::: Voldumvej 80

miðvikudagur, október 29, 2003  

::: Nýjustu tölur úr Rødovre Skole
Sigurveig fór í heimsókn til skólahjúkrunarfræðingsins í dag. Fékk ég að fara með til að fylgjast með vexti og viðgangi dótturinnar. Í stuttu máli er Sigurveig hraust, í meðallagi há og þung og með ágæta sjón og heyrn. Fyrir fróðleiksfúsa reyndist hún vera 22,2 kíló að þyngd og 118,5 sentimetra há. Hún á þá bara eftir um það bil hálfan metra í mömmu sína og örlítið meira í pabba sinn.

posted by Thormundur | 13:09

sunnudagur, október 26, 2003  

::: Vaknaði klukkutíma fyrr
Sigurveig vaknaði klukkan sjö í morgun! Klukkutíma fyrr en venjulega um helgar. En samt vaknaði hún á sama tíma og alltaf. Ástæðan. Jú, klukkunni var flýtt um einn klukkutíma í nótt. Það þýðir auðvitað að nú munar ekki nema einum tíma á Íslandi og Danmörku.

Sigurveig bauð afa Dóra formlega í afmælið sitt í gær og varð mjög glöð þegar hann "óvænt" sagði já takk. Þar með verður að minnsta kosti einn fulltrúi stórfjölskyldunnar í afmælisveislunni. Pabbi og mamma voru hérna í fyrra þegar Sigurveig varð fimm. Afmælisveislan verður nokkuð stærri núna því núna býður Sigurveig öllum stelpunum úr bekknum hennar. 10 stykki þar. Það var nefnilega ákveðið á foreldrafundi nýlega að það yrði að bjóða annað hvort öllum stelpum eða öllum strákunum - nú eða öllum bekknum ef út í það er farið. Þetta er sjálfsagt mál og eðlilegt en flestir ætla nú að byrja á að bjóða stelpunum eða strákunum.

Ekki þarf að taka fram að Sigurveig er á þeim aldri núna að vænta má erfiðra spurninga í ætt við "af hverju er himinninn blár?" Ég lenti sérstaklega í erfiðum málum fyrir viku þegar við horfðum saman á hina klassísku kvikmynd "Aftur til framtíðar" með Michael J. Fox. "Af hverju vill hann fara til gamla daga?" var ein af þeim augljósari. "Hvernig fer maður til fortíðar?" Málið varð hins vegar nokkuð snúnara þegar mynd númer tvö var í sjónvarpinu í gærkvöldi en þar fer Fox bæði til framtíðar og fortíðar. Sú mynd er reyndar miklu síðri en sú fyrsta og töluvert "ljótari" þegar ung börn eru annars vegar. Hún var þó ekki sofnuð þegar sögupersónurnar hitta sjálf sig í framtíðinni, þrjátíu árum eldri. Þetta kallaði á margar spurningar - sem sumar voru einfaldlega best læknaðar með að syngja spyrjandann í svefn!

posted by Thormundur | 13:28
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn