::: Voldumvej 80

laugardagur, desember 06, 2003  

::: Bloggað í eitt ár!
Fjölskyldan Voldumvej 80 á eins árs bloggafmæli í dag. Fyrsta bloggfærslan var skrifuð 6. desember fyrir ári síðan og við erum enn að. Við þökkum lesendum kærlega fyrir góðar viðtökur en bloggið hefur ásamt spjalli á MSN-inu fært okkur nær fjölskyldu og vinum - og sömuleiðis lækkað símreikninga okkar töluvert. Við lofum því að halda ótrauð áfram skrifum á síðuna okkar.

Annars er allt gott að frétta héðan. Í gærkvöldi buðum við Sóleyju Grétars og Edu í mat og voru það fyrstu kynni okkar af hinum spænska kærasta Sóleyjar. Við komumst m.a. að því að Edu spilaði handbolta á sínum yngri árum. Sigurveig var stjarnfræðilega feimin að þessu sinni og fór ekki úr skel sinni fyrr en seint um kvöldið þegar svefngalsinn tók völdin.

Töluvert var fjallað um veðrið hér úti í gær og síðustu nótt í íslenskum fjölmiðlum. Við erum heil á húfi! Við fórum nú að mestu á mis við "óveðrið" en vindurinn barði húsið þó óvenjusterkt um það leyti sem við vorum að fara að sofa. Í okkar augum var þetta þó meira í ætt við íslenskan stinningskalda - eða eitthvað álíka.

posted by Thormundur | 17:27

miðvikudagur, desember 03, 2003  

::: Fjölskyldufjör!
Þá erum við orðin þrjú á Voldumvej aftur eftir gestkvæma helgi. Þetta var algerlega frábær helgi - vantar sterkara lýsingarorð til að lýsa því. Ótrúlega gaman að fá svona óvænta heimsókn - og hafa fengið pabba líka. Það er varla hægt að hugsa sér neitt betra en að sitja við kertaljós, hlusta á jólalög og borða morgunmat með fjölskyldunni á fyrsta sunnudegi í aðventu. Við áttum yndislegan tíma saman og eru allir endurnærðir og ánægðir á eftir.

Á sunnudaginn tókum við sem sagt daginn snemma og kíktum í Rødovre Centrum. Alltaf gaman að fara í stelpuferð í búðir og afraksturinn var auðvitað nokkrir pokar. Fjölskyldan sameinaðist svo seinni partinn í Hróarskeldu en þar riðum við Rødovre píur ekki feitum hesti. Töpuðum 21-19 fyrir Roar. Ekki gott. En engu síður frábært að kíkja upp í stúku og sjá alla fjölskylduna. Eftir leikinn drifum við okkur í jóla-Tívolí. Ljósadýrðin er með ólíkindum og mikið af fallegu jólaskrauti. Við gengum um og skoðuðum allt saman, tókum eina ferð í elsta rússíbana Tívolísins, fengum okkur heitt kakó, brenndar möndlur, jólaglögg og eplaskífur. Enduðum svo frábæran dag á Jensens Bøfhus.

Mánudeginum var eitt í miðbæ Kaupmannahafnar. Mamma fylgdi pabba út á flugvöll og við Elísabet hittum hana svo á Ráðhústorginu klukkan tíu. Við örkuðum Strikið og fjölgaði pokunum óðfluga eftir því sem leið á daginn. Jólagjafir, jólaföt, jólaskraut, jóla, jóla, jóla. Allir sem sagt í hinu mesta jólaskapi. Við slöppuðum síðan vel af á mánudagskvöldið og gæddum okkar á Nóa konfekti og Appolo lakkrís - nammi namm.

Síðan fóru mamma og Elísabet heim í gærmorgun. Að þessu sinni var ekki svo erfitt að segja bless enda mætum við á klakann eftir 16 daga. Við erum komin í hið mesta og besta jólaskap, búin að punta hjá okkur og hlustum á hvern jóladiskinn á fætur öðrum. Erum öllsömul hin mestu jólabörn. Er mikið að velta því fyrir mér hvort ég ætti ekki að baka eins og eina sort í viðbót - má nú ekki valda henni Hrabbý vonbrigðum í húsmóðurstörfunum.

posted by Soley | 16:49
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn