitanlega knúinn að sýna í verki að ég er trúr ritstjórnarstefnu minni. En mér finnst þó í ljósi aðstæðna rétt að vara viðkvæmar sálir við lestri Voldumvej-bloggsins í dag og á morgun - vegna aukinnar hættu á fótboltabloggi. Í kvöld verða nefnilega leiknir mjög mikilvægir leikir í undankeppni EM og kann vel að vera að ég þurfi að tjá mig um þá. Til dæmis munu Danir heyja mikla orrustu við Rúmena á Parken um tryggt sæti í Portúgal. Mega Danir vart mæla af eftirvæntingu og spennu. Annar spennandi leikur fer fram á Old Trafford þar sem Englendingar taka á móti Liechtenstein. Spennan í leiknum snýst þó ekki svo mjög um úrslit leiksins heldur um það hvort þrír lykilleikmenn kræki sér í gult spjald - og missi þar af leiðandi af hreinum úrslitaleik gegn Tyrkjum í október. Fátt hefur verið um meira rætt í Englandi síðustu daga en um gul spjöld og afleiðingar þeirra. Og ekki má gleyma viðureign Þjóðverja og Skota. Þar rambar stórþjóð á barmi taugaáfalls.

Staðreyndin er nefnilega sú að fótbolti hefur gífurleg áhrif á samfélag manna. Það er því óhjákvæmilegt að taka fótbolta á dagskrá. Og fótbolti verður sannarlega á dagskrá í sjónvarpinu í kvöld.

posted by Thormundur | 15:25
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn