sunnudagur, janúar 25, 2004
::: Gengur betur næst Ballið er búið hjá strákunum okkar. Við vorum svo nærri því að komast áfram en samt svo fjarri. Þrátt fyrir að við gerðum jafntefli í kvöld fannst manni möguleikinn aldrei mikill. Þetta var greinilega ekki okkar mót. Ef við horfum framhjá hugsanlegum mistökum þjálfara virðist sem liðið hafi aldrei komist í gang. Eftir á að hyggja var það óheppni að mæta heimamönnum í fyrsta leik og möguleikarnir runnu endanlega í sandinn á móti Ungverjum. Gengur betur næst.
Danir eru hins vegar í skýjunum. Þeir áttu stórleik í kvöld og unnu Spánverja þar sem vörn og markvarsla var í heimsmælikvarða. Danska pressan er nú aftur kominn í gírinn enda eiga Danir nú sæmilega mögulega á undanúrslitum. Aðalmarkmiðið (í bili) er þó sæti á Ólympíuleikum en eitt sæti er í boði. En í þeim efnum þurfa þeir að vera ofar en Svíar, Serbar og Ungverjar sem öll berjast um þetta eina sæti.
Nú þarf maður að finna sér einhvern til að halda með. Sóley heldur auðvitað með Dönunum. Ég hef það helst gegn Dönunum hvað þeir geta verið óþolandi ánægðir með sig þegar vel gengur. Það verður að segjast að þeir hafa verið mun hógværari en nokkru sinni áður - enda hafa þær lært af reynslunni, sérstaklega eftir síðasta HM þegar þeir voru nánast krýndir heimsmeitastarar fyrir mótið.
Næsta vika verður spennandi. Spennandi leikir nánast á hverju kvöldi.
posted by Thormundur |
23:55
::: Risaeðlur mætast Keppni á EM er í fullum gangi núna og úr fjölmörgum beinum útsendum að velja í sjónvarpinu. En því miður er íslenski leikurinn hvergi á dagskrá. Í þessum skrifuðu orðum er að hefjast leikur risaeðlanna á mótinu, Svía og Rússa. Sumir leikmenn hafa verið lengur í liðinu en elstu menn muna. Dönsku lýsendurnir kalla leikinn einmitt svar handboltans við Jurassic Park.
Danir voru hársbreidd frá að vinna heimsmeistara Króata í gær eftir hádramatískan leik. Þeir þurfa því að vinna Spánverja í kvöld til að taka tvö stig með sér í milliriðla og eiga séns á undanúrslitum í keppninni. Eins og lesendur vita væntanlega held ég ekki með Dönum í mótinu, frekar en endranær í karlaboltanum. En þegar valið stóð á milli Dana og Króata hélt maður með "samlöndum" sínum. Mér finnast Króatar einfaldlega vera með leiðinlegt lið og spila svolítið "dirty". Þeir hafa líka heppnina og dómara með sér - fengu til dæmis eitt stig af gjöf í leiknum á móti Spáni þegar dómararnir dæmdu kolólöglegt sigurmark þeirra á lokasekúndunni gilt.
Örlög okkar ráðast á eftir. Ef við vinnum komumst við áfram en það verður eiginlega bara til málamynda. Við fáum engin stig með í milliriðil og eigum því engan séns á undanúrslitum - raunar í besta falli möguleika á að spila um 7. sætið. En við þurfum ekkert að örvænta. Við erum með sæti á Ólympíuleikum tryggt og ef við komumst áfram á milliriðil hlýtur markmiðið að vera að vinna einn eða tvo leiki svona til að efla sjálfstraustið.
Maður hefur hins vegar heyrt sögusagnir um að þjálfarar landsliðsins muni segja af sér ef leikurinn tapast í kvöld. Mér fyndist það alveg koma til greina því það er alveg ljóst að Guðmundur Guðmunds og co. hafa gert mistök í undirbúningi mótsins og við val á leikmannahópnum. Guðmundur staðfestir það raunar sjálfur með því að velja ekki Dag og Róbert Sighvats í hópinn fyrir leikinn á móti Tékkum. En þetta kemur allt í ljós á eftir. Ætli maður hlusti ekki á lýsingu á Rás 2 síðustu mínúturnar.
posted by Thormundur |
18:12
fimmtudagur, janúar 22, 2004
::: Lasnar mæðgur og valdastríð ráðherra Sóley og Sigurveig eru báðar lasnar og voru heima í dag. Sóley var nú aðeins slöpp um síðustu helgi en um það bil þegar hún var að koma til á þriðjudag fékk hún bylmingshögg í höfuðið á æfingu og hefur verið hálf vönkuð síðan. Íslendingar eru greinilega löndum sínum verstir - en það var aumingja Heiða liðsfélagi hennar sem varð fyrir þeirri ógæfu að láta verja frá sér með þessum hætti. Sigurveig fékk hins vegar ælupest í nótt en virðist strax vera að ná sér. Henni þótti nú ekkert leiðinlegt að vera heima í dag og horfði á sjónvarp, spilaði og hlustaði á tónlist í allan dag. Ég var hins vegar sendur út í kuldann til að kaupa eitt og annað handa sjúklingunum - ís, nammi, ávexti og hitamæli.
Mál málanna hér í Danmörku er hins vegar nýjar uppljóstranir á stormasömum samskiptum forsætisráðherra og utanríkisráðherra, sem jafnframt eru formenn aðalsamstarfsflokkanna í ríkisstjórn, Venstre og Konservative. Ekstra Bladet komst nefnilega yfir myndefni frá danska ríkisútvarpinu, sem klippt var burtu við gerð heimildarmyndar um leiðtogafund ESB undir stjórn Dana síðastliðið haust. Myndinni var ætlað að varpa ljósi á baktjaldamakkið á leiðtogafundinum og styrka stjórn danska forsætisráðherrans á fundinum. Óklippt þótti heimildamyndin töluvert umdeild enda voru kvikmyndamenn svo að segja með í öllum plottum og baktjaldamakki. Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra, fékk þá að heyra það frá kollegum sínum í Evrópu og sumir gengu svo langt að kalla hann asna (hver annar en Chirac).
En aftur að efninu. Málið er hið pínlegasta fyrir ríkisstjórnina. Það er fyrst og fremst Anders Fogh sem situr í súpunni. Hann er vondi kallinn á myndunum og að mati margra opinbera þær ráðríki hans og miskunnarlausan stjórnunarstíl (minnir þetta á einhvern?). Á myndskeiðunum kemur greinilega í ljós hvernig hann niðurlægir utanríkisráðherrann, Per Stig Möller, og tekur loks af honum öll völd við samningaborðið. Á einu myndskeiðinu sést hvar Per Stig kvartar yfir því að fá ekki að viðra hugmyndir sínar. Anders Fogh svarar þá með þjósti: "Nú, hefur þú einhverjar hugmyndir?" Fleiri myndskeið eru til þar sem utanríkisráðherrann er svínaður til, m.a. af fjölmiðlafulltrúa forsætisráðherrans sem í einu myndbroti ræðir "vandamálið með utanríkisráðherrann" við innanríkisráðherrann, Bertel Haarder, sem er samflokksmaður Anders Fogh.
Þáttur danska ríkisútvarpsins er athyglisverður. Í fyrsta sinn í sögunni hafa myndbrot lekið úr aðalstöðvum DR. Forráðamenn DR eru vitanlega í áfalli vegna upplýsingalekans og hóta öllu illu; hyggjast refsa þeim sem "lak" myndunum og hóta Ekstra Bladet málsókn. Ekstra Bladet upplýsir hins vegar að DR og danska forsætisráðuneytið hefðu komist að samkomulagi um að ráðuneytið fengi að ritskoða efni við framleiðslu þáttarins - undir því yfirskyni að verja danska þjóðarhagsmuni. Með því hafa þeir hins vegar gerst sekir í að taka þátt í áróðursstríði forsætisráðherrans með því að framleiða heimildamynd í samstarfi við ráðuneytið.
Anders Fogh hefur reynt að gera lítið úr þessu máli en það er ekki enn séð fyrir endanum á því. Utanríkisráðherrann er í Afríku og undirbýr væntanlega næstu skref sín úr fjarlægð eins og Hannes. Stjórnmálasérfræðingar telja valdastríð ráðherranna mjög skaðlegt fyrir stöðu Dana í utanríkismálum - enda vilja Danir gjarnan leika aðalhlutverk á vettvangi alþjóðastjórnmála og innan ESB.
posted by Thormundur |
18:52
|