::: Voldumvej 80

laugardagur, nóvember 29, 2003  

::: Afmælisveisla ársins!!!
Afmælisveisla ársins hófst klukkan tólf í dag. Bekkjarsystur Sigurveigar mættu tímanlega og var fljótlega allt komið í fullt fjör. Þær dönsuðu mikið og kom þar geislaspilarinn sem foreldrar hennar gáfu henni að góðum notum. Sigurveig opnaði gjafirnar og fékk mjög margt fallegt, m.a. Braatz dúkku, glimmertússa, límmiðabók og fleira.

Klukkan 13:45 gerðust ótrúlegir hlutir. Bjallan hringdi og allt í einu heyrði ég Þórmund hrópa á mig úr forstofunni. Ég gekk í rólegheitum fram og viti menn, Elísabet systir og mamma gengu inn um dyrnar. Ef ég hef einhvern tíma fengið móðursýkiskast var það í dag. Þær bara birtust án þess að við vissum. Þvílík gleði á bænum. Ég horfði á þær til skiptis í marga klukkutíma til að reyna átta mig á því hvort mig væri að dreyma eða hvort þetta gæti verið satt. Ótrúlegt að við sætum öll saman við eldhúsborðið hér á Voldumvej og ræddum heima og geima. Eftir afmælisveisluna drifum við okkur út að borða og var öllu aðhaldi sópað út í horn. Nú verður helgin tekin með trompi.

Á morgun keppum við Rødovre píur við Roar í Hróaskeldu og verður fjölskyldan sameinuð á áhorfendapöllunum - kominn tími til eftir langa pásu. Spurning hvort að pabbi hafi munað eftir dómaraskírteininu - verst hann gleymdi lukkuhattinum góða. Síðan gerum við innrás í Tívolíið annað kvöld. Sem sagt stanslaus gleði næstu sólarhringa. Oh, hvað er gaman að vera til!!! :-)

posted by Soley | 22:46

föstudagur, nóvember 28, 2003  

::: Nýjar myndir
Þá eru loksins komnar nýjar myndir á myndavef fjölskyldunnar. Þar eru glænýjar myndir frá afmælisdegi Sigurveigar og komu afa Dóra í gær. Aldrei er að vita nema fleiri myndir birtist næstu daga og vikur. Fylgist því vel með!

posted by Thormundur | 16:17

miðvikudagur, nóvember 26, 2003  

::: Hún á afmæli í dag!
Sigurveig á afmæli í dag. Hún er orðin sex ára gömul! Hún hefur hlakkað mikið til dagsins og í morgun vaknaði hún hress og kát einu ári eldri. Hún fékk vitanlega að taka upp pakkann frá mömmu og pabba áður en hún fór í skólann. Pakkarnir voru tveir. Hún byrjaði á þeim litla og var afskaplega glöð með innihaldið - því þar fékk hún geisladisk með lögunum úr Eurovision-keppni barnanna. Þar á hún nokkur uppáhaldslög. Seinni pakkinn var aðeins stærri og pappírinn fékk að fjúka hratt og örugglega. Gleðin var ekki síðri þegar hún uppgötvaði að hún hefði fengið tæki "til að spila diska" eins og hún orðaði það. Hún fékk sem sagt ferðageislaspilara - svona lítinn ghettoblaster. Tækinu var stungið í samband, diskurinn settur í og síðan dansað við nokkur lög. Eftir morgunmat að eigin vali lá svo leiðin í sex ára bekkinn í skólanum.

Vikan verður sannkölluð afmælisvika. Tilviljun ræður því að hún heldur í raun þrisvar upp á afmælið! Á laugardaginn verður haldin stór veisla með öllum stelpunum úr bekknum hennar. Strákarnir mega "auðvitað" ekki koma! Afi Dóri kemur svo á morgun og þá verður fagnað og sjálfsagt teknir upp einhverjir íslenskir pakkar. Í dag verður hins vegar haldin lítil veisla - svona á sjálfan afmælisdaginn - en í hana eru boðnar tvær bestu vinkonur hennar úr nágrenninu. Önnur þeirra hefði ekki komist á laugardaginn þannig að niðurstaðan varð ein lítil veisla, ein afaveisla og ein stór bekkjarveisla.

Myndavefurinn góði hefur fengið töluverða hvíld síðustu mánuði en nú stendur til að ráða bót á því. Ég get lofað því að við allra fyrsta tækifæri verða settar inn nýjar myndir - meðal annars af afmælisbarninu og gestum hennar næstu daga.

posted by Thormundur | 09:55

sunnudagur, nóvember 23, 2003  

::: Jólaundirbúningur hafinn
Hér á Voldumvej erum við farin að undirbúa jólin eins og Þórmundur minntist á í síðasta bloggi. Fyrstu smákökurnar voru bakaðar í dag - gyðingakökur nema hvað. En húsmóðirin tók mikilvæga ákvörðun, að baka ekki fleiri smákökur í ár. Ég sá fram á að borða þær allar sjálf og ekki gengur nú að ég vaxi upp úr nýju gallabuxunum mínum í mittisstærð 29 áður en ég kemst heim um jólin! Ó, sei sei nei. Þannig að pabbi verður að láta sér nægja eina sort í jólaheimsókninni í ár - en við bökum að sjálfsögðu alvöru kökur fyrir afmælið hennar Sigurveigar sem hann verður heiðursgestur í.

Í skólanum hjá Sigurveigu undirbúa þau jólin á margvíslegan hátt. Hver nemandi fékk m.a. útdeilt einum degi í desember þar sem þau eiga að koma með eitthvað óvænt í umslagi þann daginn. Sigurveig fékk 10. desember. Við vorum að velta því fyrir okkur hvað hún ætti að koma með. Okkur fannst nú sniðugt að hún tæki með bók sem segir frá íslensku jólasveinunum - myndir af þessum gömlu og misfríðu. Af því tilefni fórum við að rifja upp nöfnin á þessum ágætis körlum. Þegar komið var að Bjúgnakræki sem kemur á eftir Skyrgámi spurði ég Sigurveigu hvort hún myndi hvað hann heiti. Hún stóð nú ekki lengi á svarinu og svaraði hástöfum "Pylsugámur". Gott nafn ekki satt? :-)

Annars töpuðum við Rødovre píur í dag fyrir Freja. Frekar fúlt en við náðum okkur engan veginn á strik. Töpuðum með einu en vorum fjórum mörkum undir lengi vel. Ég byrjaði inná en spilaði bara 20 mín og hef oft spilað betur eins og allt liðið. Gerum bara betur næst.

Stóri dagurinn nálgast síðan óðum - Sigurveig verður sex ára á miðvikudaginn!

posted by Soley | 22:56
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn