::: Voldumvej 80

fimmtudagur, janúar 15, 2004  

::: Ljúft að vinna Dani
Það er alltaf ljúft að vinna Dani. Ísland yfirspilaði Dani á löngum köflum í handboltalandsleiknum í kvöld. Við horfðum á leikinn í óbeinni og strákarnir okkar stóðu sig mjög vel. Danir afsökuðu sig í bak og fyrir eftir leikinn og fyrir vikið varð sigurinn ljúfari. Þeir sögðust hafa verið svo þreyttir eftir erfiða æfingu í gær, úrslitin hafi ekki verið aðalatriðið og að markmiðið hafi fremur verið að gera tilraunir með eitt og annað í vörn og sókn. Allt klassískar afsakanir.

En það er eitt sem Danir öfunda okkur mikið af - það er Óli Stefáns. Þeir halda hreinlega ekki vatni yfir honum og hrósuðu honum í hvert sinn sem hann ýmist skoraði eitt af sínum níu mörkum eða gaf eina af sínum óteljandi stoðsendingum á línunni. Sannkallaður stórleikur hjá honum. Satt að segja lék allt íslenska landsliðið vel í leiknum en sérlega gaman að sjá að Snorri Steinn og Reynir voru mjög góðir og virðast geta leikið lykilhlutverk á EM eftir viku.

Meira um handbolta og EM síðar.

posted by Thormundur | 23:53

sunnudagur, janúar 11, 2004  

::: Kominn tími til!
Svo sannarlega kominn tími til að blogga. Nú er lífið búið að taka á sig hversdagslega mynd aftur eftir jólafríið heima á fróni. Sigurveig var alsæl að koma heim á miðvikudaginn og hafði varla tíma til að fara úr skónum þegar hún kom inn í íbúðina. Hún þurfti að drífa sig að kíkja á dótið sitt og ekki minna að knúsa mömmu sína eftir langan aðskilnað (3 daga!). Frábært að fá þau aftur í kotið.

Við Rødovre píur spiluðum á föstudaginn en töpuðum því miður fyrir Haderslev. Þetta verður nú að fara að ganga betur, kominn langur tími síðan við fengum síðustu stig. Ég læt svo sannarlega vita hér á síðunni þegar næstu stig verða í höfn!

Við höfum tekið því mjög rólega um helgina. Í gær fórum við þó að kaupa nýjan hjólahjálm fyrir Sigurveigu og fór hún þar með í fyrsta hjólareiðatúrinn á nýja hjólinu sínu sem hún fékk frá ömmu Sólveigu og afa Jónatan í jólagjöf. Hún stóð sig eins og hetja, á gírahjólinu sem er með engum fótbremsum. Henni fannst þetta mikið sport auðvitað og er alsæl með þetta allt saman!

Í dag höfum við verið heimavið enda rigning úti. Sigurveig og Þórmundur brugðu sér reyndar aðeins í hjólatúr nema hvað. Síðan bökuðum við dýrindis súkkulaðiköku og fengum nágranna í kaffi. Þannig vill svo til að það býr maður í íbúðinni við hliðina á okkur sem á þrjú börn. Signe heitir yngsta barnið og er hún í mínum leikskóla. 5 ára skvísa og finnst henni og Sigurveigu svaka gaman að leika saman. Fyrr en varði vorum við með fjóra krakka í fullu fjöri inni í herbergi, Sigurveig, Signe og tvo bræður hennar. Í kvöld horfðum við svo á nýjustu þáttarröðina á DR1 - Krønikken. Frábær sería sem u.þ.b. 70% Dana steinliggur yfir sunnudagskvöld það sem eftir er vetrar. Þetta er augljós arftaki Matador en þessi sería fjallar um samfélag og stéttaátök í Danmörku eftir seinna stríð - með tilheyrandi ástarflækjum auðvitað ;).

posted by Soley | 22:14
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn