::: Voldumvej 80

laugardagur, desember 06, 2003  

::: Bloggað í eitt ár!
Fjölskyldan Voldumvej 80 á eins árs bloggafmæli í dag. Fyrsta bloggfærslan var skrifuð 6. desember fyrir ári síðan og við erum enn að. Við þökkum lesendum kærlega fyrir góðar viðtökur en bloggið hefur ásamt spjalli á MSN-inu fært okkur nær fjölskyldu og vinum - og sömuleiðis lækkað símreikninga okkar töluvert. Við lofum því að halda ótrauð áfram skrifum á síðuna okkar.

Annars er allt gott að frétta héðan. Í gærkvöldi buðum við Sóleyju Grétars og Edu í mat og voru það fyrstu kynni okkar af hinum spænska kærasta Sóleyjar. Við komumst m.a. að því að Edu spilaði handbolta á sínum yngri árum. Sigurveig var stjarnfræðilega feimin að þessu sinni og fór ekki úr skel sinni fyrr en seint um kvöldið þegar svefngalsinn tók völdin.

Töluvert var fjallað um veðrið hér úti í gær og síðustu nótt í íslenskum fjölmiðlum. Við erum heil á húfi! Við fórum nú að mestu á mis við "óveðrið" en vindurinn barði húsið þó óvenjusterkt um það leyti sem við vorum að fara að sofa. Í okkar augum var þetta þó meira í ætt við íslenskan stinningskalda - eða eitthvað álíka.

posted by Thormundur | 17:27
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn