::: Voldumvej 80

laugardagur, janúar 31, 2004  

::: God morgen!
Hér á Voldumvej gerði litla heimasætan tilraun til að taka daginn afar snemma, 06:22. Sem betur fer sofnaði hún aftur en það var ekki lengi, 07:24 var hún glaðvöknuð. Ég var einstaklega hress í morgun og er búin að afreka ýmislegt frá því við fórum á fætur. Meðan við borðuðum morgunmat ræddum við um "fastelavn" - öskudag Dana - sem er 22. febrúar. Ótrúlegt en satt hefur hún fengið þá flugu í höfuðið að vera í svörtum búningi með þrífork í hendi. Er ekki alveg að skilja þetta þar sem skvísan hefur aldrei viljað sjá svört föt og hefur auk þess hingað til verið afar hrifin af öllu prinsessudóti. En nú erum við á leiðinni í Rødovre Centrum til að kaupa búninginn og verðum spennandi að sjá hvert valið verður.

En aftur að morgunafrekunum. Ég byrjaði á því að hnoða í bollur og á meðan þær hefuðust skúraði ég baðið hátt og lágt. Síðan voru bollurnar settar í ofninn og eiginmaðurinn vakinn í nýbakaðar bollur í morgunmat - ekki slæmt. Og nú er leiðinni heitið í Centrumið eins og áður sagði. Deginum verðum síðna eytt í sófanum þar sem okkar menn eru að keppa í undanúrslitum EM. Áfram Danmörk!!!

Annars að frekari fréttum af húsmæðraafrekum. Er búin að ég held að ná pönnukökugerðargeninu frá henni mömmu fram. Mamma er náttúrulega meistarinn í pönnukökunum en síðustu tvö skipti hefur mér gengið framar öllum vonum. Það er nú ekki leiðinlegt að erfa þennan einstaka pönnukökubaksturshæfileika frá mömmu og síðan notaða pönnukökupönnu (þær eru allrabestar!) frá tengdó. Ég er alveg einstaklega heppin! :-)

Á morgun keppum við Rødovre píur við Fredericia. Vonandi gengur það sem allra best - nánari fréttir af því síðar.

posted by Soley | 10:45

mánudagur, janúar 26, 2004  

::: Við unnum!!!
Loksins kom að því að við Rødovre píur bættum tveimur stigum í safnið, svo sannarlega kominn tími til þess. Við unnum nauman - og þá meina ég nauman - sigur á botnliði Albertslund. Leikurinn var vægast sagt hræðilegur af okkar hálfu, ekkert gekk upp, tönn brotnaði hjá Gitte (miðjumanninum okkar), okkur var hent út af aftur og aftur svo eitthvað sé nefnt. En við börðumst allan leikinn þrátt fyrir allt og uppskárum sigur á síðustu mínútu leiksins. Ég veit ekki hvað hefði gerst hefðum við ekki náð þessum stigum. En best að hugsa ekki um það heldur nota kraftana í leik gegn Fredericia sem við spilum á heimavelli um næstu helgi. Ef við náum að vinna hann eigum við enn góðan möguleika að vera meðal sex efstu liðanna sem er markmiðið í ár. Á næsta ári á nefnilega að sameina austur- og vesturriðil 1. deildar og fara sex efstu lið úr hvorum riðli í nýja "landsdækkende" 1. deild.

Ég kom lítið við sögu í leiknum enda var ég og er enn að jafna mig eftir hið svakalega bylmingsskot sem ég fékk í hausinn á þriðjudaginn fyrir tæpri viku. Þetta reyndist vægur heilahristingur, ótrúlegt að fá heilahristing á gamals aldri eftir að hafa fengið mörg skot í hausinn á mínum langa ferli. Heiða greyið hélt sjálfsagt að hún væri að skjóta yfir mig en hún var bara búin að gleyma hvað ég er svakalega leggjalöng - og auðvitað hávaxin. :-)

posted by Soley | 22:56

sunnudagur, janúar 25, 2004  

::: Gengur betur næst
Ballið er búið hjá strákunum okkar. Við vorum svo nærri því að komast áfram en samt svo fjarri. Þrátt fyrir að við gerðum jafntefli í kvöld fannst manni möguleikinn aldrei mikill. Þetta var greinilega ekki okkar mót. Ef við horfum framhjá hugsanlegum mistökum þjálfara virðist sem liðið hafi aldrei komist í gang. Eftir á að hyggja var það óheppni að mæta heimamönnum í fyrsta leik og möguleikarnir runnu endanlega í sandinn á móti Ungverjum. Gengur betur næst.

Danir eru hins vegar í skýjunum. Þeir áttu stórleik í kvöld og unnu Spánverja þar sem vörn og markvarsla var í heimsmælikvarða. Danska pressan er nú aftur kominn í gírinn enda eiga Danir nú sæmilega mögulega á undanúrslitum. Aðalmarkmiðið (í bili) er þó sæti á Ólympíuleikum en eitt sæti er í boði. En í þeim efnum þurfa þeir að vera ofar en Svíar, Serbar og Ungverjar sem öll berjast um þetta eina sæti.

Nú þarf maður að finna sér einhvern til að halda með. Sóley heldur auðvitað með Dönunum. Ég hef það helst gegn Dönunum hvað þeir geta verið óþolandi ánægðir með sig þegar vel gengur. Það verður að segjast að þeir hafa verið mun hógværari en nokkru sinni áður - enda hafa þær lært af reynslunni, sérstaklega eftir síðasta HM þegar þeir voru nánast krýndir heimsmeitastarar fyrir mótið.

Næsta vika verður spennandi. Spennandi leikir nánast á hverju kvöldi.

posted by Thormundur | 23:55
 

::: Risaeðlur mætast
Keppni á EM er í fullum gangi núna og úr fjölmörgum beinum útsendum að velja í sjónvarpinu. En því miður er íslenski leikurinn hvergi á dagskrá. Í þessum skrifuðu orðum er að hefjast leikur risaeðlanna á mótinu, Svía og Rússa. Sumir leikmenn hafa verið lengur í liðinu en elstu menn muna. Dönsku lýsendurnir kalla leikinn einmitt svar handboltans við Jurassic Park.

Danir voru hársbreidd frá að vinna heimsmeistara Króata í gær eftir hádramatískan leik. Þeir þurfa því að vinna Spánverja í kvöld til að taka tvö stig með sér í milliriðla og eiga séns á undanúrslitum í keppninni. Eins og lesendur vita væntanlega held ég ekki með Dönum í mótinu, frekar en endranær í karlaboltanum. En þegar valið stóð á milli Dana og Króata hélt maður með "samlöndum" sínum. Mér finnast Króatar einfaldlega vera með leiðinlegt lið og spila svolítið "dirty". Þeir hafa líka heppnina og dómara með sér - fengu til dæmis eitt stig af gjöf í leiknum á móti Spáni þegar dómararnir dæmdu kolólöglegt sigurmark þeirra á lokasekúndunni gilt.

Örlög okkar ráðast á eftir. Ef við vinnum komumst við áfram en það verður eiginlega bara til málamynda. Við fáum engin stig með í milliriðil og eigum því engan séns á undanúrslitum - raunar í besta falli möguleika á að spila um 7. sætið. En við þurfum ekkert að örvænta. Við erum með sæti á Ólympíuleikum tryggt og ef við komumst áfram á milliriðil hlýtur markmiðið að vera að vinna einn eða tvo leiki svona til að efla sjálfstraustið.

Maður hefur hins vegar heyrt sögusagnir um að þjálfarar landsliðsins muni segja af sér ef leikurinn tapast í kvöld. Mér fyndist það alveg koma til greina því það er alveg ljóst að Guðmundur Guðmunds og co. hafa gert mistök í undirbúningi mótsins og við val á leikmannahópnum. Guðmundur staðfestir það raunar sjálfur með því að velja ekki Dag og Róbert Sighvats í hópinn fyrir leikinn á móti Tékkum. En þetta kemur allt í ljós á eftir. Ætli maður hlusti ekki á lýsingu á Rás 2 síðustu mínúturnar.

posted by Thormundur | 18:12
Myndir
Gestabók
Bloggarar
Barnavefir
Greinasafn