::: Voldumvej 80

laugardagur, nóvember 22, 2003  

::: Innkaupaleiðangur
Við létum loks verða af því. Fengum lánaðan bíl nágranna okkar og fórum í innkaupaleiðangur í stóru búðirnar, Ikea, Elgiganten, Toys 'R' Us og Føtex. Við slógum nokkrar flugur í einu höggi og nýttum bílinn vel. Í Ikea keyptum við dótakistu handa Sigurveigu, sem lengi hefur staðið til að kaupa í stíl við rúmið hennar. Eitt og annað smálegt og ódýrt fékk að fylgja með - svona til málamynda - en við vorum svo heppin að kistan var seld á hálfvirði.

Því næst héldum við í Elgiganten (Elko) og keyptum afmælisgjöf handa Sigurveigu. Jú, hún var með en okkur tókst að afvegaleiða hana með ýmsum hætti. Hver gjöfin er verður upplýst síðar. Næsti áfangastaður var Toys 'R' Us. Þar náðum við að kaupa minnst fjórar jólagjafir á einu bretti. Þar fengum við líka allt í afmælisveislu Sigurveigar - diska, glös, rör, servíettur og fleira. Í ár verður Braatz-dúkku þema. Loks enduðum við í Føtex til að gera helgarinnkaupin.

Þegar heim var komið varð handlagni heimilisfaðirinn að taka upp verkfæri sín því Sigurveig gat ekki beðið eftir dótakistunni góðu. Svo var dótinu raðað í kistuna eftir kúnstarinnar reglum. Sóley var þá farinn út að hitta Jónu og Sóleyju Grétars - og það endaði þannig að Sigurveig fór ekki að sofa fyrr en um ellefu. Fyrir utan smíðarnar kom í ljós að það er hlaupinn aukinn afmælisspenningur í stelpuna. Við mamma hennar viðurkenndum að við værum búin að kaupa gjöfina hennar og meðan hún var ekki að smíða eða raða í kistuna leitaði hún hátt og lágt í íbúðinni eftir gjöfinni. Hún fann að lokum tvo grunsamlega kassa í plastpökum en ég sagðist ekkert vita. Staðreyndin var að hún hafði fundið gjöfina og nú verð ég að finna nýjan felustað.

posted by Thormundur | 23:41

mánudagur, nóvember 17, 2003  

::: Frábær helgi!
Já það má með sanni segja að þetta hafi verið frábær helgi. Á föstudaginn fórum við Þórmundur út að borða með Völu og Jóa. Það var tekið vel á því í matnum enda smakkaðist hann frábærlega. Eftir stutta göngu í bænum fórum við á hótelið þeirra og spjölluðum fram eftir nóttu. Á meðan við skemmtum okkur saman passaði Sóley frænka Sigurveigu og skemmti sú stutta sér ekki síður en við. Takk Sóley frænka.

Á laugardaginn vorum við í rólegheitum hérna heima á Voldumvej. Við Sigurveig skruppum reyndar upp í Rødovre Centrum og keyptum nýja inniskó á skvísuna. Stærð 32 - hvaðan hefur hún erft þessa skóstærð? :-) Við borðuðum góðan kvöldmat og settumst svo í sófann og horfðum á Junior Melodi Grand Prix - Júróvisíjón fyrir börn. Sigurveig söng auðvitað hástöfum og dansaði með framlagi Dana en var þó einnig mjög hrifin af lagi Grikkja, fulltrúi þeirra var átta ára strákur og var hún ekki lengi að læra viðlagið utanaf - "Fili Yia Panda".

Sunnudagurinn var þéttskipaður. Ég þurfti að vinna í leikskólanum frá klukkan níu og mætti síðan í leik klukkan hálf eitt. Við Rødovre skvísur spiluðum við Ydun. Við yfirspiluðum andstæðingana í fyrri hálfleik og staðan var 12-6 í hálfleik. Ydun var ekki lengi að jafna leikinn 14-14 og var hann síðan afar spennandi eftir það. Við vorum tveimur mörkum yfir þegar tvær mínútur voru eftir en því miður jafnaði Ydun á síðustu sekúndunni. Ömurlegt!!! Ég kom bara inná í tveimur vítum en náði að halda markinu hreinu. Gaman en grautfúlt að fá ekki bæði stigin. Liðið mitt er að spila margfalt betur en í fyrra. Í raun frábært að gera jafntefli við Ydun sem er með mjög sterkt lið og setur markið á úrvalsdeild næsta tímabil. Vonandi höldum við áfram á sömu braut, næsti leikur á sunnudaginn á móti Freja. Go Rødovre!

Á sunnudagskvöldið komu Vala og Jói í mat til okkar. Frábært að fá þau í heimsókn. Við borðuðum góðan mat og höfðum það notalegt saman. Við getum blaðrað endalaust um allt og ekkert. Gaman að skiptast á sögum um þessi yndislegu börn okkar og hvað á daga okkar hefur drifið undanfarið. Sigurveig fékk forskot á afmælisgjafirnar þar sem þau færðu henni perlur og fleira til að búa til skartgripi. Það féll vægast sagt í kramið hjá henni. Sigurveig notaði síðan tækifærið og sýndi Völu að hún væri byrjuð að læra að lesa. Henni fannst líka svakalega fyndið að ein "aðalpersónan" í Við lesum 1 heitir einmitt Vala. Takk fyrir komuna Vala og Jói!

posted by Soley | 22:18
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn